Skipulags- og byggingarmál. Byggingarleyfi. Byggingarréttur. Samþykki meðeigenda fjöleignarhúss.

(Mál nr. 9835/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurðinum hafði nefndin hafnað kröfu hennar um að ógilda ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar þar sem samþykkt var umsókn um leyfi til að byggja bílskúr á lóð við fjöleignarhús, en hún var eigandi eins af fjórum eignarhlutum hússins. 

Umsækjandi um byggingarleyfið var eigandi byggingarréttar samkvæmt þinglýstum heimildum. Gert hafði verið ráð fyrir byggingarréttinum í upphafi og á samþykktum teikningum af fjöleignarhúsinu. Í þeim kom m.a. fram að umræddur bílskúr skyldi vera 2,50 metrar að hæð. Umsækjandanum var hins vegar veitt leyfi til að byggja bílskúr sem yrði 2,95 metrar að hæð. A hafði m.a. byggt á því að fella ætti ákvörðun byggingarfulltrúans úr gildi þar sem leyfi hefði verið veitt til þess að byggja hærri bílskúr en gert hefði verið ráð fyrir á samþykktum teikningum án þess að samþykki hennar sem eiganda hefði legið fyrir.

Í áliti umboðsmanns benti hann m.a. á að byggingarréttur væri almennt skilyrtur og óvirkur þegar til hans stofnaðist. Síðari nýting réttarins væri annars vegar háð einkaréttarlegu samkomulagi eigenda fjöleignarhúss og hins vegar að hlutaðeigandi stjórnvöld gæfu út leyfi. Af samspili þeirra ákvæða fjöleignarhúsalaga sem ættu við í málinu leiddi að eigandi byggingarréttar nyti þess hagræðis að þurfa ekki að afla samþykkis meðeigenda ef þeir hefðu þegar samþykkt að viðkomandi ætti tiltekinn rétt eða gert hefði verið ráð fyrir honum í upphafi á samþykktri teikningu, en að öðrum kosti ekki. Það var því m.a. niðurstaða umboðsmanns að fjöleignarhúsalögin veittu ekki svigrúm til að meta hvort afla þyrfti samþykkis meðeigenda umsækjanda um byggingarleyfi ef sótt væri um leyfi til að byggja mannvirki sem ekki rúmaðist innan samþykktra teikninga. Af þessum sökum taldi umboðsmaður að sú afstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hefði þurft að afla samþykkis meðeigenda þrátt fyrir að sótt væri um leyfi til að byggja bílskúr sem ekki rúmaðist innan upphaflegra teikninga sem að auki hafði verið vísað til við gerð eignaskiptayfirlýsingar fjöleignarhússins, á þeim grundvelli að breytingin væri óveruleg og hefði ekki teljandi áhrif á hagsmuni A, hefði ekki verið í samræmi við lög um fjöleignarhús, sbr. lög um mannvirki. Benti hann á að byggingarréttur umsækjandans byggði á einkaréttarlegum gerningi og þyrftu stjórnvöld skýra lagaheimild til að breyta honum. Skýringar nefndarinnar um að slíkt væri heimilt án samþykkis meðeigenda vegna þess að tilefni breytinganna hefði mátt rekja til það sem nefnt var réttarþróun á sviði laga og reglna um mannvirki hefði auk þess ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður mæltist til þess að úrskurðarnefndin tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni frá henni þess efnis, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu. Jafnframt beindi hann því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.