Skattar og gjöld. Lækkun eða niðurfelling fasteignaskatta hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum. Ólögmæt sjónarmið. Rangar forsendur.

(Mál nr. 672/1992)

Máli lokið með áliti, dags. 30. ágúst 1993.

A og B kvörtuðu yfir þeirri ákvörðun bæjarstjórnar X að hafna umsókn þeirra um niðurfellingu eða lækkun fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði þeirra, en umsóknin byggðist á heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, til að lækka eða fella niður fasteignaskatt, sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Synjunin, sem staðfest var af félagsmálaráðuneytinu, var á því byggð, að A og B, sem teldust eignamikil og ættu m.a. tvær fasteignir, sem þau byggju í til skiptis, uppfylltu ekki skilyrði reglna bæjarstjórnar um heimildarlækkanir þessar, sem kvæðu svo á, að lækkun eða niðurfelling fasteignaskatts tæki ekki til þeirra elli- og örorkulífeyrisþega, sem eignamiklir væru og gætu búið í eigin húsnæði þrátt fyrir lágar tekjur.

Umboðsmaður féllst á það með A og B, að óheimilt væri að líta til eigna elli- og örorkulífeyrisþega við ákvörðun um niðurfellingu eða lækkun fasteignaskatta samkvæmt nefndu lagaákvæði og rakti í því sambandi breytingu, sem varð á lagaákvæði þessu, í það horf að miða við tekjulitla lífeyrisþega í stað efnalítilla, en sú breyting átti samkvæmt lögskýringargögnum rætur að rekja til venju, sem skapast hafði við túlkun ákvæðisins. Samhliða breytingu þessari var gerð sú breyting, að sveitarfélögum var heimilað að lækka eða fella niður fasteignaskatt í þessum tilvikum í stað skyldu til þess áður. Umboðsmaður tók fram, að sveitarstjórn yrði að lögum að gæta samræmis og jafnræðis svo og þeirra sjónarmiða, sem umrætt lagaákvæði byggðist á, ákvæði hún að beita heimild þessari. Í þessu sambandi fjallaði umboðsmaður um reglur bæjarstjórnar X um þetta efni, er giltu vegna ársins 1992, og tók fram, að af reglunum væri ljóst, að niðurfelling eða lækkun fasteignaskatts væri reist á tekjuviðmiðun og þar væri enginn fyrirvari um eignir viðkomandi. Með tilliti til þeirra lagasjónarmiða, sem ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1990 væri byggt á, yrði að telja, að reglurnar byggðust á lögmætum sjónarmiðum. Ákvörðun í máli A og B hefði hins vegar byggst á öðrum sjónarmiðum og miðast við, að þau teldust "eignamikil". Að lögum bæri við beitingu umrædds ákvæðis að miða við tekjur en ekki eignir og því hefði synjunin byggst á ólögmætum sjónarmiðum. Að auki taldi umboðsmaður, að synjunin hefði verið byggð á röngum forsendum, þar sem ekki hefði verið tekið tillit til þess við ákvörðun málsins, að B var 75% öryrki og örorkan talin varanleg. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til bæjarstjórnar X að taka málið á ný til meðferðar, kæmi fram ósk um það, og haga þá meðferð þess í samræmi við fyrrgreind sjónarmið.

I. Kvörtun.

Hinn 11. september 1992 leituðu til mín A og B og kvörtuðu yfir þeirri ákvörðun bæjarstjórnar X 23. júní 1992, að hafna umsókn þeirra um niðurfellingu eða lækkun fasteignagjalda vegna fasteignar þeirra Y. Umrædd ákvörðun var kærð til félagsmálaráðuneytisins 1. júlí 1992 og gekk úrskurður ráðuneytisins hinn 20. ágúst s.á. Niðurstaða úrskurðarins var sú, að bæjarstjórn X hefði ekki brotið gegn 4. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1990.

A og B töldu, að við ákvörðun um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts, á grundvelli 4. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1990 um tekjustofna sveitarfélaga, væri einungis heimilt að líta til tekna hlutaðeigandi elli- eða örorkulífeyrisþega, sbr. orðið "tekjulitlum" í umræddu ákvæði, en ekki eigna.

II. Málavextir.

Með bréfum, dags. 30. janúar og 24. febrúar 1992, fóru A og B fram á það við bæjarstjórn X, að fasteignaskattur af fasteign þeirra Y yrði lækkaður.

Með bréfi, dags. 6. mars 1992, svaraði bæjarlögmaður X erindi A og B. Bréfið hljóðar svo:

"Varðar beiðni yðar um niðurfellingu eða lækkun fasteignagjalda af fasteigninni [Y].

Þér bendið réttilega á það í bréfi yðar, dags. 24. feb. 1992, til bæjarritara, að skv. 5. gr. 4. mgr. l. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga, er sveitarstjórn heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða.

Bæjarstjórn [X] hefur nýtt sér þetta heimildarákvæði í mörg ár og lækkað og fellt niður fasteignaskatt nefndra hópa, skv. reglum, sem hún setur hvert ár um tekjumörk.

Tilgangur þessarar undanþágu frá greiðslu fasteignaskatts að hluta eða öllu er að gera þeim elli- og örorkulífeyrisþegum, sem tekjulitlir eru kleift að búa í eigin húsnæði áfram, þó svo tekjur þessa hóps hafi skerst vegna örorku eða elli.

Samkvæmt greindum tilgangi taka reglur bæjarstjórnar um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts ekki til þeirra elli- eða örorkulífeyrisþega, sem eignamiklir eru og geta búið í eigin húsnæði, þrátt fyrir litlar tekjur.

Þar sem þér verðið að teljast eignamikill og eigið m.a. tvær fasteignir sem þér búið í til skiptis, er ekki hægt að verða við beiðni yðar."

Með bréfi, dags. 23. júní 1992, var A og B tilkynnt um afgreiðslu bæjarstjórnar á erindi þeirra og hljóðar það svo:

"Á fundi bæjarstjórnar [X] þann 16. júní s.l. var neðanskráð afgreiðsla framtalsnefndar á erindi yðar staðfest:

"Umsókn [A], um niðurfellingu fasteignagjalda.

Nefndin hafnar beiðninni og vísar til bréfs bæjarlögmanns, dags. 6.3. 1992."

Þetta tilkynnist yður hér með."

Með bréfi, dags. 1. júlí 1992, kærðu A og B ákvörðun bæjarstjórnar X. Félagsmálaráðuneytið kvað upp úrskurð í málinu hinn 20. ágúst 1992. Þar segir meðal annars:

"Í [...] 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga er um að ræða heimildarákvæði til handa sveitarstjórn til að fella niður eða lækka fasteignaskatt. Sveitarstjórn er því ekki skylt að fella niður fasteignaskatt elli- eða örorkulífeyrisþega ef um það er sótt og ekki hafa verið settar reglur um slíkt af sveitarstjórn. Ef slíkar reglur hafa hins vegar verið settar, getur sveitarstjórn ekki hafnað lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts ef umsækjandi uppfyllir öll þau skilyrði sem sett eru í reglum sveitarstjórnar.

[X] setti reglur í samræmi við heimildina í 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga á bæjarstjórnarfundi hinn 17. desember 1991 og er í þeim reglum lögð áhersla á að umsækjandi, þ.e. tekjulítill elli- eða örorkulífeyrisþegi, búi sjálfur í íbúð þeirri, sem sótt er um niðurfellingu fasteignaskatts vegna.

Með hliðsjón af bréfi bæjarlögmanns [X] til yðar, dags. 6. mars 1992, og framangreindum reglum frá 17. desember 1991, telur ráðuneytið að [X] hafi ekki brotið gegn 4. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1990 um tekjustofna sveitarfélaga og að [X] hafi fært fram fullnægjandi rök fyrir höfnun umsóknar yðar um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts vegna fasteignarinnar [Y]. Af þeim sökum telur ráðuneytið ekki vera grundvöll fyrir frekari aðgerðum í máli þessu."

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 14. september 1992 ritaði ég félagsmálaráðherra bréf og óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og B og léti mér í té gögn, er málið snertu. Í bréfi mínu sagði ennfremur:

"Sérstaklega er óskað eftir því, að gerð verði grein fyrir því, hvort ráðuneytið telji lögmætt að líta til eigna elli- eða örorkulífeyrisþega við ákvarðanir af umræddu tagi, en af hálfu [A] og [B] er því haldið fram, að skv. orðalagi 4. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1990 sé einungis heimilt að líta til tekna, sbr. orðið "tekjulitlum" í umræddu ákvæði."

Svar félagsmálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags 6. nóvember 1992, og segir þar meðal annars:

"Núgildandi lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 90/1990 eru að stofni til frá árinu 1972. Þá hljóðaði 3. mgr. 5. gr. laganna svo: "Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt, sem efnalitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Sama gildir um slíka lífeyrisþega, sem ekki hafa verulegar tekjur umfram elli- og örorkulífeyri."

Með lögum nr. 47/1982 var ákvæði þessu breytt, þannig að um skyldu sveitarstjórna varð að ræða en ekki heimild til niðurfellingar fasteignaskatts. Ákvæði þetta hljóðaði þá svo: "Skylt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt, sem efnalitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Sama gildir um slíka lífeyrisþega, sem ekki hafa verulegar tekjur umfram elli- og örorkulífeyri." Í greinargerð með frumvarpi til laga þessara segir ennfremur svo: "Rétt og skylt er að geta þess, að flest sveitarfélög sýna lipurð og tillitssemi í þessum efnum. En þar sem í hlut á efnalítið fólk, sem verður að lifa á elli- og örorkulífeyri og hefur ekki gjaldþol til greiðslu slíkra fasteignaskatta, þykir flutningsmönnum eðlilegt að breyta þessari heimild sveitarstjórna í skyldu."

Með lögum nr. 91/1989 var ákvæði þessu breytt í núverandi horf, þ.e.: "Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða." Í athugasemdum með frumvarpi til þessara laga segir svo um 3. mgr. 5. gr.: "Í 3. mgr. er lagt til að í stað orðsins "skylt" í núgildandi lögum komi orðið "heimilt" þar sem talið er að ákvæðið nái tilgangi sínum með því orðalagi og því eðlilegra að nota það." Ennfremur var orðalagi 3. mgr. 5. gr. breytt þannig að miða skyldi við "tekjulitla" einstaklinga en ekki "efnalitla". Nú er samsvarandi ákvæði að finna í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1990.

Með bréfi bæjarlögmanns [X] til félagsmálaráðuneytisins, dags. 23. júlí 1992, fylgdi endurrit úr fundargerðarbók bæjarstjórnar [X] frá fundi 17. desember 1991. Í þeirri fundargerð segir m.a.:

"Jafnframt felur bæjarstjórn framtalsnefnd m.t.t. 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga að fella niður fasteignaskatt ellilífeyrisþega af eigin íbúð, sem þeir búa í á eftirfarandi hátt:

...

Við mat á niðurfellingu fasteignaskatts af eigin íbúð öryrkja, sem hann notar sjálfur, skal framtalsnefnd hafa hliðsjón af fyrrgreindum reglum."

Samkvæmt þessu hefur bæjarstjórn [X] nýtt sér framangreinda heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1990 og er í reglum bæjarins lögð áhersla á að umsækjandi, þ.e. tekjulítill elli- eða örorkulífeyrisþegi, búi sjálfur í íbúð þeirri, sem sótt er um niðurfellingu fasteignaskatts á.

Ráðuneytið telur að reglur [X], sem fram koma í framangreindri fundargerð, brjóti ekki í bága við fyrirmæli laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 90/1990, enda er í framangreindri 4. mgr. 5. gr. nefndra laga einungis um að ræða heimildarákvæði til handa sveitarstjórn að fella niður eða lækka fasteignaskatt. Sveitarstjórn er því ekki skylt að fella niður fasteignaskatt elli- eða örorkulífeyrisþega ef um það er sótt og ekki hafa verið settar reglur um slíkt af sveitarstjórn. Ef slíkar reglur hafa hins vegar verið settar, getur sveitarstjórn ekki hafnað lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts ef umsækjandi uppfyllir öll þau skilyrði sem sett eru í reglum sveitarstjórnar."

Með bréfi, dags. 12. nóvember 1992, gaf ég A og B kost á að gera athugasemdir við bréf félagsmálaráðuneytisins. Athugasemdir þeirra bárust mér með bréfi, dags. 17. nóvember 1992.

Hinn 4. febrúar 1993 ritaði ég bæjarstjórn X bréf og óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að bæjarstjórnin skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og B og léti mér í té gögn, er málið snertu. Þá óskaði ég þess sérstaklega, að gerð yrði grein fyrir því, á hvaða sjónarmiðum ákvörðun bæjarstjórnar væri byggð og hvers vegna ekki hefði verið byggt á reglum þeim um viðmiðun tekna, sem bæjarstjórn X samþykkti á fundi sínum hinn 17. desember 1991.

Svar bæjarlögmanns X barst með bréfi, dags. 25. maí 1993, og hljóðar það svo:

"Sjónarmið bæjarstjórnar [X] við ákvörðunartöku 16. júní 1992 um að hafna umsókn [A] og [B] um niðurfellingu fasteignaskatts sem álagður var 1992 á [Y], eru eftirfarandi:

Reglur bæjarstjórnar [X] og ákvæði 5. gr. 4. mgr. l. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga um að lækka eða fella niður fasteignaskatt taka einungis til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega.

Þar sem [A] er hvorki elli- né örorkulífeyrisþegi á nefnt heimildarákvæði um lækkun fasteignaskatts og reglur bæjarstjórnar ekki við um hann. Hann hefur ekki náð 67 ára aldri ennþá og hefur aldrei haldið því fram eða lagt fram gögn um að hann sé örorkulífeyrisþegi. Umsókn hans um lækkun eða niðurfellingu á fasteignaskatti er því eðlilega synjað.

Tilgangur þessarar undanþáguheimildar frá greiðslu fasteignaskatts að hluta eða öllu hlýtur að vera sá að gera þeim elli- og örorkulífeyrisþegum, sem tekjulitlir eru, kleift að búa í eigin húsnæði áfram, þó svo tekjur þessa hóps hafi skerst vegna örorku eða elli.

Það er ekki í samræmi við greindan tilgang að lækka að fella niður fasteignaskatt álagðan á [B] og var erindi hennar því jafnframt synjað, enda um einstakling að ræða, sem telja verður eignamikinn og á m.a. tvær fasteignir, sem hún býr í til skiptis. Þau sjónarmið sem að baki liggja að gefa ellilífeyrisþegum að búa í eigin húsnæði eins lengi og kostur er, eiga alls ekki við í þessu tilviki, þ.e. að veita gjaldendum heimild til þess að njóta niðurfellingar á fleiri en einni eign.

Mér er ekki kunnugt um að beiðni um niðurfellingu fasteignaskatts aðila, sem býr í fleiri en einni fasteign hafi borist bæjaryfirvöldum í [X] og koma jafnræðisreglur stjórnarfarsréttar ekki til álita að mínu viti.

Sú breyting, sem varð á umræddri lagamálsgrein, styrkir frekar sjónarmið mitt um greindan tilgang, þ.e. að gjaldendum verði gefinn kostur á því að búa áfram í eigin húsnæði eftir að ellilífeyrisaldri er náð, þó um t.d. einbýlishús sé að ræða. Þó viðmiðunin byggist nú á tekjum gjaldenda, en ekki efnum af ofangreindri ástæðu, er að mínu áliti jafn augljóst, að tilgangur löggjafans hefur ekki verið sá að stóreignafólk, sem á fleiri en eina fasteign, sem það býr sjálft í, njóti heimildarákvæðisins."

Athugasemdir A og B við framangreint bréf bárust mér með bréfi, dags. 28. maí 1993. Þar segir meðal annars, að ljósrit af örorkumati A, dags. 15. janúar 1992, hafi verið meðal þeirra gagna, sem hann hafi látið bæjaryfirvöldum í X í té með erindi sínu um niðurfellingu eða lækkun fasteignaskatts. Þá kemur þar fram, að þau hafi aðeins óskað eftir lækkun eða niðurfellingu á fasteignagjöldum fyrir aðra fasteign sína.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

Í niðurstöðu álits míns fjallaði ég um þær forsendur og þau sjónarmið sem synjun bæjaryfirvalda í X var byggð á. Sagði svo um þessa þætti í áliti mínu, dags. 30. ágúst 1993:

"1. Örorka A.

Í bréfi bæjarlögmanns X, dags. 25. maí 1993, er á því byggt að A sé hvorki elli- né örorkulífeyrisþegi og hafi m.a. af þeirri ástæðu verið synjað um lækkun eða niðurfellingu fasteignagjalda.

Í gögnum, sem félagsmálaráðuneytið lét mér í té, var vottorð Tryggingastofnunar ríkisins. Þar kemur fram, að örorka A sé 75% og er hún talin varanleg. Verður því að telja, að nefnd synjun bæjaryfirvalda í X hafi verið byggð á röngum forsendum.

2. Sjónarmið þau, sem ákvörðun var byggð á.

Ekki virðist hafa verið á því byggt af hálfu X að umrædd fasteign hafi verið í notum annarra en A og B. Hins vegar má telja um það deilt, hvort sveitarstjórn sé heimilt að líta til eigna elli- eða örorkulífeyrisþega, þegar ákveðið er af sveitarstjórn að nota heimild til lækkunar- eða niðurfellingar á fasteignaskatti elli- eða örorkulífeyrisþega skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1990 um tekjustofna sveitarfélaga, en A og B halda því fram, að aðeins megi líta til tekna elli- og örorkulífeyrisþega við beitingu umrædds heimildarákvæðis, sbr. orðið "tekjulitlum" í umræddu ákvæði.

3. mgr. 5. gr. laga nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. 1. gr. laga nr. 47/1982, hljóðaði svo:

"Skylt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt, sem efnalitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Sama gildir um slíka lífeyrisþega, sem ekki hafa verulegar tekjur umfram elli- og örorkulífeyri." (Leturbreyting mín).

Á árinu 1988 var lagt fram frumvarp á Alþingi til laga um tekjustofna sveitarfélaga. Í frumvarpinu var lögð til sú breyting á 3. mgr. 5. gr. eldri laga, að orðið "heimilt" skyldi koma í stað orðsins "skylt" í upphafi málsgreinarinnar (Alþt. 1988, A-deild, bls. 1366). Að öðru leyti var gengið út frá því, að ákvæðið skyldi vera óbreytt (Alþt. 1988, A-deild, bls. 1377). Félagsmálanefnd efri deildar kom hins vegar fram með svohljóðandi breytingartillögu á umræddu ákvæði:

"Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða." (Alþt. 1988, A-deild, bls. 2744. Leturbreyting mín).

Í nefndaráliti félagsmálanefndar efri deildar segir meðal annars um forsendur þessarar breytingar:

"Nefndin hefur fjallað rækilega um frumvarpið á mörgum fundum og leggur til að það verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. [...]

1. Við 5. gr. eru þrjár breytingar. [...] Að síðustu er í 3. mgr. kveðið á um að sveitarstjórnum sé heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum. Heimildarákvæði frumvarpsins hafði verið miðað við efnalitla elli- og örorkulífeyrisþega, en breytingin er gerð vegna þess að í framkvæmd hefur ætíð verið miðað við tekjur en ekki eignir. Um þessa venju hafa skapast nokkuð samræmdar reglur hjá sveitarfélögum." (Alþt. 1988, A-deild, bls. 2743-2744.)

Í ræðu framsögumanns félagsmálanefndar sagði meðal annars um þessa breytingartillögu:

"Að síðustu er í 3. mgr. kveðið á um að sveitarstjórnum sé heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum. Heimildarákvæði frumvarpsins hafði verið miðuð við efnalitla elli- og örorkulífeyrisþega, en breytingin er gerð vegna þess að í framkvæmd hefur ætíð verið miðað við tekjur en ekki eignir. Um þessa venju hafa skapast nokkuð samræmdar reglur hjá sveitarfélögum." (Alþt. 1988, B-deild, dálk. 5045.)

Umrædd breytingartillaga félagsmálanefndar var samþykkt. Lögin voru síðan birt sem lög nr. 91/1989. Lög um tekjustofna sveitarfélaga voru síðan endurútgefin, með síðari breytingum, sem lög nr. 90/1990.

Að framansögðu athuguðu er ljóst, að markmið breytinga á nefndu ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga var að færa ákvæðið til samræmis við þá venju, sem félagsmálanefnd efri deildar Alþingis taldi hafa skapast við túlkun þessa ákvæðis. Venjan fólst í því, að miða lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts við tekjur "en ekki eignir", eins og glögglega kemur fram í lögskýringargögnum þeim, sem hér að framan eru rakin. Af þessum sökum var orðalagi ákvæðisins breytt með þeim hætti, að orðið "tekjulitlum" kom í stað orðsins "efnalitlum". Verður þess vegna að telja, að frá og með gildistöku laga nr. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga hafi sveitarfélögum verið óheimilt að líta til eigna elli- og örorkulífeyrisþega við ákvörðun um niðurfellingu eða lækkun fasteignaskatta skv. 4. mgr. 5. gr. laganna.

Frá og með gildistöku laga nr. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga var um heimild að ræða, en ekki skyldu, fyrir sveitarfélögin að lækka eða fella niður fasteignaskatt hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum. Ákveði sveitarstjórn hins vegar að beita umræddri heimild, verður að lögum að gæta samræmis og jafnræðis svo og þeirra sjónarmiða, sem umrætt ákvæði er að lögum byggt á.

Samkvæmt bókun í fundargerðabók bæjarstjórnar X frá fundi 17. desember 1991 hefur bæjarstjórn X tekið ákvörðun um að beita lækkunar- og niðurfellingarheimild 4. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1990. Í fundargerðinni segir m.a. svo:

"Jafnframt felur bæjarstjórn framtalsnefnd m.t.t. 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga að fella niður fasteignaskatt ellilífeyrisþega af eigin íbúð, sem þeir búa í á eftirfarandi hátt:

a) Einstaklingar:

Brúttótekjur 1991 allt að 721.000 100% niðurfelling.

" " " " 861.000 70% "

" " " " 1.104.000 30% "

b) Hjón, sem bæði eru ellilífeyrisþegar:

Brúttótekjur 1991 allt að 1.130.000 100% niðurfelling.

" " " " 1.350.000 70% "

" " " " 1.530.000 30% "

Við mat á niðurfellingu fasteignaskatts af eigin íbúð öryrkja, sem hann notar sjálfur, skal framtalsnefnd hafa hliðsjón af fyrrgreindum reglum."

Af reglunum er ljóst, að niðurfelling fasteignaskatts fyrir árið 1991 er reist á tekjuviðmiðun og þar er engin fyrirvari um eignir hlutaðeigandi. Með tilliti til þeirra lagasjónarmiða, sem ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 90/1990 er byggt á, og hér að framan eru rakin, verður að telja að reglur bæjarstjórnar X byggist á lögmætum sjónarmiðum.

Ákvörðun í máli A og B er hins vegar byggð á öðrum sjónarmiðum, eins og greinir í bréfi bæjarlögmanns X, dags. 6. mars 1992. Í bréfinu segir svo:

"Tilgangur þessarar undanþágu frá greiðslu fasteignaskatts að hluta eða öllu er að gera þeim elli- og örorkuþegum, sem tekjulitlir eru kleift að búa í eigin húsnæði áfram þó svo tekjur þessa hóps hafi skerst vegna örorku eða elli.

Samkvæmt greindum tilgangi taka reglur bæjarsjórnar um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts ekki til þeirra elli- eða örorkulífeyrisþega, sem eignamiklir eru og geta búið í eigin húsnæði, þrátt fyrir litlar tekjur.

Þar sem þér verðið að teljast eignamikill og eigið m.a. tvær fasteignir sem þér búið í til skiptis, er ekki hægt að verða við beiðni yðar."

Af umræddu bréfi er ljóst, að synjunin um lækkun fasteignagjalda vegna Y er byggð á því, að A og B telist "eignamikil", þar sem þau eigi tvær fasteignir. Eins og rakið er hér að framan, var á því byggt við setningu laga nr. 91/1989, að við beitingu heimildar 4. mgr. 5. gr. laganna yrði miðað við tekjur "en ekki eignir" við ákvörðun um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatta hjá elli- og örorkulífeyrisþegum. Einnig af þessum sökum verður óhjákvæmilega að telja, að umrædd synjun um lækkun fasteignaskatts af Y hafi verið byggð á ólögmætum sjónarmiðum.

V. Niðurstaða.

Niðurstöður mínar dró ég saman á svofelldan hátt:

"Samkvæmt því, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða mín, að synjun um lækkun fasteignaskatts af Y, sem tilkynnt var af bæjaryfirvöldum í X með bréfum, dags. 6. mars og 23. júní 1992, hafi verið byggð á röngum forsendum og ólögmætum sjónarmiðum. Af þeim sökum eru það tilmæli mín, að bæjarstjórn X taki málið á ný til meðferðar, komi fram ósk um það frá A og B, og hagi þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið, sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan."

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Með bréfi, dags. 5. nóvember 1993, óskaði ég eftir upplýsingum hjá bæjarstjórn X um það, hvort A og B hefðu óskað eftir því að mál þeirra yrði tekið til meðferðar á ný, og hvort einhverjar ákvarðanir hefður verið teknar í framhaldi af því.

Svar bæjarlögmanns X, dags. 18. nóvember 1993, hljóðar svo:

"[A] og [B] voru endurgreidd fasteignagjöld álögð árið 1992 eftir að álit yðar um þeirra mál lá fyrir. Þetta var gert án óska frá þeim. Þá hafa þeim verið endurgreidd fasteignagjöld álögð 1993 þó þau hafi aldrei beðið um niðurfellingu þeirra."