Skattar og gjöld. Frádráttur ökutækjakostnaðar. Akstur milli heimilis og vinnustaðar. Matsreglur ríkisskattstjóra. Jafnræði skattgreiðenda.

(Mál nr. 755/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 20. apríl 1993.

I.

A leitaði til mín og kvartaði yfir úrskurði yfirskattanefndar frá 25. nóvember 1992 og framkvæmd matsreglna, er ríkisskattstjóri hefði sett á grundvelli 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. grein 3.1.0. í auglýsingu nr. 4/1991 um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1990 (framtalsárið 1991). Ennfremur beindist kvörtun A að fyrirmælum ríkisskattstjóra um færslu akstursdagbókar, sbr. grein 3.4. í auglýsingu nr. 3/1993 um skattmat í staðgreiðslu á árinu 1993.

Ég ritaði A bréf, dags. 20. apríl 1993, og gerði honum svohljóðandi grein fyrir niðurstöðum mínum í máli hans:

II.

"1.

Fyrsti liður kvörtunar yðar lýtur að því, að samkvæmt áðurnefndum matsreglum ríkisskattstjóra teljist allur akstur eigin ökutækis, milli heimilis og vinnustaðar, vera í eigin þágu og komi sá kostnaður því ekki til frádráttar fengnum ökutækjastyrk.

Í tveimur álitum mínum frá 8. febrúar 1993 í málum nr. 472/1991 [SUA 1993:264] og 416/1991 [SUA 1993:277], reyndi á framkvæmd matsreglna, er ríkisskattstjóri hafði sett á grundvelli 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum. Niðurstöður athugana minna voru þær, að úrskurðir ríkisskattanefndar og nefndar matsreglur, sem úrskurðirnir voru byggðir á, hefðu ekki verið andstæðar 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum. Til frekari upplýsingar fylgja framangreind álit hér í ljósriti. Það er skoðun mín, að fyrsti liður kvörtunar yðar lúti að sömu álitaefnum og fjallað er um í þessum álitum og vísa ég til þeirra.

2.

Annar liður kvörtunar yðar fjallar um það, hvort yður hafi verið heimilt samkvæmt umræddum matsreglum ríkisskattstjóra að færa til frádráttar ökutækjastyrk afskrift tveggja bifreiða. Í grein 3.1.0. í framangreindum matsreglum ríkisskattstjóra segir m.a.:

"Því aðeins telst ökutækjakostnaður sannaður að fullnægt sé neðangreindum skilyrðum:

1. að fram sé lögð... nákvæm sundurliðun á heildarrekstrarkostnaði ökutækisins, þ.m.t. árleg afskrift, sem reiknast kr. 96 315.... Afskrift ökutækis, sem notað er hluta úr ári reiknast hlutfallslega."

Samkvæmt framansögðu miðast afskrift bifreiðar við tiltekna fjárhæð og skal hún reiknast hlutfallslega, ef ökutæki er notað hluta úr ári. Það er skoðun mín, að ekki sé tilefni til athugasemda af minni hálfu við þá niðurstöðu yfirskattanefndar, að tilvitnuð ákvæði greinar 3.1.0. í matsreglum ríkisskattstjóra feli í sér, að einungis sé heimilt að færa til frádráttar afskrift vegna einnar bifreiðar. Verður ekki séð, að sú niðurstaða sé andstæð lögum eða að þar búi að baki ólögmæt sjónarmið.

3.

Þriðji liður kvörtunar yðar lýtur að því, að í úrskurði yfirskattanefndar 25. nóvember 1992 í máli nr. 552/1992 hafi ekki verið gætt jafnræðisreglna, þegar litið sé til úrskurðar ríkisskattanefndar frá 12. mars 1992 í máli nr. 216/1992. Í úrskurði ríkisskattanefndar í máli nr. 552/1992 segir:

"Samkvæmt aksturssamningi milli vinnuveitanda og kæranda, er fyrir liggur í málinu, er akstur í þágu vinnuveitanda, annar en akstur til og frá vinnu, metinn 240 km á hálfum mánuði og hefur skattstjóri miðað frádráttarfjárhæð við þann kílómetrafjölda. Það ber undir kæranda að sýna fram á að honum beri frádráttur kostnaðar vegna meiri aksturs en samningur tiltekur. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á slíkt og er kröfu hans um hærri frádrátt synjað."

Í niðurlagi úrskurðar ríkisskattanefndar í máli nr. 216/1992 kemur eftirfarandi fram:

"Svo sem fram er komið, leyfði skattstjóri til frádráttar á móti greiddum ökutækjastyrk... kr. Eigi kemur fram, hvernig sú fjárhæð er fundin, svo sem með tilliti til fjölda kílómetra í heild sinni eða skiptingu á milli bifreiða. Svo sem málsmeðferð skattstjóra er háttað og að því virtu, að kærandi þykir hafa leitt að því verulegar líkur að honum beri mun hærri frádráttur á móti greiddum ökutækjastyrk en skattstjóri ákvað, þykir eigi komist hjá því að hnekkja hinni kærðu breytingu."

Athugun mín á kvörtun yðar og þeim gögnum, sem henni fylgdu, hefur ekki leitt í ljós, að brotnar hafi verið á yður jafnræðisreglur. Hef ég þá litið til þess, að ekki verður ráðið, að í máli nr. 216/1992 hafi legið fyrir aksturssamningur um það, hvað skyldi teljast akstur í þágu vinnuveitanda. Ekki kemur heldur fram, að þar hafi verið um sambærilega notkun eigin ökutækis í þágu vinnuveitanda. Loks verður ekki séð, að þér hafið með sambærilegum hætti fært rök að því, að akstur yðar í þágu vinnuveitanda hafi verið meiri en nam nefndum aksturssamningi.

4.

Loks lýtur kvörtun yðar að því, að ríkisskattstjóri hafi "... sett á þessu ári fram breyttar reglur um ökutækjastyrk sem kveða á um að sanna skuli akstursþörf með því að færa akstursdagbók". Ég lít svo á, að með framangreindu vísið þér til greinar 3.4. í auglýsingu nr. 3/1993 um skattmat í staðgreiðslu á árinu 1993, en þar segir:

"Þeir aðilar sem hyggjast gera kröfu um að fá kostnað dreginn frá ökutækjastyrk sem þeir fá greiddan á árinu 1993 þurfa frá byrjun þess árs að færa akstursdagbók eða akstursskýrslu þar sem skráð er..., sbr. reglugerð nr. 490 frá 28. desember 1992. Skal færa þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess."

Með reglugerð nr. 490/1992 var 5. gr. reglugerðar nr. 591/1987 um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu breytt og hljóðar nú svo:

"Af ökutækjastyrkjum, öðrum en þeim er greinir í 3. gr., ber að reikna staðgreiðslu. Hins vegar getur launamaður lagt fram með skattframtali sínu gögn um sannanlegan akstur í þágu launagreiðanda, þ.m.t. akstursbók samkvæmt 2. mgr. 3. gr., til sönnunar því hver hafi verið akstur í þágu launagreiðanda, sbr. 1. tölul. A-liðs 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og kemur þá sá kostnaður sem sannað er að sé í þágu launagreiðanda til frádráttar við álagningu."

Reglugerð nr. 591/1987 er sett með stoð í 8. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá er gert ráð fyrir því í 1. mgr. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, að á móti fengnum ökutækjastyrk geti launþegi fært til frádráttar kostnað, sem sannaður sé og sé í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Ennfremur ber að hafa í huga fyrirmæli 94. gr. laga nr. 75/1981 um skyldu aðila til þess, að láta skattyfirvöldum í té nauðsynlegar upplýsingar og gögn og í því formi, sem þau beiðast. Samkvæmt því er það skoðun mín, að framangreindur áskilnaður ríkisskattstjóra um færslu akstursbókar byggi á nægilega skýrum lagagrunni og gefi því ekki tilefni til frekari athugasemda af minni hálfu."

III.

Í bréfi mínu til A tjáði ég honum, að samkvæmt framansögðu væri niðurstaða mín sú, að mál það, er kvörtun hans lyti að gæfi ekki tilefni til frekari athugunar af minni hálfu.