Lífeyrismál. Greiðsla lífeyris eftir lát sambúðarmanns.

(Mál nr. 115/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 10. ágúst 1989.

A og B voru í óvígðri sambúð frá árinu 1973, þar til B lést haustið 1988. Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins synjaði beiðni A um lífeyri eftir B. A taldi synjun þessa óréttmæta í sinn garð, þar sem B hefði fengið lögskilnað við fyrrverandi eiginkonu sína með leyfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 20. júní 1977.

Hinn 5. apríl 1989 ritaði ég stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins bréf og óskaði upplýsinga um, hvaða lífeyrisgreiðslur sjóðurinn hefði greitt til sambúðarfólks samkvæmt 2. málslið 11. gr. laga nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. 5. gr. laga nr. 98/1980. Jafnframt óskaði ég eftir upplýsingum um, hvort af hálfu stjórnar sjóðsins eða samtaka þeirra opinberra starfsmanna, sem aðild ættu að sjóðnum, hefðu komið fram tillögur um breytingar á 7. mgr. 14. gr. laga nr. 29/1963, sbr. 10. gr. laga nr. 98/1980, varðandi lífeyrisgreiðslur til sambúðarfólks, þegar sjóðfélagi hefði verið kvæntur áður og fyrrverandi maki væri enn á lífi og ætti rétt til lífeyris úr sjóðnum samkvæmt 6. mgr. 14. gr. laga nr. 29/1963.

Í svarbréfi stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, dags. 13. júlí 1989, kom eftirfarandi fram:

„Í 7. mgr. 14. gr. laga nr. 29/1963, sbr. 10. gr, laga nr. 98/1980 eru ákvæði sem heimila stjórn lífeyrissjóðsins að greiða sambúðaraðila makalífeyri, svo sem um ekkju eða ekkil væri að ræða. Meðal skilyrða fyrir því, að heimilt sé að greiða lífeyri skv. greininni er, að sjóðfélagi láti ekki eftir sig maka. ... [B] hafði áður verið giftur ... [C]. Þó svo því hjónabandi hafi lokið með skilnaði, telst ... [C] vera maki ... [B] samkvæmt þeim skilningi sem lagður er í makahugtakið í lögum sjóðsins. Það kemur fram í 6. mgr. 14. gr. laga 29/1963, þar sem fjallað er um þau tilvik þegar sjóðfélagi lætur eftir sig fleiri en einn maka á lífi. Þar sem ... [B] lét eftir sig maka á lífi, er skv. þessu ekki heimilt að greiða sambúðarkonu hans lífeyri.

Í bréfi þínu er spurt um hvaða lífeyrisgreiðslur sjóðurinn hefur greitt til sambúðarfólks. Ég hef ekki haft tök á að taka nákvæmlega saman þær greiðslur sem sjóðurinn hefur greitt til sambúðarfólks, eftir að heimild til þess kom inn í lög sjóðsins 1980. Hins vegar hefur stjórn sjóðsins samþykkt 10 slík erindi á síðustu þremur árum. Í 8 tilvikum var um sambúð karls og konu að ræða sem jafna. mátti til hjónabands, en í tveimur tilvikum var samþykkt að greiða einstæðri móður lífeyri eftir son sinn.

Þá er loks spurt um það í bréfi þínu, hvort einhverjar tillögur hafa komið fram um breytingu á þeim ákvæðum sem hér hafa verið til umræðu.

Á síðastliðnum vetri var af hálfu stjórnar sjóðsins unnið að breytingum á lögum sjóðsins. Eitt af þeim ákvæðum, sem tekið var á í þeirri vinnu var 7. mgr. 14. gr. laga nr. 29/1963, sbr. 10. gr. laga nr. 98/1980. Í þeim drögum að lagafrumvarpi sem búið var að semja var gert ráð fyrir, að heimilt væri að skipta lífeyri milli fyrrverandi maka og seinni sambúðaraðila. Hins vegar var frumvarpið aldrei lagt fram, þar sem full samstaða náðist ekki í stjórn sjóðsins um öll atriði sem þar var tekið á. Reiknað er með að þessari vinnu verði haldið áfram næsta vetur.“

Með tilvísun til upplýsinga stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins ritaði ég A bréf, dags. 10. ágúst 1989. Í bréfi mínu taldi ég þá skýringu sjóðsstjórnarinnar rétta, að samkvæmt gildandi lögum hefði ekki verið heimilt að greiða A lífeyri eftir B, og gæti ég því ekki aðhafst frekar í málinu. Ég greindi A jafnframt frá því, að ég hefði sama dag ritað Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins bréf, þar sem ég lýsti þeirri skoðun minni að nauðsynlegt væri að halda áfram athugun þeirri, sem hafin væri á rétti sambúðarfólks til lífeyris og vænti þess að verða látinn fylgjast með framvindu þess máls.