Máli lokið með bréfi, dags. 31. október 1989.
Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna synjaði dönskum ríkisborgara, sem búsettur er hér á landi, um ferðastyrk vegna náms í Skotlandi. Synjun þessi var í samræmi við 13. gr. laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki, sem takmarkar rétt námsmanna frá Norðurlöndum, búsettra hér á landi, við nám hér á landi. Umboðsmaður taldi hins vegar ástæðu til að endurskoða 13. gr. laga nr. 72/1982 með hliðsjón af 2. gr. í samstarfssamningi milli Norðurlanda, undirrituðum í Helsinki 23. mars 1962, en samkvæmt ákvæðum 2. gr. skulu samningsaðilar halda áfram að vinna að því, að ríkisborgarar Norðurlanda, sem dveljast á Norðurlöndum utan heimalands síns, njóti svo sem framast er unnt sömu réttarstöðu og ríkisborgarar dvalarlands.
Hinn 14. ágúst 1989 lagði A, sem er danskur ríkisborgari en búsettur hér á landi, fram kvörtun yfir því, að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefði synjað beiðni hans um ferðastyrk vegna náms í Skotlandi með bréfi, dags. 3. ágúst 1989. Bréfið hljóðar svo:
„Stjórn LÍN hefur fjallað um mál þitt.
Umsókn þinni um ferðastyrk var synjað. Í reglum sjóðsins er einungis að finna ákvæði sem heimila sjóðstjórn að veita erlendum ríkisborgara búsettum á Íslandi aðstoð til náms á Íslandi. Stjórn LÍN er ekki kunnugt um norrænar samþykktir sem kveða á um annað.“
Í bréfi, dags. 31. október 1989, gerði ég A grein fyrir athugunum mínum á kvörtun hans. Þar gerði ég grein fyrir ákvæðum íslenskra laga um rétt stúdenta frá Norðurlöndum til lána úr Lánasjóði ísl. námsmanna og breytingum, sem gerðar hefðu verið á þeim allt frá því að þau komu fyrst til með Iögum nr. 52/1961.
Síðan sagði í bréfi mínu:
„Af lögum þeim, sem hér hafa verið rakin, kemur jafnan fram sú meginregla, að réttindi samkvæmt þeim séu takmörkuð við íslenska ríkisborgara. Jafnframt hefur verið gerð viss undantekning um námsmenn frá Norðurlöndum, búsetta hér á landi, á þá leið, áð þeir skuli njóta sama réttar og Íslendingar. Af 6. gr. laga nr. 52/1961 er hins vegar ljóst,
að undantekningar samkvæmt þeim lögum var bundin við nám við Háskóla Íslands. Sama máli gegnir um lög nr. 7/1967, sbr. ótvírætt orðalag 7. gr. laganna og athugasemda í greinargerð með frumvarpi til þeirra. Ótvírætt er, að ekki var ætlunin að gera neina breytingu á því með lögum nr. 57/1976, að umrædd undantekning takmarkaðist við nám hérlendis, sbr. orðalag 13. gr. og athugasemdir í greinargerð með frumvarpi til laganna við þá grein.
Að mínum dómi leiðir óhjákvæmilega af orðalagi 13. gr. laga nr. 72/1982, sbr. ennfremur 5. gr. reglugerðar nr. 578/1982 um námslán og námsstyrki, og framangreindum aðdraganda að setningu þess ákvæðis, að réttur námsmanna frá Norðurlöndum, búsettra hér, takmarkist við nám hér á landi. Ég tel því umrædda synjun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 3. ágúst s.l. rétta samkvæmt núgildandi lögum.
Samstarfssamningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar var undirritaður í Helsinki 23. mars 1962. Samkvæmt heimild í þingsályktun, sem samþykkt var á Alþingi hinn 11. apríl 1962, var samningur þessi staðfestur af Íslands hálfu og staðfestingarskjalið afhent 29. júní 1962. Samningurinn gekk í gildi 1. júlí 1962 og var birtur í C-deild Stjórnartíðinda 14. ágúst 1962.
Í 2. gr. umrædds samstarfssamnings segir:
„Samningsaðilar skulu halda áfram að vinna að því, að ríkisborgarar Norðurlanda, sem dveljast á Norðurlöndum utan heimalands síns, njóti svo sem framast er unnt sömu réttarstöðu og ríkisborgarar dvalarlandsins.“
Framangreind ákvæði 2. gr. í samstarfssamningi Norðurlandanna fela í sér yfirlýsingu um stefnumörkun, en þau geta að mínum dómi ekki breytt lagareglum í einstökum löndum, þar á meðal ekki 13. gr. laga nr. 72/1982. Ég tel hins vegar ástæðu til að endurskoða 13. gr. með hliðsjón af nefndum ákvæðum í 2. gr. samstarfssamningsins. Hef ég því vakið athygli menntamálaráðherra, samstarfsráðherra Norðurlanda og Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á máli þessu.
Var það gert með bréfum, sem nefndum aðilum voru send í dag.“
Með bréfi, dags. 12. október 1990 greindi formaður Íslandsdei¬ldar Norðurlandaráðs mér frá því, að í tilefni af ofangreindu máli hefði Íslandsdeild Norðurlandaráðs, ritað samstarfsráðherra Norðurlanda bréf, dags. 9. október, þar sem eftirfarandi kom m.a. fram:
„Íslandsdeild Norðurlandaráðs vill af þessu tilefni taka fram eftirfarandi:
Allir Íslenskir ríkisborgarar njóta sama réttar til lána og styrkja frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) án tillits til þess hvort þeir búa á Íslandi eða erlendis.
Allir danskir ríkisborgarar njóta sama réttar til lána og styrkja frá „Statens Uddannelsessstøtte“ (SU) í Danmörku án tillits til þess hvort þeir búa í Danmörku eða erlendis.
Norrænir ríkisborgarar búsettir á Íslandi njóta sama réttar og íslenskir til lána og styrkja frá LÍN vegna náms við íslenskar menntastofnanir.
Norrænir ríkisborgarar sem hafa búið í Danmörku í tvö ár og starfað þar helming þess tíma njóta sama réttar og danskir til lána og styrkja frá SU vegna náms við danskar menntastofnanir.
Einungis íslenskir ríkisborgarar njóta réttar til lána og styrkja frá LÍN vegna náms erlendis.
Danskir ríkisborgarar hafa einir norrænna ríkisborgara rétt til lán og styrkja frá SU vegna náms erlendis. Undantekn¬ing er þó gerð um flóttamenn.
Hvorki íslenska né danska ríkið veitir þannig öðrum Norður¬landabúum en ríkisborgurum viðkomandi ríkis rétt til lána og styrkja vegna náms erlendis. Hvorugt ríkjanna fellur heldur niður rett sinna ríkisborgara til lána og styrkja vegna náms erlendis við búferlaflutning frá heimalandinu. Þannig eru réttindi danskra og íslenskra ríkisborgara í þessu tilliti sambærileg.
Þó að réttindi Íslenskra og danskra ríkisborgara séu þannig sambærileg má á það fallast með Umboðsmanni Alþingis, að réttar¬staða dansks ríkisborgara búsetts á Íslandi sé í þessu tilliti ekki alfarið sú sama og íslensks ríkisborgara, þar sem skilyrði SU fyrir veitingu lána og styrkja vegna náms utan Danmerkur eru strangari en skilyrði LÍN.
Íslandsdeild Norðurlandaráðs beinir því þeim tilmælum til Samstarfsráðherra Norðurlanda að láta kanna hvort unnt sé að samræma reglur norrænu námsmannalánasjóðanna innbyrðis.“
Með bréfi staðgengils samstarfsráðherra Norðurlanda, dags. 23. janúar 1990, upplýsti hann eftirfarandi:
„Hinn 21. nóvember s.l. barst Samstarfsráðherra Norðurlanda erindi Umboðsmanns Alþingis, dags. 31. október s.l., varðandi synjun Lánasjóðs íslenskra námsmanna um ferðastyrk til handa [A] vegna náms í [X-landi], þar sem ennfremur er af gefnu tilefni vakin athygli á ástæðu til endurskoðunar 13. gr. laga nr. 72/1982.
Í ljósi þessa hefur afrit af ofanívitnuðu bréfi yðar svo og bréfi yðar til [A] verið sent menntamálaráðuneytinu til umsagnar.“