Almannatryggingar. Tryggingaráð. Réttur til mæðralauna.

(Mál nr. 59/1988)

Máli lokið með bréfi, dags. 18. apríl 1989.
Ekki talið að skilyrði um þriggja ára búsetu íslensks námsmanns í Noregi til að fá greidd mæðralaun fari í bága við Norðurlandasamning um félagslegt öryggi, sbr. lög nr. 66/1981 um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd Norðurlandasamning um félagslegt öryggi. Samkvæmt 6. gr. samningsins er það meginreglan, að réttur manna fari eftir lögum þessa lands, þar sem þeir eru búsettir.

A, sem dvaldi við nám í Noregi, leitaði til mín vegna synjunar norskra stjórnvalda á beiðni hennar um að verða veitt undanþága frá grein 12-1, lið b, í norsku almannatryggingalögunum, þ.e. því skilyrði að hafa verið búsett í Noregi í þrjú ár, áður en sótt er um mæðralaun, og vegna synjunar Tryggingastofnunar ríkisins um mæðralaun, þar sem hún hefði ekki átt lögheimili hér á landi, sbr. 15. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar. A taldi sig órétti beitta, þar sem hún nyti ekki sömu réttinda, þegar lögheimili er flutt til Noregs, eins og lög gera ráð fyrir. Taldi A ennfremur, að hún nyti ekki þess jafnréttis, sem henni væri ætlað samkvæmt 4. gr. Norðurlandasamnings um félagslegt öryggi.

Hinn 14. febrúar 1989 ritaði ég heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu bréf og óskaði eftir upplýsingum um, hvert væri álit ráðuneytisins á hugsanlegum rétti A til mæðralauna í Noregi á grundvelli áðurnefnds Norðurlandasamnings um félagslegt öryggi og hvort og þá með hvaða hætti væri von fyrir íslenska ríkisborgara, sem væru í sömu stöðu og A, að fá greidd mæðralaun með einhverjum hætti.

Í svarbréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 7. apríl 1989, vísaði ráðuneytið til umsagnar deildarstjóra í sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins, en þar sagði:

„Í tilviki .... [A] tryggir Norðurlandasamningur um félagslegt öryggi frá 5. mars 1981 henni ekki rétt til mæðralauna í Noregi við flutning frá Íslandi. Byggist það á því, að samkvæmt samningnum er litið á mæðralaun sem almennar bætur í peningum til barna, sbr. e-lið 1. mgr. 2. gr. samningsins, og gilda því eingöngu almennu ákvæðin í I., II. og IV. hluta samningsins um mæðralaunin, en hins vegar ekki sérákvæði í III. hluta (sbr. t.d. ákvæði 20. gr.). Sú grein samningsins, sem kemur því til skoðunar í tilviki [A] er 4. gr., sem m.a. tryggir ríkisborgurum annarra norrænna landa sama rétt og norskum ríkisborgurum við framkvæmd norskrar félagsmálalöggjafar. Skv. bréfi [T] trygdekontor eiga norskir ríkisborgarar ekki óskoraðan rétt til mæðralauna, þar sem þeir þurfa að hafa verið tryggðir í Noregi í þrjú ár. Jafnréttinu telst þar með fullnægt.

Þegar kemur að beitingu heimildarákvæðis norðmanna, þar sem þeir geta ákveðið að falla frá skilyrðinu um þriggja ára tryggingatíma þegar sérstakar ástæður gera það sanngjarnt, sbr. bréf [T] trydgekontor, er hins vegar ekki unnt að vísa til jafnréttisreglunnar. Hér eiga norðmenn fulla lögsögu.

Vegna ofangreinds tilviks er rétt að taka eftirfarandi fram:

1. Norðurlandasamningi um félagslegt öryggi frá 5. mars 1981 var aldrei ætlað að fylla upp í öll „göt“, t.d. við flutning norrænna ríkisborgara milli landanna. Þetta kemur m.a. fram í inngangsorðum samningsins.

2. Markmið samningsins er að norrænir ríkisborgarar njóti í stórum dráttum sama réttar og ríkisborgarar hlutaðeigandi lands.

3. Mögulegt ætti að vera að taka tilvik sem þetta upp við endurskoðun þá á samningnum, sem nú stendur fyrir dyrum og reyna þannig að tryggja rétt íslenskra ríkisborgara til greiðslu mæðralauna í sambærilegum tilvikum.“

Í bréfi ráðuneytisins var því lýst, að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra myndi beita sér fyrir því að ofangreint yrði tekið til athugunar við endurskoðun samningsins, en endurskoðun samningsins væri að hefjast.

Hinn 18. apríl 1989 greindi ég A frá þeirri niðurstöðu minni, að ég gæti ekki haft frekari afskipti af máli hennar. Jafnframt ritaði ég heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og tilkynnti honum þessa niðurstöðu mína og óskaði eftir því, að ég yrði látinn vita, hver yrði framvinda mála við endurskoðun Norðurlandasamnings um félagslegt öryggi, að því er varðaði það atriði, sem kvörtun A laut að.

Með bréfi, dags. 19. desember 1990, innti ég heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið eftir því, hvað liði endurskoðun á Norðurlandasamningi um félagslegt öryggi, en ráðuneytið hafði áður upplýst, að slík endurskoðun stæði fyrir dyrum og þá yrði tekið til athugunar málefni það, sem fjallað var um í áliti mínu. Svar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 2. janúar 1991, hljóðar þannig:

„Ráðuneytið vísar til bréfs dags. 19. desember 1990, móttekið 27. desember 1990 þar sem spurst er fyrir um hvað líði endurskoðun á Norðurlandasamningi um félagslegt öryggi.

Fulltrúi Íslands í endurskoðunarnefndinni kom á framfæri athugasemdum Íslands vegna mæðralauna í Noregi og er þess getið í plaggi frá endurskoðunarnefndinni, sem sent var norrænu embættismannanefndinni á þessu sviði. Plagg þetta fylgir hér með í ljósriti.

Um endurskoðunina er það að segja að gerð var tillaga um að fresta henni um sinn þangað til ljóst verður um afdrif viðræðna EFTA-EB ríkjanna um evrópskt efnahagssvæði. Þess er að vænta að öll þau mál skýrist síðar á þessu ári.“