Fangelsismál. Náðun. Afplánun refsingar að aflokinni sjúkrahúsvist.

(Mál nr. 41/1988)

Máli lokið með áliti, dags. 30. október 1989.

Umboðsmaður taldi, að þegar vafi risi um hæfi fanga til þess að afplána refsingu að lokinni sjúkrahúsvist, yrði að ganga tryggilega frá því að fangi yrði ekki færður í fangelsi á ný, ef heilsa hans leyfði það ekki. Á hefði skort í þessum efnum, er dómsmálaráðuneytið fyrirskipaði að fanginn A yrði færður í fangelsi á ný að lokinni sjúkrahúsvist. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til dómsmálaráðuneytisins að koma skipan þessara mála í það horf, að ekki yrði hætta á að slík atvik kæmu fyrir. Ekki talin ástæða til að gagnrýna ákvörðun dómsmálaráðuneytisins í upphafi, að færa B til afplánunar, enda var þá gætt ákvæða 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 260/1957 um fangavist um skoðun fangelsislæknis við upphaf fangavistar.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 28, september 1988 leitaði A til mín fyrir hönd eiginmanns síns B og kvartaði yfir þeirri ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 23. september 1987, að B skyldi þann dag færður í fangelsi til að afplána dæmda refsingu. Einnig bar A fram kvörtun út af þeirri ákvörðun ráðuneytisins, að færa B á ný í fangelsi, eftir að hann hafði verið útskrifaður af sjúkrahúsi 16. október 1987. Taldi A, að dómsmálaráðuneytið hefði á þennan hátt stofnað heilsu B í verulega hættu. A kvartaði ennfremur yfir framkomu tveggja lögreglumanna við handtöku B 16. október 1987.

Hinn 23. september 1987 var B færður í Hegningarhúsið að Skólavörðustíg 9 í Reykjavík, en áður sama dag hafði verið farið fram á, að afplánun yrði frestað á grundvelli læknisvottorða um heilsubrest hans. B var hinn 1. október 1987 fluttur úr Hegningarhúsinu og lagður inn á lyfjadeild X-spítala til rannsóknar, en 16. sama mánaðar töldu læknar ekki ástæðu til lengri dvalar á sjúkrahúsi. Fór B heim til sín, en sama dag ákvað dómsmálaráðuneytið, að B skyldi handtekinn og færður í fangelsi á ný. Fóru tveir lögreglumenn í því skyni til heimilis þeirra A og B . B bar við heilsuleysi sínu og þeirri niðurstöðu lækna, að ekki væri rétt að hann yrði færður í fangelsi á ný. Eftir að starfsmaður ráðuneytisins hafði átt tal við S, fangelsislækni, ákvað hann að afplánun B skyldi fresta um sinn og varð því ekki af fangelsun B.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 4. október 1988 ritaði ég lögreglustjóranum í Reykjavík og dómsmálaráðherra bréf og bað þá um tiltækar upplýsingar varðandi málið, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Mér bárust upplýsingar frá dómsmálaráðuneytinu í bréfi, dags. 31. janúar 1989. Skýrslur þeirra tveggja lögreglumanna, sem fengið var það hlutverk að færa B í fangelsi á ný hinn 16. október 1987 bárust með bréfum lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 9. nóvember 1988 og 23. maí 1989.

Daginn áður en B var færður í fangelsi 23. september 1987 gaf K, læknir og sérfræðingur í hjartasjúkdómum, vottorð um heilsufar B. Þar segir meðal annars, að B hafi lengi átt við að stríða offitu, háþrýsting og sykursýki á nokkuð háu stigi. Er þeirri skoðun jafnframt lýst, að vegna þessara sjúkdóma geti fangelsisvist haft mjög óheillavænleg áhrif á heilsufar B og töluverð áhætta því samfara fangelsisvist, ef til kæmi.

Samkvæmt skýrslu S fangelsislæknis, var B skoðaður af fangelsislæknum 23. september, 28. september og 1. október 1987. Samkvæmt sjúkraskrá hafi B verið einkennalaus 23. og 28. september, en 1. október hafi hann skýrt frá einkennum, sem hafi leitt til þess að hann hafi verið lagður inn á lyfjadeild Landakotsspítala.

Niðurstaða mín varðandi þennan lið kvörtunar B varð sú, að ekki væru rök til að gagnrýna þá ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, að láta B hefja afplánun refsingar í fangelsi hinn 23. september 1987, enda var gætt ákvæða 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 260/1957 um fangavist um skoðun fangelsislæknis við upphaf afplánunar. Þá yrði ekki ráðið af þeim gögnum, sem aflað var, að framkoma lögreglumanna á heimili A og B hinn 16. október 1987 hefði verið aðfinnsluverð.

III.

Í bréfi dómsmálaráðuneytisins frá 31. janúar 1989 er fjallað um ástæður þess, að

ráðuneytið fyrirskipaði handtöku B 16. október 1987 í því skyni að færa hann í fangelsi á ný. Þar segir meðal annars:

„Eins og áður er fram komið var ... [B] dæmdur í 5 mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Ráðuneytið telur að því sé ekki aðeins heimilt heldur skylt að sjá um að dómnum sé framfylgt. Sé dæmdur maður haldinn sjúkdómi verður á hverjum tíma að meta hvernig fullnusta eigi refsivistardóma gagnvart honum, m.a. hvort þeir séu látnir afplána í fangelsi eða annarri stofnun sbr. 2. mgr. 39. gr. alm. hgl. Ráðuneytið telur að það hafi verið í fullum rétti þegar það ákvað að ..... [B] skyldi látinn hefja afplánun og að fullt tillit hafi verið tekið til heilsu hans, enda hann þegar í upphafi afplánunar skoðaður af læknum sem töldu þá að unnt væri að láta hann afplána refsingu í fangelsi. Varðandi handtökuskipun 16. október 1987 ítrekar ráðuneytið það sem áður er fram komið að .. ... [B] var útskrifaður úr sjúkrahúsi áður en afplánun er frestað og á slíkt er litið sem strok úr fangavist. Aftur á móti er ljóst að þar áttu sér stað þau mistök að læknar [X-spítala] voru búnir að ræða við fangelsislækni um að [B] yrði ekki látinn í fangelsi á ný, en er ..... [B] var útskrifaður höfðu fangelsislækni ekki borist umbeðin gögn frá [X-spítala] svo hann gæti lagt málið fyrir ráðuneytið til ákvörðunar.“

Hinn 8. júní 1989 ritaði ég dómsmálaráðherra bréf, þar sem ég vísaði til þess, að af bréfi ráðuneytisins frá 31. janúar 1989 mætti ráða, að hinn 16. október 1987 hefði verið gefin út skipun um handtöku B til að færa hann í fangelsi til að halda áfram afplánun refsingar, enda þótt þá hefði leikið vafi á, hvort hann væri til þess hæfur af heilsufarsástæðum. Með vísan til þessa taldi ég rétt að gefa dómsmálaráðuneytinu kost á því að koma að frekari skýringum og upplýsingum, að því er þessi atvik vörðuðu, áður en ég lýsti áliti mínu í tilefni af þeim, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987. Jafnframt taldi ég sérstaka ástæðu til þess að dómsmálaráðuneytið gerði grein fyrir því, hvort gætt hefði verið ákvæða reglugerðar nr. 260/1957 um fangavist.

III.1.

Dómsmálaráðuneytið svaraði bréfi mínu með bréfi, dags. 30. júní 1989. Í bréfi ráðuneytisins kom meðal annars eftirfarandi fram:

„Eins og stendur í bréfi ráðuneytisins dags. 31. janúar sl. gaf ráðuneytið út skipun um að handtaka ..... [B] eftir að hann var útskrifaður af sjúkrahúsinu. Sú handtökuskipun er dags. 16. október 1987. Það er ekki óalgengt að fangar séu lagðir inn á sjúkrahús og samkvæmt 12. gr. laga um fangelsi og fangavist nr. 48/1988 telst dvöl þar til afplánunar nema í undantekningartilfellum. Fyrir gildistöku laga nr. 48/1988 var samskonar ákvæði í 1. mgr. 46. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Almenna reglan er sú, að þegar sjúkrahússvist lýkur er fanginn færður á ný í fangelsi, nema ákvörðun sé tekin um annað. Yfirgefi fangi sjúkrahús án þess að afplánun sé frestað, er það strok úr fangavist. Þegar [B] var útskrifaður af [X-spítala] þann 16. október 1987 hafði ekki verið haft samband við ráðuneytið til að láta vita um ástand hans. Þegar handtökubeiðni var gefin út hafði ráðuneytið ekki ástæðu til að ætla að ..... [B] væri óhæfur til afplánunar og því ekki um að ræða að þá „léki vafi á“, að .... [B] væri hæfur til afplánunar sbr. bréf yðar. .....

Í bréfi yðar óskið þér sérstaklega eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort það telji að gætt hafi verið ákvæða reglugerðar nr. 260/1957 um fangavist,

Samkvæmt símtali við yður mun hér vera átt við hvort ekki hafi verið rétt að afla umsagnar fangelsislæknis um hvort ...... [B] væri hæfur til fangavistar er hann var útskrifaður af sjúkrahúsinu 16. október 1987.

Eins og áður er fram komið er ekki óalgengt að fangar séu lagðir inn á sjúkrahús og er almenna reglan sú að þeir fari að lokinni sjúkrahúsvist í fangelsi á ný. Þegar vafi hefur verið á hvort fangi sé hæfur til fangavistar að lokinni sjúkrahússvist, sem er sjaldgæft, hafa læknar viðkomandi sjúkrahúss haft samband við fangelsislækni eða ráðuneytið og ráðuneytið síðan tekið, í framhaldi af því, ákvörðun um losun eða áframhaldandi fangavist í samráði við fangelsislækni.

Ráðuneytið telur að þegar fangi er lagður inn á sjúkrahús sé ekki nauðsynlegt að fá sérstakt álit fangelsislæknis, við útskrift hans, um hvort hann sé hæfur til afplánunar, nema þegar læknar viðkomandi sjúkrahúss koma á framfæri sérstökum ábendingum eða athugasemdum um að vafi kunni að leika á að viðkomandi sé hæfur til fangavistar. Slíkar ábendingar eða athugasemdir höfðu ekki borist ráðuneytinu þegar ..... [B] var útskrifaður af ..... [X-spítala] þann 16. október 1987.“

III.2.

Í framhaldi af bréfi dómsmálaráðuneytisins frá 30. júní 1989 ritaði ég dómsmálaráðherra hinn 3. ágúst 1989 svohljóðandi bréf :

„Ég vísa til fyrri bréfaskipta út af kvörtun þeirri, sem , . . [A] hefur borið fram varðandi afplánun ... [B] á refsingu samkvæmt dómi Hæstaréttar.

Í bréfi ráðuneytisins, dags. 30. júní s.l., kemur fram að ... [S], læknir, hafi verið fjarverandi í sumarleyfi og því hafi ekki verið unnt að fá álit hans vegna ofangreinds máls. Ég leyfi mér að óska eftir að ráðuneytið afli skýrslu [S] um afskipti hans af þessu máli. Sérstaklega óska ég eftir að hann tjái sig um afskipti sín af málinu eftir að ... [B] var lagður inn á ... [X-spítala] 1. október 1987, og hvort læknar ... [X-spítala] hafi haft samband við hann sama dag og ... [B] var útskrifaður, eins og ... [B] heldur fram, Jafnframt óska ég eftir að fá afhent ljósrit af bréfum þeim og gögnum sem kunna að hafa farið milli ... [S] og lækna á ... [X-spítala] vegna þessa máls. Með bréfi þessu fylgir ljósrit af bréfi ... [J], læknis, dags. 9. desember 1987. Ég óska eftir að .. , [S] verði kynnt efni þess bréfs og lýsing ... [J] á því að samkomulag þeirra um útskrift ... [B] væri nægjanlegt. Ég óska einnig eftir því að ráðuneytið tjái sig um skýringar . . . . [S], ef það telur ástæðu til þess, og á það sérstaklega við ef . . . . [S] staðfestir frásögn . . . [J] um að munnlegt samkomulag þeirra hafi verið nægjanlegt til að útskrifa ... [B] heim til sín. ...

Vegna fyrirspurnar minnar um reglugerð nr. 260/1957 um fangavist, tekur ráðuneytið fram í bréfi sínu, dags. 30. júní 1989, að það telji að ekki sé nauðsynlegt að fá sérstakt álit fangelsislæknis um það, hvort fangi sé hæfur til afplánunar eftir að hafa verið lagður inn á sjúkrahús og útskrifaður þaðan, „nema þegar læknar viðkomandi sjúkrahúss koma á framfæri sérstökum ábendingum eða athugasemdum um að vafi kunni að leika á að viðkomandi sé hæfur til fangavistar.“ Þá kemur fram að þegar vafi hafi verið á því hvort fangi sé hæfur til fangavistar að lokinni sjúkrahúsvist, sem sé sjaldgæft, hafi „læknar viðkomandi sjúkrahúss haft samband við fangelsislækni eða ráðuneytið og ráðuneytið síðan tekið, í framhaldi af því ákvörðun um losun eða áframhaldandi fangavist í samráði við fangelsislækni.“ Vegna þessara orða og með tilvísun til þess, sem fram kemur í bréfi ... [J], læknis, dags. 9. desember 1987, óska ég eftir að ráðuneytið skýri viðhorf sitt til þess, hvort upplýsingar þær sem læknar á ,.. [X-spítala] segjast hafa komið áframfæri við ... [S], hafi ekki verið fullnægjandi til þess að ráðuneytið tæki „í framhaldi af því, ákvörðun um losun eða áframhaldandi fangavist í samráði við fangelsislækni. “...“

Bréfi þessu svaraði dómsmálaráðuneytinu með bréfi, dags. 31. ágúst 1989. Þar segir meðal annars:

„... Samkvæmt beiðni sendist hjálagt ljósrit af skýrslu ... [S] vegna málsins. Varðandi beiðni um ljósrit af bréfum og gögnum sem kunna að hafa farið á milli ... [S] og lækna á . .. [X-spítala] vegna þessa máls skal tekið fram að hér mun vera um að ræða bréf lækna á .. . [X-spítala] til . .. [S], sem áður hefur verið nefnt. Þrátt fyrir ítarlega leit hefur bréf þetta ekki fundist. Eftir að ... [B] var útskrifaður af ... [X-spítala] sendu læknar þar læknum Hegningarhússins læknabréf varðandi ... [B]. Það er þessu máli óviðkomandi.

Varðandi beiðni um að ráðuneytið tjái sig um skýringar . . . [S] vill ráðuneytið taka fram að ... [S] staðfestir að hann var sammála læknum á ... [X-spítala] um að „sakir hjartasjúkdóms fangans væri óeðlileg áhætta tekin með því að vista fangann í fangelsi.“ Óbeint staðfestir hann einnig að munnlegt samkomulag væri nægjanlegt til að útskrifa fangann, en hann staðfestir ekki að um slíkt samkomulag hafi verið að ræða.

Varðandi fyrirspurn um hvort upplýsingar þær sem læknar á [X-spítala] segjast hafa komið á framfæri við ... [S] hafi ekki verið fullnægjandi fyrir ráðuneytið til ákvörðunartöku um losun eða áframhaldandi fangavist skal tekið fram að þær voru fullnægjandi, en fangelsislæknar taka ekki ákvörðun um losun, heldur ráðuneytið og eins og áður er fram komið var þetta mál ekki lagt fyrir ráðuneytið til ákvörðunartöku áður en [B] var útskrifaður af ... [X-spítala] ...“

III.3.

Skýrsla ... [S] fangelsislæknis, dags. 28. ágúst 1989, um afskipti hans af máli þessu hljóðar þannig:

„1. Fanginn var skoðaður þrisvar af fangelsislæknum: 23/9/87 og 01/10/87 af undirrituðum og 28/09/87 af ... [ÞG] fangelsislækni. Samkvæmt sjúkraskrá er fanginn einkennalaus 23/09/87 og 28/09/87. 01/10/87 skýrði fanginn frá einkennum sem leiddu til þess að hann var lagður inn á Lyfjadeild ... [X-spítala].

2. ... [J] sérfræðingur í hjarta- og æðasjúkdómum hafði tvisvar samband við mig varðandi fangann. Urðum við í fyrra samtalinu sammála um að sakir hjartasjúkdóms fangans væri óeðlileg áhætta tekin með því að vista fangann í fangelsi. Bað ég hann þá um að senda bréf með sérfræðingsáliti sínu þannig að ég gæti lagt málið fyrir í Dómsmálaráðuneytinu. Nokkrum dögum seinna hafði ... [J] læknir aftur samband við undirritaðan og tjáði mér að það stæði til að útskrifa fangann. Tjáði ég honum þá að mér hefði enn ekki borist álitsgerð hans og sendi hann mér bréfið öðru sinni skömmu síðar. Ekki minnist ég þess að ... [J] hafi nefnt við mig ákveðna dagsetningu útskriftar og ljóst er að ég vissi ekki nákvæmlega hvaða dag fanginn myndi útskrifast af ... (X-spítala]. Ekki man ég orðaskipti okkar ... [J] en hins vegar er ljóst að ég taldi að læknisálit okkar myndu nægja til þess að dómsmálaráðuneytið frestaði fangavistinni.

3. Að kvöldi útskriftardags hafði fjölskylda ... [B] samband við mig heim og sagði að menn væru komnir til þess að færa ... [B] aftur í fangelsið. Ég hafði þá strax samband við ... [Z] og skýrði honum frá niðurstöðum okkar læknanna og lauk þar með afskiptum mínum af ... [B].“

III.4.

Hér að framan hefur verið vitnað til bréfs .. , [J], læknis. Er rétt að taka upp eftirfarandi kafla úr bréfinu:

„Um aðdraganda þess að ... [B] fór af [X-spítala] þann 16.10.87 er það að segja, að upprunalega ræddi ég við fangelsislækninn, ... [S] og lýsti þeirri skoðun minni að nokkuð öruggt væri að [B] hefði slæman kransæðasjúkdóm. Sem rökstuðningur fyrir því voru breytingar á hjartalínuriti, brjóstverkir og sannfærandi svörun við lyfjameðferð. Sendi ég ... [S] bréf þess efnis. Skömmu fyrir útskrift hafði ég aftur sambandi við [S] til að kanna hvort framhald yrði á vistun ... [B]. Hafði ... [S] þá ekki fengið bréfið ennþá, sem hafði þó farið af stað a.m.k. 5 dögum áður. Var hann sammála því að m.t.t. heilsufarsástæðna væri ekki æskilegt að ... [B] færi aftur í fangelsi og varð því að samkomulagi að ... [B] útskrifaðist heim til sín. Spurði ég þá ... [S] hvort ekki þyrfti að koma til einhver skrifleg gögn. Svaraði hann því til að munnlegt samkomulag okkar væri nóg til þess að ... [B] mætti fara heim.

Var ... [B] síðan útskrifaður af sjúkrahúsinu með fullu samþykki okkar á venjulegan hátt eins og aðrir sjúklingar með lyfjakort, leiðbeiningar, lyfseðla og bráðabirgða útskriftarbréf. Kom það okkur mjög á óvart þegar talið var að ... [B] hefði farið í óleyfi af sjúkrahúsinu. Þá skal það einnig tekið fram að ... [B] fór mjög skilmerkilega eftir þeim ábendingum sem honum voru gefnar hér á sjúkrahúsinu og var allur hinn þægilegasti í viðmóti þrátt fyrir erfiðar aðstæður sínar.“

IV. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 30. október 1989, sagði svo:

„Ég fellst á þá skoðun dómsmálaráðuneytisins, að á yfirvöldum fangelsismála hvíli ekki skylda til að láta undantekningarlaust skoða fanga, sem dvalið hafa á sjúkrahúsi á meðan á refsivist stendur, í því skyni að ganga úr skugga um það, hvort fangi sé hæfur til að afplána refsingu í fangelsi að sjúkrahúsvist lokinni. Það er hins vegar álit mitt, að í þeim tilvikum, þegar vafi rís um hæfi fanga að þessu leyti, verði að ganga tryggilega frá því, að úr því sé skorið og að fangi verði ekki færður í fangelsi á ný, ef niðurstaðan er sú, að heilsa hans leyfi það ekki,

Í fyrrnefndu bréfi dómsmálaráðuneytisins frá 30. júní s.l. segir, að læknar viðkomandi sjúkrahúss hafi samband við fangelsislækni eða ráðuneytið, þegar vafi rísi um, hvort fangi sé hæfur til fangavistar að lokinni sjúkrahúsvist. Í framhaldi af því taki ráðuneytið síðan ákvörðun um lausn eða áframhaldandi fangavist í samráði við fangelsislækni. Ég hef ekki við þessa tilhögun að athuga, en vek athygli á því, að hún reyndist ekki sem skyldi í máli því, sem hér er til umræðu.

Í máli því, sem hér er sérstaklega fjallað um, hafði læknir á X-spítala rætt við fangelsislækni um heilsu B og þeir læknarnir orðið sammála um, að óeðlileg hætta yrði tekin með því að vista B í fangelsi, eins og nánar er rakið í 2. lið fyrrgreinds bréfs S, fangelsislæknis, frá 28. ágúst s.l. Þegar læknarnir ræddu saman öðru sinni höfðu umbeðin gögn ekki borist S og óskaði hann því eftir að fá þau send á ný. Ég fellst á það álit dómsmálaráðuneytisins, sem fram kemur í bréfi þess til mín, dags. 31. janúar 1989, að mistök hafi orðið við sendingu umræddra gagna. Í skýrslu S, dags. 28. ágúst s.l., kemur fram, að hann tjáði hlutaðeigandi lækni á X-spítala, að læknaálit þeirra myndi nægja til þess að dómsmálaráðuneytið frestaði fangavist B. Ég tel því, að eftir síðara samtal læknanna hafi S sem fangelsislækni, og þar með trúnaðarmanni dómsmálaráðuneytisins, borið að hafa frumkvæði að því að greina dómsmálaráðuneytinu frá stöðu mála og leita eftir afstöðu þess, hvað sem leið móttöku hans á áðurgreindu bréfi læknisins. Hér skorti því á að tryggilega væri um búið, að ekki yrði hafist handa um að færa fanga, sem ekki var til þess hæfur, í fangelsi á ný, að sjúkrahúsdvöl hans lokinni. Það er hins vegar ekki á færi mínu að fjalla nánar um, hvort og þá hvaða áhrif framangreint atvik hefur haft á heilsu B .

Í tilefni af framangreindu eru það tilmæli mín, að dómsmálaráðuneytið komi skipan þessara mála í það horf, að ekki verði hætta á slík atvik komi fyrir. Ég óska jafnframt eftir því að mér verði gerð grein fyrir viðbrögðum ráðuneytisins við þessum tilmælum mínum.“

Hinn 4. janúar 1990 tilkynnti dómsmálaráðuneytið mér, að ráðuneytið hefði þann dag ritað Fangelsismálastofnun ríkisins bréf í tilefni af áliti umboðsmanns. Í bréfinu kom eftirfarandi fram:

„Með hliðsjón af niðurstöðum umboðsmanns beinir ráðuneytið því til Fangelsismálastofnunar að ekki verði gefin fyrirmæli um handtöku á fanga sem útskrifaður er af sjúkrahúsi, án heimildar frá stofnuninni, fyrr en kannað hefur verið hjá viðkomandi læknum eða fangelsislækni hvort viðkomandi sé hæfur til áframhaldandi afplánunar.“