Sauðfjársjúkdómar. Eignarnámsbætur vegna niðurskurðar sauðfjár.

(Mál nr. 36/1988)

Máli lokið með áliti, dags. 8. júní 1989.

Samkvæmt 42. gr. laga nr. 23/1956 um varnir gegn útbreiðslu sauð fjársjúkdóma og útrýmingu þeirra geta fjáreigendur krafist bóta í samræmi við reglur um eignarnám, þegar landbúnaðarráðherra fyrirskipar niðurskurð án samþykkis og samninga við fjáreigendur. Umboðsmaður taldi, að landbúnaðarráðuneytið hefði átt að vekja athygli viðkomandi fjáreiganda á þessum rétti, sbr. meginreglu 4. gr. laga nr. ll /1973 um framkvæmd eignarnáms. Umboðsmaður tók ekki afstöðu til þess, hvort þær bætur, er landbúnaðarráðuneytið bauð, vikju að fjárhæð til frá niðurstöðum mats samkvæmt reglum um eignarnámsbætur. Umboðsmaður taldi 11. kafla reglugerðar nr. 556/1982, um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og kýlapestar í sauðfé og geitum, áfátt að því leyti, að þar væri ekki vikið að umræddum rétti sauð fjáreigenda til eignarnámsbóta, en nefndur ll. kafli geymir einmitt reglur um bætur í tilefni af niðurskurði sauðfjár.

I. Kvörtun.

Í maímánuði 1986 fyrirskipaði landbúnaðarráðuneytið niðurskurð sauðfjár í eigu félagsbús þeirra A og B. A taldi þær bætur, sem ráðuneytið bauð fram af því tilefni, ófullnægjandi. Í framhaldi af því lagði A fram kvörtun, dags. 19. september 1988.

Í bréfi landbúnaðarráðuneytisins frá 26. maí 1986, sem sent var Sauðfjárveikivörnum, kom fram, að samkvæmt 42. gr., sbr. 44. gr. laga nr. 23/1956 skyldi skera niður sauðfé félagsbúsins, ef ekki næðist lausn með samningum við aðila. Ekki tókust samningar um bætur á sama grundvelli og við aðra fjárbændur á viðkomandi svæði og var sauðfé A og B slátrað haustið 1986. A leitaði til landbúnaðarráðuneytisins með bréfi, dags. 14. september 1987, þar sem hann viðraði hugmyndir sínar um bætur vegna niðurskurðarins. Eftir bréfaskriftir milli A og Sauðfjárveikivarna var fallist á, að greiða A sérstaka greiðslu, kr. 100.000,-, vegna sérstaks kynbótagildis fjárins og auk þess bætur til viðbótar vegna afurða 15% umfram landsmeðaltal, sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 556/1982 um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og kýlapestar í sauðfé og geitum.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Eftir að hafa aflað upplýsinga, ákvað ég með bréfi, dags. 13. febrúar 1989, að óska eftir frekari skýringum frá landbúnaðarráðuneytinu. Í bréfi mínu sagði:

„Af gögnum þessa mál virðist mér ljóst, að fé [A og B] hafi verið skorið, án þess að samningar tækjust um niðurskurðinn eða að samþykki þeirra lægi fyrir með öðrum hætti. Í 42. gr. laga nr. 23/1956, um varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma og útrýmingu þeirra, er ráðagerð um það, að fjáreigendur geti krafist mats samkvæmt reglum um eignarnámsbætur, ef fé þeirra er skorið niður án samþykkis þeirra.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis óska ég þess að ráðuneyti yðar geri grein fyrir því, hvort bótareglur II. kafla reglugerðar nr. 556/1982, um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og kýlapestar í sauðfé og geitum, verði lagðar til grundvallar bótum til [A og B] gegn andmælum þeirra. Jafnframt óska ég eftir því að ráðuneytið taki afstöðu til þess, hvort það myndi fallast á, að umræddar bætur yrðu ákveðnar í samræmi við reglur um eignarnámsbætur, ef [A og B] færu fram á það.“

Svar landbúnaðarráðuneytisins barst mér í bréfi, dags. 29. apríl 1989. Þar kom eftirfarandi fram:

„Ráðuneytið tekur fram að bótareglur II. kafla reglugerðar nr. 556/1982 um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og kýlapestar í sauðfé og geitum voru í einu og öllu lagðar til grundvallar bótagreiðslum til eigenda sauðfjár frá [A og B], eins og til annarra fjáreigenda í ... Hafa félagsbúi ... [A og B] verið greiddar afurðatjónsbætur fyrir 320 kindur á árinu 1987 og 1988, kr. 845.760,- fyrir árið 1987 og 1.075.840,- fyrir árið 1988. Samkvæmt upplýsingum Sauðfjárveikivarna voru Félagsbúinu ... að auki greiddar kr. 304.966,- vegna sérstakrar afurðasemi og kynbótagildis fjárins . . .

Ráðuneytið gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við framkvæmd á greiðslum Sauðfjárveikivarna fyrir felldan fjárstofn [þeirra A og B] sem það telur á þann hátt að fullu bættan.

Vegna fyrirspurnar yðar í lok bréfsins skal tekið fram að umfjöllun um bótagreiðslur samkvæmt reglum um eignarnámsbætur hlýtur að ráðast af kröfu fjáreigandans.“

III. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 8. júní 1989, sagði svo:

„Í 42. gr. laga nr. 23/1956 segir að bætur í tilefni af niðurskurði fjár skuli greiddar fjáreigendum samkvæmt ákvæðum þeirra laga og er þar verið að vísa til 37. - 41. gr. laganna. Ákvæði 37.-41. gr. mæla fyrir um tilteknar bætur. Áðurnefnd 42. gr. gerir hins vegar einnig ráð fyrir því, að fjáreigendur geti krafist bóta í samræmi við reglur um eignarnám, þegar landbúnaðarráðherra fyrirskipar niðurskurð án samþykkis og samninga við fjáreigendur. Er það og í samræmi við eignarnámsákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar og á sér stuðning í eldri lögum um sauðfjársjúkdóma, sbr. 42. gr. laga nr. 44/1947 um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra. 42. gr. laga nr. 44/1947 mælti í slíkum tilvikum fyrir um bætur samkvæmt mati eftir gildandi lögum um eignarnám. Kemur ekkert fram um það, að með þeirri breytingu, sem gerð var á 42. gr. laga nr. 47/1944 með 42. gr. laga nr. 23/1956, hafi verið ætlunin að hrófla við umræddum rétti fjáreigenda til að krefja um bætur í samræmi við eignarnámsreglur (Sjá Alþt. 1955, A-deild, bls. 555).

Í II. kafla reglugerðar nr. 556/1982, um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og kýlapestar í sauðfé og geitum, er ekki vikið að umræddum rétti sauðfjáreigenda til eignarnámsbóta, en nefndur II. kafli geymir einmitt reglur um bætur í tilefni af niðurskurði sauðfjár. Tel ég reglugerðinni áfátt að þessu leyti og tel rétt, að landbúnaðarráðuneytið bæti þar um. Ég tek sérstaklega fram að í áliti þessu er ekki fjallað um lagagrundvöll nefndrar reglugerðar nr. 556/1982 að öðru leyti.

Það er skoðun mín, að þeir A og B, ..., geti krafist þess samkvæmt 42. gr. laga nr. 23/1956 að ákvörðun bóta til þeirra vegna niðurskurðar sauðfjár í eigu félagsbús þeirra, samkvæmt áðurgreindri fyrirskipun landbúnaðarráðherra frá 26. maí 1986, verði ákveðnar í samræmi við réttarreglur um eignarnám, sbr. m.a. lög nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Þegar ágreiningur var kominn upp um bætur til þeirra A og B, hefði landbúnaðarráðuneytið átt að vekja athygli þeirra á nefndum rétti, sbr. meginreglu 4. gr. laga nr. 11/1973, enda geta bótaákvæði II. kafla reglugerðar nr. 556/1982 aðeins átt við í þeim tilvikum að samkomulag náist við hlutaðeigandi fjáreigendur um bætur fyrir það fé, sem fargað er.

Ég hef í þessu áliti ekki tekið neina afstöðu til þess, hvort bætur þær, sem landbúnaðarráðuneytið hefur boðið fram í máli þessu, víki að fjárhæð til frá niðurstöðu mats samkvæmt reglum um eignarnámsbætur.“

IV. Viðbrögð stjórnvalda.

Með bréfi, dags. 20. desember 1991, spurðist ég fyrir um það hjá landbúnaðarráðherra, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í tilefni af áliti mínu í ofangreindu máli. Svarbréf landbúnaðarráðuneytisins, dags. 27. janúar 1992, er svohljóðandi:

„Ráðuneytið hefur haft til athugunar bréf yðar, dags. 20. desember s.l., þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvort teknar hafi verið ákvarðanir í tilefni af áliti yðar í máli [A], vegna kvörtunar út af niðurskurði sauðfjár á bænum ...

Til svars erindi yðar skal tekið fram, að hinn 17. janúar 1990 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd til að endurskoða lög nr. 23 10. mars 1956 um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra, með síðari breytingum, svo og önnur lög og lagaákvæði um búfjársjúkdóma. Er nefndinni ætlað að semja frumvarp til laga um búfjársjúkdóma og varnir gegn þeim að teknu tilliti til breyttra aðstæðna frá gildistöku laganna. Nefndin mun ljúka störfum í næsta mánuði og er þess að vænta að frumvarp til laga um þetta efni verði lagt fyrir Alþingi það sem nú situr.

Vegna fyrirspurnar yðar skal tekið fram, að ekki hafa verið gerðar breytingar á reglugerð nr. 556/1982 um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og kýlapestar í sauðfé og geitum, hvorki að því er varðar ákvæði II. kafla um bætur, eða á öðrum ákvæðum hennar. Umræður í þá veru fóru fram innan ráðuneytisins á síðasta ári og ákveðnar tillögur að breytingum liggja fyrir, m.a. á ákvæðum II. kafla. Endanleg ákvörðun um breytingu á reglugerðinni hefur ekki verið tekin, aðallega vegna þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru á greiðslum fyrir sauðfjárafurðir á þessu ári. Telja verður óhjákvæmilegt að taka mið af þeim breytingum við endurskoðun framangreindrar reglugerðar. Samþykki Alþingi ný lög um búfjársjúkdóma fyrir þinglausnir í vor, mun ráðuneytið taka reglugerð nr. 556/1982 til heildarendurskoðunar og taka mið af áðurnefndum breytingum.

Eins og fram kemur í áliti yðar, eiga bótaákvæði II. kafla rg. 556/1982 aðeins við um þau tilvik þegar samkomulag hefur náðst við fjáreiganda um niðurskurð vegna riðuveiki. Náist ekki slíkt samkomulag hefur í undantekningartilvikum verið beitt heimild 42. gr. laga nr. 23/1956 um fyrirskipun landbúnaðarráðherra um niðurskurð, sbr. eldra heimildarákvæði í 41. gr. laga nr. 44/1947.

Er fjáreigendum nú bent á þann rétt skv. 42. gr. laga nr. 23/1956, að krefjast eignarnámsbóta vegna niðurskurðarins, sbr. meðfylgjandi ljósrit af bréfum ráðuneytisins dags. 27. október 1989 og 8. mars 1991. Hafa þrír fjáreigendur þegar fengið greiddar bætur eftir ákvörðun Matsnefndar eignarnámsbóta þ. á m. [A] og mál fjögurra eru nú til meðferðar hjá matsnefndinni.“