Meðlag. Innheimtustofnun sveitarfélaga.

(Mál nr. 7454/2013)

A kvartaði yfir afgreiðslu stjórnar Innheimtustofnunar sveitar­félaga á erindi hans. Þar var hafnað beiðni um að stofnunin félli frá kröfum á hendur A og honum endurgreiddar ofteknar meðlagsgreiðslur. A taldi kröfurnar ólög­mætar þar sem þær væru tilkomnar vegna vanrækslu fyrrum vinnu­veitanda hans á að skila greiðslum til inn­heimtu­stofnunar í samræmi við kröfu hennar þar um. Kvörtunin laut jafnframt að því að forstjóri innheimtustofnunar hefði ritað undir bréf fyrir hönd stjórnar stofnunarinnar en erindi A hefði m.a. lotið að em­bættis­færslum og vinnubrögðum sem hefðu verið á hans ábyrgð.

Settur umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 12. júní 2014.

Í kvörtun sinni vísaði A m.a. til þess að innheimtustofnunin hefði vanrækt að gera kröfu í þrotabú vinnuveitanda hans við gjaldþrot félagsins. Því hefðu afdregnar meðlagsgreiðslur tapast og innheimtustofnun haldið kröfum á hendur honum til streitu.

Af kvörtun A og öðrum gögnum málsins varð ekki ráðið að þau laga- og reglugerðarákvæði sem heimila innheimtustofnuninni að afskrifa höfuðstól meðlagsskulda að hluta eða öllu leyti og fella niður dráttarvexti ættu við í tilviki A. Því reyndi á hvort hann hefði ofgreitt inn­heimtu­stofnun meðlög og ætti af þeim sökum rétt á endurgreiðslu frá stofnuninni.

Þegar launagreiðandi skilar ekki afdregnum meðlagsgreiðslum færir stofnunin, samkvæmt því sem kom fram í málinu, þær greiðslur yfir á launþegann sem greiðslu meðlags og gerir í kjölfarið kröfu á vinnuveitandann um endurgreiðslu þess fjár ásamt vöxtum og kostnaði. Verði vinnuveitandi gjaldþrota kallar stofnunin eftir launa­seðlum frá meðlagsgreiðanda svo unnt sé að lýsa kröfu í þrotabú vinnuveitandans fyrir lok kröfulýsingarfrests.

Samkvæmt gögnum málsins var A sent bréf þar sem kallað var eftir launaseðlum frá honum til þess að unnt væri að lýsa kröfu í þrotabú vinnuveitanda hans, honum gefinn frestur til að hafa samband og hann upplýstur um að ella kynni hann að missa rétt sinn í þessu sambandi. Samkvæmt yfirliti yfir samskiptasögu hans við stofnunina var honum nokkrum sinnum leiðbeint símleiðis um að fram­vísa launaseðlum. Hann afhenti þrjá launaseðla eftir að skiptum á þrotabúi vinnuveitanda hans lauk. Samkvæmt skýringum skilaði vinnuveitandi hans inn tilgreindri fjárhæð sem fullnaðargreiðslu á því sem dregið hefði verið af launum hans til greiðslu meðlaga. Engin gögn bentu til þess að félagið hefði dregið hærri fjárhæð af launum hans en það stóð að lokum skil á. Umboðsmaður taldi sig ekki geta lagt lagt annað til grundvallar við athugun sína en fyrirliggjandi gögn málsins, en samkvæmt þeim hefur ekki verið færð fram sönnun fyrir því að fyrrum vinnuveitandi A hefði dregið meira af launum hans en vinnu­veitandinn stóð innheimtustofnun skil á. Af þessum sökum taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við þá afstöðu Inn­heimtu­stofnunar sveitarfélaga að hafna endurgreiðslukröfu A. 

Af athugun á gögnum málsins varð ekki ráðið að athugasemdir í tilefni af máli A hefðu lotið sérstaklega að em­bættis­færslum og vinnubrögðum forstjóra stofnunarinnar heldur að starfs­mönnum sem hann bar ábyrgð á. Þá taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að líta svo á að ábyrgð forstjóra á starfsemi stofnunar og á almennri fram­kvæmd eða verklagi innan hennar væri sjálfkrafa til þess fallin að valda van­hæfi hans til aðkomu að einstökum málum fyrir hönd stjórnar, án þess að nokkuð annað kæmi til. Að lokum tók hann fram að samkvæmt fyrirliggjandi fundargerð hefði stjórn stofnunarinnar rætt erindi A og tekið ákvörðun um að hafna kröfu hans með ítarlegum bréflegum rökstuðningi og athuga­semdum. Með vísan til þessa taldi umboðsmaður ég ekki ástæðu til að fjalla frekar um aðkomu forstjóra að afgreiðslu erindisins.