Almannatryggingar. Tryggingaráð. Greiðsla fæðingarorlofs.

(Mál nr. 185/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 16. október 1989.

A leitaði til mín í október 1989 og kvartaði yfir því, að Tryggingastofnun ríkisins hefði brotið á sér rétt, er stofnunin greiddi henni fæðingarorlof. Nánar fólst kvörtun A í því, að fjórða greiðsla af fimm hefði verið greidd 14. desember 1988, en verið bókfærð með fimmtu og síðustu greiðslu í janúar 1989. Hefði það leitt til þess að janúargreiðslan skertist, þar sem persónuafsláttur A hefði dugað aðeins að hluta samkvæmt staðgreiðslukerfi skatta.

Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins 17. febrúar 1989 vegna fyrirspurnar um fæðingarorlof A sagði:

„Þegar sótt er um greiðslur í fæðingarorlofi fyrir fæðingu barns er tekið fram að umsækjandi skuli afhenda Tryggingastofnun ríkisins fæðingarvottorð þegar í stað eftir fæðingu. Hafi fæðingarvottorð ekki borist eftir þriðju greiðslu eru frekari greiðslur stöðvaðar þar til vottorð berst.

Greiðslur til ..... [A] hófust 01.09.88. en hún afhenti Tryggingastofnun ekki fæðingarvottorð fyrr en 12.12.88. og var það eftir útborgun á desemberbótum Tryggingastofnunar (10.12.88.). Greiðslur fyrir desember og janúar bókfærðust þ.a.l. sem janúargreiðslur. Tekið skal fram að skylt er að taka fæðingarorlof í einu lagi, sbr. 2. mgr. 1. gr. rgj. nr. 546/1987 um fæðingarorlof.

Skv. skattalögum hófst nýtt skattár 01.01.89. og var ekki unnt að millifæra persónuafslátt frá árinu 1988 yfir til ársins 1989. Lenti .... [A] í skattafdrætti á janúargreiðsluna þar sem eins mánaðar persónuafsláttur dugði ekki til að halda greiðslunum skattlausum.“

Ég ritaði A bréf 16. október 1989, þar sem ég vísaði til þess að samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins vildi stofnunin leiðrétta greiðslur til A með þeim hætti, að greiðslan, sem A fékk greidda 14. desember 1988, kæmi til uppgjörs vegna staðgreiðsluskatta í þeim mánuði, þ.e. á árinu 1988. Jafnframt beindi ég þeim tilmælum til A, að hún sneri sér til Tryggingastofnunar ríkisins og óskaði eftir leiðréttingum. Hinn 16. október 1989 ritaði ég Tryggingastofnun bréf, þar sem ég vísaði til bréfs míns til A og óskaði eftir því að mér yrði gerð grein fyrir afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á væntanlegu erindi A um leiðréttingu.

Hinn 23. nóvember 1989 barst mér bréf Tryggingastofnunar ríkisins, þar sem meðal annars sagði:

„Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar tilkynnir yður hér með, að afdreginn skattur í desember 1988 kr. 17.372,00 hefur verið endurgreiddur ofangreindri [A]. Við afgreiðslu málsins var haft samráð við deildarstjóra staðgreiðsludeildar ríkisskattstjóraembættisins.“