Fangelsismál. Náðun. Svör við erindum fanga um reynslulausn.

(Mál nr. 114/1989)

Máli lokið með áliti, dags. 20. júní 1989.
Talið meginregla, að hver sá, sem beri upp erindi við stjórnvöld, þar á meðal fangar, eigi rétt á að fá í hendur skriflegt svar frá því, stjórnvaldi sem í hlut á. Um slík svarbréf til fanga gildi 4. mgr. 18. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist. Umboðsmaður taldi samkvæmt því, að dómsmálaráðuneytið hefði átt að senda A sjálfum skriflegt svar við beiðni hans um reynslulausn.

I. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 15. mars 1989 barst mér kvörtun frá A, sem vistaður var í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. A kvartaði yfir því, að hann hefði ekki sjálfur fengið svar við beiðni sinni um reynslulausn, heldur hefði svarið verið sent forstöðumanni fangelsisins, sem síðan hefði greint sér munnlega frá innihaldi bréfsins.

Ég ritaði dómsmálaráðherra bréf, dags. 21. mars 1989, og óskaði eftir því að dómsmálaráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, og gerði mér jafnframt grein fyrir því, hvernig ráðuneytið og fangelsismálastofnun kæmu á framfæri við fanga svörum við skriflegum erindum, sem fangar sendu þessum aðilum.

Í svarbréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 4. apríl 1989, sagði:

„Að þessu tilefni vill ráðuneytið taka fram að undanfarna áratugi hefur það verið venja að svör við erindum frá föngum hafi verið stíluð á forstöðumann viðkomandi fangelsis og honum falið að skýra viðkomandi fanga frá því. Ástæðan fyrir þessari framkvæmd er að ráðuneytið telur að yfirmenn fangelsa eigi að vita hvaða afstöðu ráðuneytið tekur til erinda frá föngum, auk þess sem um vinnusparnað er að ræða.

Í síðasta mánuði var þeirri framkvæmd sem að framan er lýst breytt á þann veg að auk þess sem forstöðumönnum var falið að kynna föngum efni svarbréfs er þeim nú falið að afhenda fanga afrit af bréfinu.

Frá framangreindri venju eru þær undantekningar að ef erindi varðar ekki fangavistina sem slíka eða varðar störf yfirmanna eru svör send beint til viðkomandi fanga. Fangelsismálastofnun ríkisins svarar erindum frá föngum með sama hætti og að framan er greint.“

II. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 20. júní 1989, tók ég fram að ég skildi ofangreint bréf dómsmálaráðuneytisins þannig, að erindi A hefði verið svarað í samræmi við fyrri venjur og þá þannig, að svar hefði verið sent forstöðumanni, sem síðan hefði greint A munnlega frá efni svarsins. Ég taldi hins vegar, að meginreglan yrði að vera sú, að hver sá, sem bæri upp erindi við stjórnvöld, þar á meðal fangar, ættu rétt á að fá í hendur skriflegt svar þess stjórnvalds, sem í hlut ætti. Um slík svarbréf til fanga gilti þá 4. mgr. 18. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist, en þar væri svo fyrir mælt, að bréf „til og frá yfirvöldum og lögmönnum“ skyldu ekki rannsökuð. Ég tók ennfremur fram, að stundum gætu verið rök til að kynna forstöðumanni fangelsis svör við erindum fanga og mætti þá hafa þann hátt á, að senda forstöðumanni afrit svarbréfs.

Samkvæmt framansögðu taldi ég, að dómsmálaráðuneytið hefði átt að senda A sjálfum skriflegt svar við umræddri beiðni hans um lausn til reynslu. Að öðru leyti taldi ég ekki ástæðu til athugasemda í tilefni af kvörtun A.

III. Viðbrögð stjórnvalda.

Hinn 14. september 1989 ritaði dómsmálaráðuneytið bréf, þar sem ráðuneytið tilkynnti, að það hefði í tilefni af ofangreindu áliti umboðsmanns ritað Fangelsismálastofnun ríkisins bréf sama dag. Í síðastgreindu bréfi ráðuneytisins sagði m.a.:

„Með hliðsjón af framangreindu áliti er hér með lagt fyrir Fangelsismálastofnun að svara erindum frá föngum beint til þeirra og verður það að fara eftir atvikum hvort forstöðumanni fangelsis sé jafnframt sent afrit slíkra bréfa. Eftir sem áður ber jafnframt að senda forstöðumönnum bréf varðandi allar ákvarðanir sem teknar eru í málefnum fanga varðandi reynslulausnir, leyfi o.fl. Tekið skal fram að ráðuneytinu er ljóst að framangreind fyrirmæli munu auka talsvert bréfaskriftir stofnunarinnar.

Forstöðumönnum fangelsanna hefur verið sent ljósrit af bréfi þessu.“