Fangelsismál. Náðun. Flutningur fanga úr norsku fangelsi til afplánunar dæmdrar refsingar hér á landi.

(Mál nr. 98/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 6. júní 1989.

A, sem var íslenskur ríkisborgari, kvartaði yfir því að hafa verið fluttur úr norsku fangelsi til að afplána dæmda refsingu hér á landi.

Í bréfi til A 6. júní 1989 greindi ég honum frá því, að samkvæmt 20. gr. laga nr. 69/1963 um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl., færi fullnusta refsidóms því aðeins fram hér á landi, að beiðni um það kæmi frá þar til bærum aðila í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð og að ákvörðun um það, hvort verða skyldi við slíkri beiðni, heyrði undir dómsmálaráðherra. Síðan sagði í bréfi mínu:

„Lögmæti þeirrar ákvörðunar verður samkvæmt 22. gr. laga nr. 69/1963 borið undir dómstóla, í Reykjavík sakadóm Reykjavíkur. Samkvæmt bréfi yðar, dags. 4. apríl s.l., ... og upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu var yður samkvæmt eigin ósk m.a. sent ljósrit af lögum nr. 69/I963. Ég tel, að með því hafi ráðuneytið vakið athygli yðar á því, að bera mætti lögmæti umræddrar ákvörðunar undir dómstóla. Það er skoðun mín, að yður sé enn fært að bera ákvörðun dómsmálaráðherra undir dómstóla.“

Samkvæmt þessu taldi ég ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þessa kvörtun A.