Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Rökstuðningur. Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Aðstoð ráðningarfyrirtækis.

(Mál nr. 7453/2013)

Af kvartaði yfir því að hafa ekki fengið forsvaranlegan rökstuðning vegna ráðningar í starf hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Einnig kvartaði hann yfir því að hafa ekki borist gögn málsins þrátt fyrir beiðni þar um. Hann gerði enn fremur ýmsar athugasemdir við ráðningarferlið hjá ráðuneytinu.

Settur umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 10. september 2013.

Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti ráðningarfyrirtæki A um að gengið hefði verið frá ráðningu í starfið og veitti rök­stuðning fyrir henni. Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að því hefði sjálfu borið að senda tilkynningu um ráðningu í starfið í ljósi þess að um stjórn­valdsákvörðun þess var að ræða og að það hefði síðar sent A rökstuðning sinn fyrir ráðningu í starfið. Í ljósi þessarar afstöðu taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þetta atriði.

Í rökstuðningi ráðuneytisins var gerð grein fyrir ráðningarferlinu og þeim menntunar- og hæfnis­kröfum sem gerðar voru til umsækjenda. Síðan var í megin­atriðum gerð grein fyrir hvernig sá umsækjandi sem ráðinn var féll að þeim sjónarmiðum sem byggt var á. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki til­efni til frekari umfjöllunar um efni rökstuðningsins. Þar sem í skýringum ráðuneytisins kom fram að A hefðu nú verið afhent umbeðin gögn taldi umboðsmaður ekki heldur ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af því atriði.

Settur umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að A gæti leitað til sín að nýju ef hann óskaði eftir skoðun á efnislegu mati ráðuneytisins á honum og umsækjandanum sem hlaut starfið og málsmeðferð ráðuneytisins að öðru leyti.