Orlof. Skil á orlofsfé og greiðsla vaxta.

(Mál nr. 74/1989)

Máli lokið með áliti, dags. 25. september 1989.

Á þeim tíma, sem A var við nám erlendis, voru honum ekki sendar ávísanir á orlofsfé, en eftir útgáfu þeirra voru honum ekki reiknaðir vextir af orlofsfénu. Umboðsmaður leit svo á, að samkvæmt 11. gr. laga nr. 87/1971, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 150/1972 um orlof, sbr. l. gr. reglugerðar nr. 76/1974 um breytingu á þeirri reglugerð, 2. og 4. gr. reglugerðar nr. 176/1988 um uppgjör orlofsfjár og almennum reglum um greiðslu kröfu, hefði Póstgíróstofan átt að gera nauðsynlegar og tiltækar ráðstafanir til að koma ávísunum á orlofslaun A til skila. Hefðu ekki komið fram skýringar á því, hvers vegna Póstgíróstofunni var það ekki unnt í tilviki A. Orlofsfé var ávaxtað á sérstökum reikningi í Seðlabanka Íslands og bar umrætt fé, sem ávísað var, því áfram vexti, þar til það var greitt A í raun. Umboðsmaður taldi, þar sem atvik voru með þessum hætti, og í samræmi við sanngirnisrök, að ekki hefðu verið nægileg rök að lögum til að hafna kröfu A um vexti frá útgáfudegi ávísananna fram til þess tíma, er hann fékk þær í hendur, hvað sem liði almennum reglum um vexti og dráttarvexti. Niðurstaða umboðsmanns var þess vegna sú, að A hefðu borið sömu vextir af umræddum orlofslaunum og greiddir voru af öðru orlofsfé fram til þess tíma, er hann fékk í raun ávísanir á þau í hendur.

I.

A leitaði til mín 8. janúar 1989 og kvartaði yfir því, að Póstgíróstofan hefði ekki komið til sín tveimur ávísunum vegna orlofsfjár á árunum 1987 og 1988, en A var á tímabilinu frá því í ágúst 1985 fram í ágúst 1988 við nám í Danmörku og búsettur þar. A kvartaði einnig yfir því, að Póstgíróstofan hefði neitað að greiða vexti af umræddu orlofsfé.

Hinn 25. janúar 1989 óskaði ég upplýsinga um málið, þar á meðal um viðbrögð Póstgíróstofunnar, þegar upplýsingar skorti um heimilisfang viðtakanda orlofslauna.

Í svarbréfi Póstgíróstofunnar, dags. 7. febrúar 1989, kom meðal annars fram:

„Þessar ávísanir voru unnar í Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar eftir skráðum upplýsingum frá Póstgíróstofu. Orlofsupphæðin, launatímabil og innborgunardagur voru skráðar á nafnnúmer hvers einstaklings. Í SKÝRR var svo nafnnúmerið borið saman við nýjustu þjóðskrá og þannig fundið heimilisfang viðkomandi launþega.

Fyrir þá einstaklinga sem búsettir voru erlendis í þeirri útgáfu þjóðskrárinnar sem orlofskerfið hafði aðgang að (N.A.T.A.N) var einungis tilgreint það land sem viðkomandi launþegi var búsettur í.

Þær ávísanir sem ekki komast til skila voru og eru geymdar á Póstgíróstofunni. Þangað geta launþegar vitjað þeirra, enda var á launaseðlum frá allflestum launagreiðendum þ.m.t. Launaskrifstofu ríkisins tilgreind upphæð orlofsfjár og hvert það hafði verið greitt.

Starfsfólk Póstgíróstofu leitaðist síðan til þess að koma orlofsfé til skila með því:

1. Að hafa samband við þann vinnuveitanda sem launþegi var síðast hjá og þannig reyna að finna rétt heimilisfang hans.

2. Að fá lista hjá Lánasjóði ísl. námsmanna yfir umboðsmenn námsmanna erlendis og senda þeim ávísanir viðkomandi launþega.

3. Af fara reglulega yfir þær ávísanir sem geymdar voru á Póstgíróstofu, og bera heimilisföng á þeim saman við þjóðskrá (Póstgíróstofan hefur á u.þ.b. tveggja mánaða fresti fengið nýuppfærða þjóðskrá yfir í tölvu sína frá SKÝRR).

Vextir hafa ekki verið greiddir af orlofsfé eftir útgáfudag ávísunar, enda lúta orlofsávísanir sömu reglum og aðrar ávísanir hvað það varðar. Undantekning frá þessu eru þó ef rekja má drátt á afhendingu til mistaka starfsmanna Póstgíróstofu eða pósthúsa.“

II.

Samkvæmt 11. gr. auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 96/1969 fer samgönguráðuneytið með málefni Póstgíróstofunnar, en félagsmálaráðuneytið með orlofsmál, sbr. 4. gr. sömu auglýsingar. Í framhaldi af nefndu svari Póstgíróstofunnar ritaði ég samgönguráðherra og félagsmálaráðherra bréf hinn 15. febrúar 1989, og óskaði eftir því með tilvísun til 9. gr. laga nr. 13/1987, að ráðuneyti þeirra skýrðu viðhorf sitt til kvörtunar A. Jafnframt óskaði ég sérstaklega eftir því, að ráðuneytin skýrðu viðhorf sitt til þeirrar framkvæmdar Póstgíróstofunnar að greiða ekki vexti eftir útgáfu orlofsávísana af því orlofsfé, sem Póstgíróstofan gæti ekki komið til skila vegna skorts á upplýsingum um heimilisföng viðtakenda.

Félagsmálaráðuneytið svaraði með bréfi, dags. 17. mars 1989. Þar sagði:

„Í lögum nr. 87/1971 um orlof voru ekki lagðar frekari skyldur á Póst og síma að því er varðar skil á innborguðu orlofsfé samkv. 2. mgr. 2. gr. en að greiða það á þann hátt að tryggt væri að launþeginn fengi það í hendur áður en hann tæki orlof sbr. 11. gr.

Ráðuneytið telur því að Póstgíróstofan hafi fullnægt framangreindri skyldu með því að gefa út ávísanir á launþega í byrjun maí vegna áunnins orlofsfjár liðins árs, þó svo að ekki hafi tekist að koma ávísunum til skila vegna skorts á upplýsingum um heimilisfang viðtakanda í þjóðskrá eða öðrum gögnum sem starfsfólki hennar voru tiltæk.

Við úrlausn á því álitaefni sem hér um ræðir verður og að hafa í huga að samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 150/1972 skyldu launþegar með samanburði reikningsyfirlita Pósts og síma við launaseðla sína ganga úr skugga um hvort orlofsféð hefði verið greitt og gera athugasemdir ef svo var ekki.

Með vísun til framanritaðs og með hliðsjón af 13. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 telur ráðuneytið að Póstgíróstofunni beri ekki að greiða vexti eftir útgáfudag orlofsávísana af því orlofsfé sem hún gat ekki komið til skila vegna skorts á upplýsingum um heimilisföng viðtakenda.

Ráðuneytið vill skýra frá því að félagsmálaráðherra tók fyrst ákvörðun um vexti af orlofsfé 1978. Í marsmánuði ár hvert sendi Póstgíróstofan upplýsingar til ráðuneytisins um tekjur og gjöld orlofsverkefnisins. Vextir af orlofsfé voru misháir frá ári til árs. Tekjuafgangur orlofsverkefnisins, vaxtaþróun í landinu og það sjónarmið að orlofsþegar sættu ekki lakari kjörum en þeir hefðu haft ef orlofsfé þeirra hefði verið lagt inn á banka mun hafa ráðið mestu um vaxtafjárhæðina.“

Samgönguráðuneytið svaraði með bréfi, dags. 29. mars 1989. Þar sagði:

„Póstgíróstofan greiðir launþegum áunnið orlofsfé viðkomandi orlofsárs. Skylda Póstgíróstofunnar til að koma orlofsávísunum til skila takmarkast við að móttakandi þeirra hafi skráð heimilisfang samkvæmt þjóðskrá eða að Póstgíróstofunni sé á annan hátt kunnugt um heimilisfang orlofsþega. Í þessu tilviki var svo ekki og Póstgíróstofunni því ómögulegt að koma þeim í hendur hans. Henni ber því ekki að greiða dráttarvexti frá útgáfudegi orlofsávísananna til móttökudags eiganda þeirra, enda er greiðsluskyldu fullnægt við útgáfu þeirra og þær komast ekki til skila vegna atvika sem meta verður sem viðtökudrátt eiganda þeirra, sbr. 13. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Ekki verður heldur séð að Póstgíróstofunni sé lögskylt að deponera orlofsgreiðslum sem ekki komast til skila, sbr. 1. gr. laga um geymslufé nr. 9/1978, þar sem í 2. mgr. 13. gr. laga um orlof nr. 87/1971 er kveðið svo á að orlofsfé, sem orlofsþegi hefur ekki tekið út innan árs frá lokum orlofsársins, renni í lífeyrissjóð orlofsþega sem aukaiðgjald af hans hálfu til sjóðsins. Af þessu ákvæði orlofslaga verður dregin sú ályktun, að orlofsþega ber að hafa frumkvæði að því að taka út orlofsfé og kveðið er á um, hvernig með skuli fara ef orlofsþegi hirðir ekki um að taka út orlofsfé.“

III.

Niðurstaða álits míns, dags. 25. september 1989, var svohljóðandi:

„Kvörtun A varðar greiðslu orlofsfjár af launagreiðslum úr ríkissjóði til hans á árunum 1986 til 1987. Honum voru reiknaðir vextir af þessu orlofsfé frá þeim degi, er það var greitt Póstgíróstofu, fram til 30. apríl 1987, að því er tók til orlofsfjár af launagreiðslum 1986, og til 30. apríl 1988 af launagreiðslum 1987. Ávísanir um greiðslu gaf Póstgíróstofan út 1. maí 1987 og 1. maí 1988. Eftir útgáfu nefndra ávísana voru vextir ekki reiknaðir.

A kvartar yfir því að Póstgíróstofan hafi ekki gert fullnægjandi ráðstafanir til að koma ávísunum vegna umrædds orlofsfjár til skila og að honum hafi ekki verið greiddir vextir.

Í bréfi Póstgíróstofunnar, dags. 7. febrúar 1989, kemur fram, að orlofsávísanir séu geymdar hjá Póstgíróstofunni, þegar upplýsingar um heimilisfang launþega vanti í þjóðskrá. Starfsfólk þar „leitaðist síðan til þess að koma orlofsfé til skila“ eftir þeim þremur leiðum, sem tilgreindar eru í bréfinu. A hefur bent á, að kostur hafi verið á að leita upplýsinga um heimilisfang hans hjá síðasta vinnuveitanda hans, áður en hann hélt utan til náms. Jafnframt hafi hann verið lánþegi hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, þegar umræddar ávísanir voru gefnar út, og þar hafi mátt fá upplýsingar um heimilisfang hans og umboðsmanns hans hér á landi.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 87/1971 um orlof, sem giltu til 1.maí 1988, skyldi orlofsfé greitt á þann hátt, að tryggt væri, að launþeginn fengi það í hendur, þegar hann tæki orlof . Af hálfu Póstgíróstofunnar eða hlutaðeigandi ráðuneyta hafa ekki komið fram skýringar á því, hvers vegna Póstgíróstofunni tókst ekki að koma orlofsfé A til skila, t.d. með einhverjum þeim hætti, sem starfsfólk Póstgíróstofunnar hefur á, þegar upplýsingar vantar í þjóðskrá um heimilisfang launþega. Bendir A á, að slíkt hefði átt að vera unnt. Ég tel, að samkvæmt 11. gr. laga nr. 87/1971, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr.150/1972 um orlof, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 76/1974 um breytingar á þeirri reglugerð, 2. og 4. gr. reglugerðar nr. 176/1988 um uppgjör orlofsfjár og almennum reglum um greiðslu kröfu hafi Póstgíróstofunni borið að gera nauðsynlegar og tiltækar ráðstafanir til að koma umræddum orlofsávísunum til A. Ég tel hins vegar að ekki sé unnt á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að skera úr því, hvort atvikum hafi verið þannig háttað, að greiðsludráttur hafi orðið af hálfu Póstgíróstofunnar, þannig að henni sé skylt að greiða dráttarvexti. Þar sem þannig reynir á öflun sönnunargagna, m.a. með yfirheyrslum vitna og aðila, og síðan mat á sönnunargildi þeirra, tel ég að dómstólar verði að skera úr um skyldu Póstgíróstofunnar til greiðslu dráttarvaxta, ef slík krafa yrði á annað borð gerð.

Samkvæmt þeim gögnum, sem fyrir liggja, voru vextir af orlofsfé, sem innheimt var samkvæmt lögum nr. 87/1971, greiddir launþegum samkvæmt ákvörðun félagsmálaráðherra. Orlofsféð var ávaxtað á sérstökum reikningi í Seðlabanka Íslands. Umræddar ávísanir voru ekki sendar A á þeim tíma, sem til var ætlast, heldur geymdar hjá Póstgíróstofunni og fé það, sem ávísað var, bar áfram vexti, þar til honum var greitt það í raun. Þar sem atvik voru með þessu hætti og í samræmi við sanngirnisrök tel ég, að ekki hafi verið nægjanleg rök að lögum til að hafna kröfu A um vexti frá útgáfudegi umræddra ávísana fram til þess tíma, er hann fékk þær í hendur, hvað sem líður almennum reglum um vexti og dráttarvexti.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að A hafi borið sömu vextir af umræddum orlofslaunum og greiddir voru af öðru orlofsfé fram til þess tíma, er hann fékk í raun ávísanir á þau í hendur.“