Lögreglu- og sakamál. Vistun einstaklinga í sjálfsvígshættu í fangageymslum.

(Mál nr. 9939/2018)

Umboðsmaður ákvað að ljúka frumkvæðisathugun sinni á verklagi lögreglu þegar einstaklingar sem eru vistaðir í fangageymslum eru taldir í sjálfsvígshættu. Var það gert í kjölfar svara bæði dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra þar sem m.a. kom fram sú afstaða að vista eigi viðkomandi á viðeigandi heilbrigðisstofnun en ekki í fangageymslum lögreglu. Vegna þeirra tilvika þegar það reynist hins vegar nauðsynlegt um stundarsakir sé ætlunin að samræma verklag allra lögregluembætta landsins.

Athugun umboðsmanns má rekja til þess að allt frá árinu 2013 hafa honum borist kvartanir og ábendingar um atvik þar sem fólk í þessari stöðu hefði verið fært úr fötum og látið dvelja klæðalítið eða klæðalaust í fangaklefa til þess að tryggja að það gæti ekki skaðað sig. Í þessum tilteknu tilvikum hefði ekki verið kallað eftir lækni eða annarri aðstoð.

Bréf umboðsmanns til ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra, dags. 6. mars 2019, hljóðar svo:

   

I

Hér með tilkynnist að ég hef ákveðið að ljúka frum­kvæðisathugun minni á verklagi lögreglu í tilvikum þegar einstaklingar sem eru vistaðir í fangageymslum eru taldir í sjálfsvígshættu. Athugun mína mátti rekja til þess að mér höfðu, allt frá árinu 2013, borist kvartanir og ábendingar um fleiri en eitt atvik þar sem einstaklingur sem var vistaður í fangageymslu lögreglu hafði verið verið talinn í sjálfsvígshættu og af þeirri ástæðu verið færður úr fötum og látinn dveljast klæðalítill eða klæðalaus í fangaklefa, jafnvel um nokkurn tíma, til þess að tryggja að hann gæti ekki skaðað sig. Í þessum tilteknu tilvikum hafði ekki verið kallað eftir lækni eða annarri aðstoð.

Þrátt fyrir að á þessum tíma hefði ríkissaksóknari beint þeim tilmælum til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að hugsanlega væri tilefni til þess að fara yfir verklag í þessum málum og að í skaðabótamáli á hendur íslenska ríkinu, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. október 2016, í máli nr. E-217/2016, hafi verið talið að rétt hefði verið að fara með tiltekinn einstakling við þessar aðstæður til læknis þegar eftir handtöku en vista hann ekki hálfnakinn í fangaklefa við óviðunandi aðstæður, héldu mér engu að síður áfram að berast sambærilegar ábendingar. Svo virtist því sem verklag lögreglu hefði ekki tekið breytingum frá því að niðurstöður ríkissaksóknara og héraðsdóms lágu fyrir.

Í ljósi framangreinds ákvað ég að kanna hvort lögregluembætti landsins hefðu sett sér verklagsreglur sem tryggðu að einstaklingar sem vistaðir væru í fangageymslum lögreglu og taldir í sjálfsvígshættu væru ekki beittir vanvirðandi meðferð og fengju þá aðstoð sem umrætt ástand kallar á. Þannig var lögregluembættum í öllum níu lögregluumdæmum landsins sent bréf, dags. 15. júní 2017, þar sem óskað var eftir upplýsingum um gildandi verklag þegar menn sem eru vistaðir í fangageymslum embættisins væru taldir í sjálfsvígshættu. Samkvæmt þeim svörum sem mér bárust hafði ekkert lögregluembætti sett sérstakar skriflegar verklagsreglur um hvernig bregðast skuli við umræddum aðstæðum. Flest embættin vísuðu þó til þess að samkvæmt almennu verklagi væri haft samband við lækni í slíkum tilvikum og að menn væru hafðir undir sérstöku eftirliti. Þá var einnig víða nefnt að aukahlutir og fatnaður sem gætu skapað hættu væru fjarlægðir.

Eftir að öll lögregluembættin höfðu svarað erindi mínu barst mér ný ábending um að starfsmenn tiltekins lögregluembættis hafi snemma árs 2018 brugðist við sjálfsvígstilburðum manns sem vistaður var í fangageymslu með því að afklæða hann.

  

II

Í ljósi framangreinds ákvað ég að rétt væri að taka málið til formlegrar athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Af því tilefni ritaði ég ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra bréf, dags. 31. desember sl. Þar rakti ég m.a. bann 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) við pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og minnti á að með aðild sinni að samningum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins gegn pyndingum hefur íslenska ríkið jafnframt skuldbundið sig til þess að hindra að slík meðferð viðgangist hér á landi.

Í þessu sambandi benti ég á að það kunni að fela í sér ómannlega eða vanvirðandi meðferð að vista mann klæðalausan í fangaklefa í skilningi ofangreindra laga og alþjóðasamninga, sbr. t.d. dóm mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) frá 7. júlí 2011 í máli Hellig gegn Þýskalandi, þar sem slíkt athæfi var talið varða við 3. gr. MSE. Nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndin) hefði jafnframt talið slíka meðferð óásættanlega.

Í fyrirspurnarbréfinu óskaði ég m.a. eftir því að ríkislögreglustjóri og dómsmálaráðherra lýstu afstöðu sinni til þess hvort þörf væri á samræmdum reglum fyrir lögregluembættin til að tryggja að einstaklingar sem eru vistaðir í fangageymslum og eru taldir í sjálfsvígshættu séu ekki beittir vanvirðandi meðferð og fái auk þess viðunandi heilbrigðisaðstoð. Ef svo væri þá hvort til stæði að aðhafast af því tilefni og með hvaða hætti. Væri ekki talin þörf á að aðhafast óskaði ég eftir afstöðu þeirra til þess hvort tilvitnuð framkvæmd samrýmdist þeim reglum stjórnarskrár Íslands, mannréttindasjónarmiðum og alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins sem fela í sér bann við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð. Lögregluembættunum var sent afrit af bréfinu til upplýsingar auk ríkissaksóknara sem var, í ljósi aðkomu hans að umræddum málum, gefið sérstakt tækifæri til að koma á framfæri upplýsingum eða athugasemdum sem hann teldi að kynnu að hafa þýðingu við athugun mína á málinu.

Svar ríkislögreglustjóra barst með bréfi, dags. 23. janúar sl. Þar kemur m.a. fram sú afstaða hans að einstaklinga í sjálfsvígshættu eigi ekki að vista í fangageymslu lögreglu heldur á heilbrigðisstofnun þar sem þeir geti fengið viðeigandi aðstoð. Afskipti lögreglu af veiku fólki þurfi að taka mið af því að einstaklingurinn eigi rétt á að njóta viðhlítandi þjónustu og hjálpar frá heilbrigðisyfirvöldum. Við þessar aðstæður þurfi að kalla til lækni eða annan þar til bæran fagaðila sem leggi mat á þau úrræði sem eigi að taka við. Þá segir að það sé mat hans að það eigi að fylgja ábendingum CPT-nefndarinnar og dómafordæmum MDE í hvívetna og skapa aðstæður, hvort heldur sem er í heilbrigðiskerfinu eða á öðrum stofnunum, til að unnt sé að framfylgja þeim. Stjórnvöld beri ábyrgð á að viðhlítandi úrræði séu til staðar fyrir umrædda einstaklinga, en slíkt kalli á aðkomu m.a. heilbrigðisráðuneytisins og embættis landlæknis.

Loks var upplýst að ríkislögreglustjóri hefði sent lögreglustjórum landsins umburðarbréf, sem ég fékk afrit af, þar sem tilvitnuð sjónarmið voru áréttuð og tekið fram að það geti vart talist réttlætanlegt að einstaklingar í sjálfsvígshættu eða af öðrum tilefnum séu látnir dveljast klæðalausir í fangageymslu.

Mér barst bréf frá ríkissaksóknara, dags. 28. janúar sl., þar sem tilteknum upplýsingum og athugasemdum, m.a. um aðkomu hans að einstökum málum, var komið á framfæri. Þar kom einnig fram að ríkissaksóknari telji rétt að settar verði samræmdar reglur fyrir lögregluembættin til að tryggja að einstaklingar sem eru vistaðir í fangageymslum og taldir í sjálfsvígshættu séu ekki beittir vanvirðandi meðferð og fái auk þess viðunandi heilbrigðisaðstoð. Ríkissaksóknari leggi áherslu á að einstaklingi í þessari stöðu sé komið undir læknishendur eins fljótt og unnt er en ekki verði þó lagðar skyldur á lögreglu í þessum efnum umfram það sem er á verksviði hennar. Heilbrigðisyfirvöld verði augljóslega að bregðast með fullnægjandi hætti við beiðni lögreglu um læknisaðstoð og vistun manna á sjúkrastofnun. Þá telji ríkissaksóknari það blasa við að ef nauðsynlegt reynist vegna öryggissjónarmiða að afklæða menn þá verði þeim ávallt boðið upp á einhvers konar klæði eða annað til að hylja nekt sína sem sé þannig gert að viðkomandi geti ekki valdið sér skaða.

Svar dómsmálaráðuneytisins barst með bréfi, dags. 18. febrúar sl. Þar er tekið undir þau sjónarmið sem koma fram í bréfum ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara um að byggja verði á þeirri grundvallarreglu að einstaklingar í sjálfsvígshættu séu vistaðir á viðeigandi heilbrigðisstofnun. Heilbrigðisyfirvöld verði að bregðast við slíkum beiðnum með fullnægjandi hætti. Þrátt fyrir það verði ekki hjá því komist að í einstaka tilvikum þurfi að vista veika einstaklinga til skamms tíma í umsjón og á ábyrgð lögreglu. Með vísan til þessa og þess sem fram hafi komið í bréfi mínu og bréfi ríkissaksóknara um þau mál sem komið hafa upp hjá lögreglu og varða vistun veikra einstaklinga telji ráðuneytið þörf á að samræma verklag með formlegum hætti til að tryggja að vistun við slíkar aðstæður samræmist lögum og alþjóðlegum skuldbindingum. Muni ráðuneytið leiða þá vinnu í samráði við embætti ríkislögreglustjóra og lögreglustjóraembættin. Verði þar jafnframt tekið til skoðunar hvaða úrræði kunni að henta í slíkum tilvikum, s.s. viðeigandi öryggisfatnaður. 

  

III

Í ljósi þeirrar afstöðu dómsmálaráðuneytisins og ríkislögreglustjóra sem birtist í svörum þeirra og þess að fyrir liggur að nú skuli hefja vinnu við að samræma verklag við vistun einstaklinga sem taldir eru í sjálfsvígshættu í fangageymslum lögreglu til að tryggja að vistun þeirra samræmist lögum og alþjóðlegum skuldbindingum tel ég ekki rétt að halda áfram frumkvæðisathugun minni á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég mun hins vegar fylgjast með framvindu þeirrar vinnu sem boðuð er af hálfu dómsmálaráðuneytisins og óska af því tilefni eftir því að ráðuneytið upplýsi mig um afrakstur vinnunnar að henni lokinni og sendi mér þá jafnframt afrit af umræddu verklagi eða reglum. Verði þeirri vinnu hins vegar ekki lokið 1. september nk. er þess óskað að mér verði þá greint frá hver staða hennar er á þeim tíma.

Ríkissaksóknara og lögregluembættunum verður sent afrit af þessu bréfi til upplýsingar. Þá hef ég ákveðið, í ljósi aðkomu heilbrigðisyfirvalda að þeim málum sem um ræðir og ríkrar áherslu ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og dómsmálaráðuneytisins á nauðsynlega samvinnu við heilbrigðisstofnanir þegar umræddar aðstæður koma upp, að senda heilbrigðisráðuneytinu og embætti landlæknis afrit af þessu bréfi til upplýsingar.