Opinberir starfsmenn. Tilkynning um meðferð máls. Rannsóknarreglan. Aðstoð einkaaðila. Trúnaðar- og þagnarskyldur. Heilbrigðisstarfsmenn. Skráning og varðveisla gagna.

(Mál nr. 9823/2018)

A leitaði til umboðsmanns vegna ákvörðunar stjórnvaldsins X um að veita honum það sem kallað var formlegt tiltal vegna brots í starfi vegna tiltekinna samskipta við undirmann sinn. A gerði athugasemdir við meðferð og niðurstöðu málsins, m.a. við aðkomu sálfræðings að því. X hafði tilkynnt A með bréfi að til greina kæmi að áminna hann eða segja honum upp störfum og vísað þar m.a. til þess að leitað hefði verið til utanaðkomandi ráðgjafa, sálfræðings, sem hefði komist að tiltekinni niðurstöðu. Í kvörtuninni var m.a. byggt á því að A hefði talið að upplýsingar sem komu fram í viðtali hans við sálfræðinginn og gögnum sem hann útbjó í kjölfar viðtalsins hefðu átt að vera í trúnaði en honum hefði ekki verið gerð grein fyrir að þær upplýsingar ættu að vera hluti af gögnum máls þar sem til greina kæmi að veita honum áminningu eða segja upp störfum. 

Í máli A reyndi á hvort málsmeðferð stjórnvaldsins X hefði verið í samræmi við lög og reglur sem um stjórnvaldsákvarðanir giltu í ljósi þess að til greina hefði komið að veita honum áminningu eða segja honum upp störfum vegna tiltekinnar háttsemi, þrátt fyrir að niðurstaðan hefði síðan orðið sú að veita honum það sem kallað var formlegt tiltal. Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort málsmeðferð X hefði verið í samræmi við 14. gr. stjórnsýslulaga, um tilkynningu um meðferð máls, og þá í hvaða farveg málið hefði verið lagt.  

Umboðsmaður fjallaði um tiltekin sjónarmið sem stjórnvöld þyrftu almennt að hafa í huga þegar þau fengju utanaðkomandi aðila til aðstoðar við rannsókn og meðferð stjórnsýslumáls. Ábyrgðin á því að reglum stjórnsýsluréttarins væri fylgt í slíkum málum hvíldi á stjórnvaldinu sjálfu og að það væri þess að tryggja að einkaaðilinn þekkti viðeigandi reglur sem fylgja bæri við meðferð þeirra, t.a.m. um skráningu og varðveislu gagna. Sérstök álitamál gætu komið upp í því sambandi þegar viðkomandi sérfræðingur hefði vegna þess fagsviðs sem hann starfaði á sérstakar trúnaðar- og þagnarskyldur gagnvart þeim einstaklingum sem hann fjallaði um. Stjórnvaldinu hefði borið að gæta sérstaklega að tilteknum atriðum í þeim aðstæðum sem uppi voru í málinu þar sem sálfræðingurinn tilheyrði stétt heilbrigðisstarfsmanna sem alla jafna hvíldu trúnaðarskyldur á gagnvart skjólstæðingum sínum.  

Var það álit umboðsmanns að meðferð þess stjórnsýslumáls hjá stjórnvaldinu X þar sem til greina kom að áminna A eða segja honum upp störfum hefði ekki verið í samræmi við 14. gr. stjórnsýslulaga. Sú niðurstaða byggðist á því að X hefði ekki sýnt fram á að A hefði  verið tilkynnt með nægilega skýrum og ótvíræðum hætti af hálfu stjórnvaldsins, áður en hann mætti í viðtal hjá sálfræðingi, að málið hefði á þeim tíma verið lagt í farveg stjórnsýslumáls þar sem til greina kæmi að áminna hann eða segja upp störfum og að sálfræðingurinn hefði það hlutverk að rannsaka málið á þeim grundvelli. Þá taldi hann að stjórn X hefði ekki leyst með réttum hætti úr erindi A þar sem óskað var eftir endurskoðun á málinu. Umboðsmaður taldi jafnframt tilefni til að árétta sjónarmið um ábyrgð stjórnvalda á stjórnsýslumálum í tengslum við þau gögn og upplýsingar sem verða til við meðferð slíkra mála. Benti hann á að þau gögn og upplýsingar sem verða til við meðferð stjórnsýslumáls hjá einkaaðila verða almennt hluti af málinu.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til stjórnar X að leysa úr erindi A, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru  í álitinu. Þá kom umboðsmaður þeim ábendingum jafnframt á framfæri við X að það gerði viðeigandi ráðstafanir í tengslum við varðveislu og skráningu gagna við meðferð stjórnsýslumála og gætti að því að afhenda umboðsmanni afrit af öllum gögnum sem hann óskaði eftir. Hann beindi því jafnframt til X að hafa þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu eftirleiðis í huga. Umboðsmaður taldi jafnframt tilefni til að senda landlækni afrit af álitinu í ljósi þeirra álitaefna sem þar var fjallað um og vörðuðu aðkomu heilbrigðisstarfsmanna að stjórnsýslumálum.