Fangelsismál. Náðun. Afgreiðsla á beiðni um náðun.

(Mál nr. 77/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 21. mars 1989.
A bar fram kvörtun útaf synjun dómsmálaráðuneytisins og fullnustumatsnefndar á beiðni um náðun. Af því tilefni tók umboðsmaður fram, að ráðuneytinu hefði ekki verið skylt á þeim tíma, er það fjallaði um mál hans, að rökstyðja sérstaklega synjun sína á náðunarbeiðni hans. Ráðuneytinu hefði heldur ekki verið skylt að kynna A umsögn fullnustumatsnefndar um náðunarbeiðni hans, áður en ráðuneytið fjallaði um hana.

I.

A leitaði til mín 6. janúar 1989 út af synjun dómsmálaráðuneytisins og fullnustumats nefndar að verða við beiðni hans um náðun af 4 mánaða fangelsisrefsingu, en þar af voru 2 mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára. A kvartaði yfir því, að synjun dómsmálaráðuneytisins hefði ekki verið rökstudd og ekki hefði verið tekin efnisleg afstaða til beiðni hans, heldur hafi hún verið afgreidd án þess að tekið væri tillit til þeirra gagna, sem fylgdu beiðninni. Þá kvartaði A yfir því, að hann hefði ekki fengið að vita, á hverju synjun fullnustumatsnefndar byggðist og hann því ekki fengið tækifæri til að tjá sig um umsögn nefndarinnar, áður en ráðuneytið tók ákvörðun um náðunarbeiðni hans.

II.

Hinn 25. janúar 1989 fór ég þess á leit, að dómsmálaráðuneytið léti mér í té eftirfarandi upplýsingar:1. Hvernig hagað væri meðferð og afgreiðslum beiðna um náðun af refsingu? 2. I hvaða formi fullnustumatsnefnd léti ráðuneytinu í té umsagnir sínar um náðunarbeiðni og hvernig hagað væri rökstuðningi af hálfu nefndarinnar? 3. Hvaða reglur giltu um rétt umsækjanda til að kynna sér umsögn fullnustumatsnefndar, áður en ráðuneytið tæki ákvörðun um beiðni hans? 4. ... 5. Hvernig almennt væri staðið að boðun dómþola til afplánunar?

Í svarbréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 14. febrúar 1989, sagði um fyrstu spurningu mína, að frá 1. mars 1978 til áramóta 1988-1989 hefðu gilt starfsreglur nr. 409/1977 fyrir fangelsismáladeild dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og auglýsing nr. 3/1980 um breytingu á þeim. Síðan sagði:

„Frá 1. mars 1978 og fram til síðustu áramóta var málsmeðferð sú að starfsmaður fangelsismáladeildar fór yfir umsóknir um náðun og tók saman minnisblað um málið í heild þar sem kom fram hvert erindið var, fyrir hvað viðkomandi var dæmdur, sakarferill, rökstuðning umsækjanda og önnur atriði ef um það var að ræða. Fyrir fundi í fullnustumatsnefnd, sem nefndin skv. 8. gr. er kölluð, voru nefndarmönnum send þessi

minnisblöð. Í framhaldi af afgreiðslu fullnustumatsnefndar tók dómsmálaráðherra eða þeir starfsmenn dómsmálaráðuneytisins sem umboð höfðu til slíkrar ákvörðunartöku, ákvörðun um afgreiðslu beiðna um náðun.

Með reglugerð um upphaf og lok fangavistar nr. 569/1988 sem tók gildi 1. janúar 1989, voru framangreindar starfsreglur fyrir fangelsismáladeild dóms- og kirkjumálaráðuneytisins felldar brott. ...

Sú meginbreyting sem hér er um að ræða er að samkvæmt 2. gr. laga um fangelsi og fangavist nr. 48/1988 hefur Fangelsismálastofnun tekið yfir fullnustu refsivistardóma sem sinnt var af fangelsismáladeild dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 1. mars 1978 - 31. desember 1988. Starfsmenn Fangelsismálastofnunar undirbúa nú beiðnir sem lagðar eru fyrir fullnustumatsnefnd. Í framhaldi af afgreiðslu fullnustumatsnefndar á náðunarbeiðnum tekur dómsmálaráðherra eða sá starfsmaður dómsmálaráðuneytis sem umboð hefur til slíkrar ákvörðunartöku ákvörðun um afgreiðslu máls og felur Fangelsismálastofnun að tilkynna dómþola um afgreiðslu á erindinu.

2. ...

Svar: Fullnustumatsnefnd heldur gerðarbók þar sem ákvarðanir nefndarinnar eru bókaðar og er fundargerð undirrituð af nefndarmönnum í lok fundar. Fundargerð er umsögn fullnustumatsnefndar til ráðuneytis.

Hvað varðar rökstuðning nefndarinnar er hann yfirleitt í formi stuttrar bókunar og að sjálfsögðu fer það eftir eðli máls hversu ítarleg sú bókun er.

Hvað varðar náðunarbeiðnir skal tekið fram að nefndin telur sig þurfa ítarlegri rökstuðning ef mælt er með náðun en ef lagt er til að erindinu verði synjað, þar sem náðun verði ekki veitt nema sérstakar ástæður eru til staðar.

3. ...

Svar: Um þetta atriði gilda engar almennar reglur: Ráðuneytið lítur svo á að það að leggja beiðni um náðun fyrir fullnustumatsnefnd sé hluti af málsmeðferð innan ráðuneytis og að þegar umsækjandi sendir beiðni um náðun sé hann búinn að koma á framfæri þeim sjónarmiðum sem hann telur réttlæta náðun.

5. ...

Svar: Almenna reglan er sú að þegar óskilorðsbundinn refsidómur berst til fullnustu er viðkomandi dómþola skrifað bréf og honum tilkynnt um dóminn og hann jafnframt boðaður til að mæta tiltekinn dag, eftir ca. 4-5 vikur frá dagsetningu bréfsins, til afplánunar. Bréf þetta er sent í ábyrgðarpósti og með móttökukvittun þannig að hægt er að fylgjast með því hvort viðtakandi fær bréfið. Ef bréfið er endursent eða ókunnugt er um heimilisfang dómþola er viðkomandi lögreglustjóra falið að birta viðkomandi boðun um að mæta til afplánunar. Leiti viðkomandi dómþoli eftir fresti á að hefja afplánun er heimilt að veita hann í allt að 8 mánuði, skv. 4. mgr.1. gr. reglugerðar um upphaf og lok fangavistar nr. 569/1988. Sambærileg regla var áður í 4. gr. starfsreglna fyrir fangelsismáladeild dóms- og kirkjumálaráðuneytisins nr. 409/1977 svo sem henni var breytt með auglýsingu nr. 3/1980.

Hæstaréttardómar eru sendir viðkomandi lögreglustjóra til birtingar og er þeim jafnframt falið að afhenda dómþola bréf þar sem hann er boðaður í afplánun.

Mæti dómþoli ekki eftir að hafa fengið boðun eða ef liðinn er sá frestur sem hann hefur fengið til að mæta til afplánunar er viðkomandi lögreglustjóra falið að handtaka viðkomandi og færa til afplánunar. ...“

III.

Meðal gagna, sem fylgdu bréfi ráðuneytisins, voru beiðnir A um náðun ásamt tilgreindum fylgigögnum.

Í bréfi mínu til A, dags. 21. mars 1989, tjáði ég honum í fyrsta lagi, að samkvæmt þeim upplýsingum og gögnum, sem ég hefði aflað, væri ljóst, að fyrir fullnustumatsnefnd og dómsmálaráðuneytinu hefðu legið rök þau og gögn, er hann hafði fært fram til stuðnings beiðni sinni. Taldi ég ekki ástæðu til að ætla annað en að nefndin hefði kynnt sér þessi rök og gögn, áður en hún lét í té umsögn sína, og gilti það sama um afgreiðslu ráðuneytisins á beiðni hans. Síðan sagði í bréfi mínu:

„Varðandi það að synjun ráðuneytisins hafi ekki verið rökstudd, ber að hafa í huga að í umsókn yðar er farið fram á náðun af dæmdri refsingu. Það að fallist sé á beiðni um náðun hlýtur því jafnan að vera undantekning frá þeirri reglu að dæmd refsing komi til framkvæmda. Ég get því fallist á það sjónarmið fullnustumatsnefndar að þörf sé á ítarlegri rökstuðningi, ef mælt er með náðun en ef lagt er til að náðunarbeiðni verði synjað. Hins vegar er á það að líta að á þeim tíma, sem ákvarðanir um beiðni yðar voru teknar, voru ekki í gildi reglur, er mæltu fyrir um að fullnustumatsnefnd eða dómsmálaráðuneytið skyldi rökstyðja ákvarðanir sínar varðandi náðunarbeiðnir. Ég tel því, að ráðuneytið hafi ekki verið skylt að rökstyðja sérstaklega synjun þess á beiðni yðar um náðun, dags. 5. október 1988. ...“

Í öðru lagi tjáði ég A, að eins og reglum um störf fullnustumatsnefndar hefði verið háttað á þeim tíma, sem hér skipti máli, hefði dómsmálaráðuneytinu ekki verið skylt að kynna honum umsögn nefndarinnar, áður en það tók afstöðu til náðunarbeiðninnar.

Að endingu tjáði ég A, að samkvæmt ofanskráðu væri niðurstaða mín sú, að ekki væri ástæða til að ég tæki kvörtun hans til frekari meðferðar.