Húsnæðismál. Félagslegar íbúðir.

(Mál nr. F19/2014)

Umboðsmaður Alþingis ákvað að taka til skoðunar hvort skuldastaða umsækjenda kæmi í veg fyrir úthlutun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á félagslegu húsnæði. Var það gert í tilefni af upplýsingum um að umsækjendum hefði í sumum tilvikum verið tjáð af starfsfólki þjónustumiðstöðvar borgarinnar að þeir gætu ekki fengið úthlutað félagslegu húsnæði á meðan þeir stæðu í skuld við Félagsbústaði hf.Var þá haft í huga hvort slík framkvæmd, án þess að lagt væri mat á þörf viðkomandi fyrir húsnæði og framboð á því, væri í öllum tilvikum í samræmi við skyldur sveitarfélagsins samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Af hálfu borgarinnar kom fram að ef einstaklingur skuldaði ógreidda leigu kæmi að jafnaði ekki til úthlutunar nema hann sýndi „greiðslu- og/eða samningsvilja“ vegna skuldarinnar.

Í ljósi upplýsinga frá Reykjavíkurborg um að yfir stæði endurskoðun á reglum um félagslegar leiguíbúðir og húsaleigubætur í Reykjavík, sem og nýlegra breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um húsnæðismál, taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar. Hann taldi þó ástæðu til að árétta mikilvægi þess að reglurnar endurspegluðu í reynd öll þau atriði sem hefðu þýðingu við úthlutun húsnæðis og að þær væru til þess fallnar að skapa raunhæfar væntingar borgaranna um það hvort og þá að hvaða skilyrðum uppfylltum viðkomandi fái úthlutað húsnæði.

Forathugun umboðsmanns lauk með bréfi til Reykjavíkurborgar, dags. 31. desember 2018, sem hljóðar svo:

I

Hér með tilkynnist að ég hef lokið forathugun minni á úthlutun Reykjavíkurborgar á félagslegu húsnæði til einstaklinga sem standa í skuld við Félagsbústaði hf.

Eins og áður hefur komið fram varð erindi sem mér barst frá einstaklingi til þess að Reykjavíkurborg var ritað bréf, dags. 14. janúar 2014, þar sem m.a. var óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til þess hvort skuldastaða einstaklings við Félagsbústaði hf. kæmi í öllum tilvikum í veg fyrir úthlutun félagslegs húsnæðis til hans. Ástæða þess að ég ákvað að óska eftir framangreindri afstöðu Reykjavíkurborgar var að ég hafði í huga hvort slík framkvæmd, án þess að leggja mat á þörf viðkomandi fyrir slíkt húsnæði og framboð á því, væri í öllum tilvikum í samræmi við skyldur þess samkvæmt lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í svari Reykjavíkurborgar, dags. 28. febrúar 2014, kom m.a. fram að ef einstaklingur skuldi Félagsbústöðum hf. ógreidda leigu komi að jafnaði ekki til úthlutunar félagslegs húsnæðis til hans nema hann sýni „greiðslu- og/eða samningsvilja vegna skuldar við Félagsbústaði hf.“.

Í ljósi samskipta við velferðarráðuneytið vegna annarra mála sem voru til athugunar hjá mér og lutu að framkvæmd sveitarfélaga á skyldum þeirra samkvæmt lögum nr. 40/1991, þar sem m.a. var vísað til endurskoðunar laganna taldi ég rétt, áður en ég tæki frekari afstöðu til framhalds málsins, að óska eftir upplýsingum frá velferðarráðuneytinu um stöðu hennar. Í svari velferðarráðuneytisins, dags. 17. febrúar 2017, kom m.a. fram að starfshópur hefði skilað tillögum um breytingu á lögum nr. 40/1991, þar sem skyldur sveitarfélaga í þessum málum væru skýrðar auk þess sem skerpt væri á kröfum til málsmeðferðar og ákvarðanatöku. Þá lægi fyrir frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál. Framangreind mál væru á þingmálaskrá félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir vorþing 2017.

Hjá umboðsmanni Alþingis hefur gilt sú starfsvenja að gefa stjórnvöldum hæfilegt svigrúm til að ráðast í fyrirhugaðar breytingar eða endurskoðun á stjórnsýslu. Í kjölfar framangreindra upplýsinga var ákveðið að bíða um sinn með að ljúka athugun á málinu og sjá til hver yrði niðurstaða framangreindra áætlana ráðuneytisins.

II

Lög um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum (innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál), tóku gildi 1. október sl. Í 1. mgr. 47. gr. laganna er nú mælt fyrir um skyldu sveitarstjórna til að setja sér reglur um meðferð umsókna um húsnæði á vegum sveitarfélagsins. Jafnframt tekur sveitarstjórn afstöðu til þess hvaða aðili í stjórnkerfi sveitarfélagsins tekur ákvörðun um úthlutun. Um uppsögn leigusamnings um húsnæði sem hefur verið úthlutað á grundvelli laganna gilda sömu reglur og um úthlutun þess.

Lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, hefur einnig verið breytt, sbr. lög nr. 65/2018, sem tóku gildi í júní sl. Með lögunum var gerð breyting á 14. gr., m.a. þannig að nú er kveðið á um það í 5. tölul. 1. mgr. að meðal helstu verkefna sveitarfélags á sviði húsnæðismála sé að leysa úr húsnæðisþörf einstaklinga í sveitarfélaginu og eiga frumkvæði að því að aflað verði húsnæðis til að koma til móts við þá sem þurfa aðstoð í húsnæðismálum og aðstoða einstaklinga við að afla sér húsnæðis. Þá er í 2. mgr. sömu greinar tekið fram að um meðferð húsnæðismála gildi verklagsreglur sem sveitarstjórnir skuli setja og birta á vef sveitarfélagsins.

III

Reykjavíkurborg hefur sett reglur um félagslegar leiguíbúðir og húsaleigubætur í Reykjavík, með breytingum samþykktum í velferðarráði 6. apríl 2017 og í borgarráði 27. apríl sama ár. Í 4. gr. þeirra er fjallað um skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla til að umsókn um félagslegt húsnæði verði metin gild og vísa þau einkum til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna. Í reglunum er hins vegar ekki kveðið á um það skilyrði að skuldi einstaklingur Félagsbústöðum hf. ógreidda leigu komi að jafnaði ekki til úthlutunar félagslegs húsnæðis til hans nema að hann sýni greiðslu- og/eða samningsvilja vegna skuldarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg í tilefni af athugun minni á öðru máli, sbr. álit mitt frá 6. júlí sl. í máli nr. 9164/2016, stendur nú yfir endurskoðun á reglunum. Af þessu tilefni og með hliðsjón af framangreindum breytingum á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um húsnæðismál tel ég ekki ástæðu til að taka verklag velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til frekari athugunar að þessu leyti að svo stöddu.

Ég tel þó ástæðu til að árétta þau tilmæli sem fram koma í fyrrnefndu áliti mínu í máli nr. 9164/2016 að þess sé gætt að reglur um félagslegt húsnæði og sérstakan húsnæðisstuðning endurspegli í reynd öll þau atriði sem hafa þýðingu við úthlutun almenns félagslegs húsnæðis hjá borginni og þannig að samræmist lögum nr. 40/1991. Þá þurfa þær reglur að vera til þess fallnar að skapa raunhæfar væntingar borgaranna um það hvort og þá að hvaða skilyrðum uppfylltum viðkomandi fái úthlutað húsnæði. Jafnframt minni ég á skyldu Reykjavíkurborgar til að leiðbeina viðkomandi umsækjanda um önnur úrræði sem kunna að standa honum til boða, t.d úrræði samkvæmt IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 þar sem fjallað er um fjárhagsaðstoð.

Ég tek fram að ég hef ákveðið að senda velferðarráðuneytinu afrit af þessu bréfi til upplýsingar.