Aðgangur að upplýsingum. Öflun og meðferð upplýsinga. Þagnarskylda. Varðveisla gagna. Upplýsingar um greiðslu mæðralauna.

(Mál nr. 191/1989)

A kvartaði yfir því, að Tryggingastofnun ríkisins hefði synjað honum um upplýsingar varðandi greiðslu mæðralauna samkvæmt 15. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar til B, en B var áður sambýliskona A. Í bréfi til A greindi ég honum frá því, að greiðsla mæðralauna væru persónulegar lífeyristryggingar, sem renna skyldu til B og að aðrir aðilar ættu ekki kröfu á að fá upplýsingar um slíkar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, nema ef til vill í sérstökum undantekningartilfellum, þegar ríkir hagsmunir væru til staðar. Með hliðsjón af framangreindu ákvæði almannatryggingalaga og þar sem ekki kæmi fram, í hvaða tilgangi A óskaði að fá þessar upplýsingar, taldi ég, að ekki væri ástæða til þess að ég hefði frekari afskipti af ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli þessu.