Aðgangur að upplýsingum. Öflun og meðferð upplýsinga. Þagnarskylda. Varðveisla gagna. Afhending sjúkraskýrslna.

(Mál nr. 79/1989)

Máli lokið með áliti, dags. 29. desember 1989.
Umboðsmaður leit svo á, að skýra ætti 2. mgr. 16. gr. læknalaga nr. 53/988 svo, sbr. meginreglur l. og 5. mgr. 3. gr. laga nr. 59/1983 um heilbrigðisþjónustu, að lækni, sem ekki teldi rétt að verða við beiðni sjúklings eða forráðamanns sjúklings um afhendingu sjúkraskrár, bæri að afhenda landlækni sjúkraskrá, „til frekari fyrirgreiðslu“. Kæmi þá í hlut landlæknis að taka ákvörðun um afhendingu. Voru það tilmæli umboðsmanns, að landlæknir og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið myndu sjá til þess að nefndum lagareglum yrði fylgt, að því er beiðni A varðaði, en umboðsmaður var þeirrar skoðunar, að 16. gr. læknalaga nr. 53/1988 ætti við allar sjúkraskrár, hvort sem þær hefðu verið færðar fyrir eða eftir gildistöku laganna. Loks lagði umboðsmaður áherslu á nauðsyn þess, að sett yrði hið fyrsta reglugerð sú, sem boðin er í 3. mgr. 16. gr. læknalaga nr. 53/1988.

I. Kvörtun og málavextir.

A leitaði til mín 19. janúar 1989 og kvartaði yfir því, að X, yfirlæknir geðdeildar Y spítala, hefði í bréfi, dags. 4. júlí 1988, synjað beiðni hans um að fá afhentar sjúkraskýrslur, er vörðuðu vist hans á geðdeild Y-spítala haustið 1970 og fram á vor 1971. Í bréfi læknisins benti hann A á, að sjúkraskrár væru ekki afhentar af geðdeild Y-spítala, en aðilar gætu haft samband við embætti landlæknis í slíkum tilvikum. A hafði einnig leitað til yfirlæknis annars sjúkrahúss með beiðni um að fá afhentar sjúkraskrár vegna vistunar á því sjúkrahúsi á árunum 1976-1986. Í bréfi þess læknis hafði hann lýst því, að hann teldi að lögin um afhendingu sjúkraskráa væru ekki afturvirk, en féllst á að læknir A skýrði fyrir honum inntak sjúkraskrárinnar.

Með bréfum 1. desember 1989 til landlæknis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra óskaði ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987, að embætti þeirra gerðu grein fyrir afstöðu sinni til þess, hvort fara bæri með beiðni A samkvæmt 1. og 2. mgr. 16. gr. læknalaga nr. 53/1988.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gerði grein fyrir afstöðu sinni í bréfi, sem mér barst 15. desember 1989. Þar segir meðal annars:

„Skv. 1. gr. reglugerðar nr. 34/1964 um skýrslugerðir varðandi heilbrigðismál er læknum skylt að halda skrá yfir alla sjúklinga sína. Skv. 2. gr. sömu reglugerðar er sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum skylt að halda dagbók yfir alla sjúklinga sem þar dveljast. Ráðuneytið hefur litið svo á að sjúkraskrár þessar séu eign læknis sem skrána færir eða viðkomandi stofnunar.

Með nýjum læknalögum nr. 53/1988,16. gr., er lögð sú skylda á herðar lækni að afhenda sjúkraskrá, alla eða að hluta, sjúklingi eða forráðamanni ef það þjónar ótvíræðum hagsmunum sjúklings.

Ráðuneytið telur að læknir eigi að afhenda sjúklingi ljósrit eða afrit sjúkraskýrslu til að framfylgja þessu lagaboði, en telji hann vafa á um hvort það þjóni hagsmunum sjúklings eða hann sé í vafa um ákvæði laganna um þagnarskyldu á hann að afhenda landlækni sjúkragögnin sem trúnaðarmál, sem tekur þá afstöðu til afhendingar gagnanna til sjúklings.

Ráðuneytið telur að eftir þessum ákvæðum eigi að fara þegar tekin er afstaða til afhendingar sjúkragagna til .... [A]. Ráðuneytið telur óhjákvæmilegt að 16. gr. læknalaga verði afturvirk og álítur að það hafi verið vilji löggjafans.

Vegna orðalags í bréfi .... [A] til .... [X] yfirlæknis frá 29. júní 1988 og með vísun til ofanritaðs vill ráðuneytið taka fram að það fellst ekki á þann skilning sem kemur fram í því bréfi að sjúkragögnin séu eign sjúklings.“

Landlæknir hefur í bréfi til mín 18. desember 1989 lýst þeirri skoðun sinni, að fara beri með beiðni A samkvæmt fyrirmælum 1. og 2. mgr.16. gr. læknalaga nr. 53/1988.

II. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 29. desember 1989, sagði svo:

„Í 16. gr. læknalaga nr. 53/1988 er fjallað um afhendingu sjúkragagna. Ákvæði 16. gr. eru svohljóðandi:

„Lækni er skylt að afhenda sjúkraskrá, alla eða að hluta, sjúklingi eða forráðamanni ef það þjónar ótvíræðum hagsmunum sjúklings.

Leiki vafi á nauðsyn afhendingar sjúkragagna eða þyki ástæða til vegna ákvæða laga þessara um þagnarskyldu er lækni heimilt að afhenda landlækni einum sjúkragögn sem trúnaðarmál til frekari fyrirgreiðslu.

Ráðherra setur nánari reglur um afhendingu og varðveislu sjúkragagna og röntgenmynda að fengnum tillögum landlæknis og Læknafélags Íslands.“

Þegar frumv. til nýrra læknalaga var lagt fyrir 109. löggjafarþing 1986 voru svofelld ákvæði í 15. gr. frumv. (Alþt. 1986, A-deild, bls.1163):

„Lækni er skylt að láta af hendi, til sjúklinga eða forráðamanna sjúklinga, sjúkraskrár og þau gögn er skránum fylgja.

Slík skylda verður þó eingöngu lögð á lækni sé hún nauðsynleg til þess að þjóna ótvíræðum hagsmunum sjúklings.

Lækni er heimilt að afhenda landlækni einum sjúkraskrár sem trúnaðarmál til frekari fyrirgreiðslu ef ástæða þykir til vegna ákvæða 17. gr:

Ráðherra getur að fengnum tillögum landlæknis og Læknafélags Íslands sett nánari reglur um afhendingu og geymslu sjúkraskráa og röntgenmynda.“

Í greinargerð, sem fylgdi frumv. til læknalaga, sagði svo um ofangreind ákvæði 15. gr. (Alþt.1986, A-deild, bls.1175):

„Hér er um nýmæli að ræða í lögum en ekki í framkvæmd. Ætlast er til samkvæmt þessu ákvæði að sjúklingar geti fengið sjúkraskrár og þau gögn er skránum fylgja. Hið sama skal gilda um forráðamenn sjúklinga. Hins vegar ,er lækni ekki skylt að láta sjúkraskrár af hendi meti hann málin svo að þær þjóni ekki ótvíræðum hagsmunum sjúklingsins. Í slíkum tilvikum er lækni heimilt að senda landlækni sjúkraskrár eins og gert er ráð fyrir í 2. gr., ekki síst þar sem ástæðan kann að vera þagnarskylda læknis, sbr. nánar 17. gr.

Til þess að koma á meiri festu en verið hefur er lagt til að ráðherra geti að fengnum tillögum landlæknis og Læknafélags Íslands sett nánari reglur um afhendingu og geymslu sjúkraskráa og röntgenmynda. Þykir rétt að ótvíræð lagaákvæði taki til þessara þátta að svo miklu leyti sem slíku verður við komið, t.d. með því að kveða á um hvernig læknir skuli bregðast við sé hann krafinn um sjúkraskrár.“

Við meðferð frumv. á 109. löggjafarþingi var orðalagi 15. gr. frumv. vikið til þess vegar, sem nú er í 16. gr. læknalaga nr. 53/1988. Var það gert að tillögu heilbrigðis- og trygginganefndar í efri deild Alþingis (Alþt. 1986, A-deild, bls. 3802-3803). Þessa breytingu skýrði framsögumaður svo (Alþt. 1986, B-deild, dálk. 4114):

„Einnig er efnisbreyting eða í öllu falli skýrari ákvæði um ábyrgð lækna í 9. og 10. gr. og í 15. gr., um afhendingu sjúkragagna, eru nokkuð skýrari og afdráttarlausari ákvæði um það með hvaða hætti sjúkraskrár skulu afhentar og er því ekki að neita að það eru þó nokkuð afdráttarlausari ákvæði en er að finna í núgildandi lögum.“

Frumvarp til læknalaga var endurflutt á 110. löggjafarþingi 1987 og samþykkt þá.16. gr. þess frv. var samhlj. 15. gr. eldra frumv., eins og 15. gr. hafði samkvæmt framansögðu verið breytt að tillögu nefndar á 109. löggjafarþingi, og er samhljóða 16. gr. læknalaga nr. 53/1988, eins og áður segir.

Við undirbúning læknalaga var þannig gert ráð fyrir því, að nýmælin um afhendingu sjúkraskráa væru í samræmi við fyrri framkvæmd. Er það og álit mitt, að þegar fyrir gildistöku læknalaga nr. 53/1988 hafi sú meginregla gilt, að einstaklingar ættu rétt á að kynna sér þær upplýsingar, sem stjórnvöld hefðu skráð um einkahagi þeirra, nema mikilvægir almannahagsmunir eða hagsmunir einkaaðila mæltu því í gegn, sbr. til hliðsjónar 10. gr. laga nr. 39/1985 um kerfisbundna skráningu á upplýsingum, er varða einkamálefni.

Samkvæmt ofangreindu og þar sem enginn fyrirvari er gerður í gildistökuákvæðum VIII. kafla læknalaga nr. 53/1988 um sjúkraskrár, sem færðar hafa verið fyrir gildistöku laganna, tel ég, að fara beri með allar beiðnir um afhendingu sjúkraskráa eftir ákvæðum 16. gr. læknalaga nr. 53/1988. Skiptir því ekki máli, hvort skrár hafi verið færðar fyrir eða eftir gildistöku læknalaga nr. 53/1988. Er ég sömu skoðunar og landlæknir og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið varðandi þetta álitaefni.

Ég tek fram, að skýra ber 2. mgr. 16. gr, læknalaga nr. 53/1988 svo, sbr. meginreglur 1. og 5. mgr. 3. gr. laga nr. 59/1983 um heilbrigðisþjónustu, að lækni, sem ekki telur rétt að verða við beiðni sjúklings eða forráðamanns sjúklings um afhendingu sjúkraskrár, beri að afhenda landlækni sjúkraskrá, „til frekari fyrirgreiðslu“. Komi þá í hlut landlæknis að taka ákvörðun um afhendingu.

III. Viðbrögð stjórnvalda.

Í áliti mínu frá 29. desember 1989 komst ég að þeirri niðurstöðu, að réttur aðila til aðgangs að sjúkraskrá skv. ákvæði 16. gr. læknalaga nr. 53/1988 ætti við allar sjúkraskrár, hvort sem þær hefðu verið færðar fyrir eða eftir gildistöku laganna. Í framhaldi af áliti mínu breytti Alþingi 16. gr. læknalaga með lögum nr. 50/1990 á þá lund, að réttur sjúklings til aðgangs að sjúkraskrá gilti ekki um sjúkraskrár sem færðar hefðu verið fyrir gildistöku laganna. Á grundvelli þessa nýja ákvæðis var þeim aðila, sem borið hafði fram kvörtun við mig, synjað um afrit af sjúkraskrá hans, sem færð hafði verið fyrir gildistöku nefndra laga. Hinn 26. janúar 1995 gekk í Hæstarétti dómur um rétt þessa aðila til afrits af umræddri sjúkraskrá. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. svo:

„Af þeim lagaákvæðum sem rakin hafa verið hér að framan er ljóst að sú meginregla var lögfest 1981 að einstaklingar eigi rétt á að kynna sér þær upplýsingar sem stjórnvöld hafa skráð um einkahagi þeirra nema mikilvægir almannahagsmunir eða hagsmunir einkaaðila mæli því í gegn. Þessi meginregla gildir einnig um sjúkraskrár. Hins vegar gilti það frávik um tilhögun kynningarinnar fyrir gildistöku læknalaga nr. 53/1988 að læknir viðkomandi átti að koma upplýsingunum á framfæri við hann.

Með lögum nr. 53/1988 var þessari framkvæmd breytt í það horf sem 16. gr. segir fyrir um og var engin undantekning gerð í lögunum um sjúkraskrár sem gerðar höfðu verið fyrir gildistöku þeirra. Var breytingin staðfest í 10. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga þegar þau leystu af hólmi lög nr. 53/1988. Áfrýjandi miðaði beiðni sína við gildistöku laga nr. 53/1988 og hafði margítrekað hana áður en þeim var breytt með lögum nr. 50/1990. Átti hann skýlausan rétt á að stefndi uppfyllti lagaskyldu sína án ástæðulausrar tafar eins og sagði í almenna ákvæðinu um rétt einstaklinga til upplýsinga í 10. gr. laga nr. 39/1985, sem í gildi voru þegar beiðni áfrýjanda kom fram.

Lög nr. 50/1990 verða ekki skilin á þann veg að þau nái til upplýsinga sem þegar hafði verið óskað eftir fyrir gildistöku þeirra. Reynir því ekki á ákvæði þeirra við úrlausn um fyrrgreinda lagaskyldu stefnda.

Af gögnum málsins kemur fram hver voru viðbrögð stefnda við erindi áfrýjanda. Verður að skilja þau svo að honum hafi þótt vafi leika á um nauðsyn afhendingar gagnanna. Bar honum því að fara að fyrirmælum 2. mgr. 16. gr. laga nr. 53/1988 og afhenda þau landlækni. Átti landlæknir síðan að annast frekari afgreiðslu erindis áfrýjanda. Hins vegar varð stefndi ekki við tilmælum landlæknis, sem fram komu í bréfi þess síðarnefnda frá 23. ágúst 1989, um að afhenda sér skrárnar eða afrit þeirra. Samkvæmt 18. gr. laganna var stefndi háður eftirliti landlæknis og bar landlækni að sjá til þess að hann héldi ákvæði þeirra og knýja hann til þess samkvæmt ákvæðum VII. kafla laganna ef annað dugði ekki til, sbr. einnig I. kafla laga nr. 59/1983 um heilbrigðisþjónustu, nú lög nr. 97/1990.

Samkvæmt þessari niðurstöðu á áfrýjandi rétt á að fá afrit allra sjúkraskráa, sem um hann hafa verið gerðar og eru í vörslum stefnda, með þeim hætti sem að neðan greinir. Með heimild í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 53/1988, nú 4. mgr. greinarinnar, sbr. lög nr. 50/1990, ber stefnda að framkvæma það með því að skila afriti allra sjúkraskráa hans til landlæknis innan eins mánaðar frá uppsögu dóms þessa að viðlagðri tíu þúsund króna sekt fyrir hvern dag sem líður fram yfir þann tíma.“