Börn. Aðili máls. Málsmeðferð stjórnvalda.

(Mál nr. F87/2019)

Umboðsmaður ákvað að kanna verklag Barnaverndarstofu um upplýsingagjöf til þeirra sem leita til stofnunarinnar með kvartanir yfir því að barnaverndarnefndir fari ekki að lögum við rækslu starfa sinna, og þá sérstaklega þegar kvörtunin er frá forsjárlausum foreldrum vegna meðferðar á málum barna þeirra eða nánum aðstandendum. 

Barnaverndarstofa gerði grein fyrir verklagi sínu í þessum efnum og tók fram að í framhaldi af fyrirspurn umboðsmanns hefði hluti þess verið tekinn til endurskoðunar. Í ljósi viðbragðanna taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar.   

   

Forathugun umboðsmanns lauk með bréfi til Barnaverndarstofu, dags. 11. desember 2019, sem hljóðar svo:

  

Það tilkynnist hér með að ég hef lokið forathugun minni á verklagi Barnaverndarstofu um upplýsingagjöf til þeirra sem leita til stofnunarinnar með kvartanir yfir því að barnaverndarnefndir fari ekki að lögum við rækslu starfa sinna, og þá sérstaklega þegar kvörtunin er frá forsjárlausum foreldrum vegna meðferðar á málum barna þeirra eða nánum aðstandendum.

Tilefni athugunarinnar var upphaflega að í svarbréfi Barnaverndar­stofu til mín, vegna kvörtunar frá einstaklingi sem ég var með til skoðunar vegna tafa á afgreiðslu Barnaverndarstofu á erindi hans, kom fram að þar sem maðurinn færi ekki með forsjá barnanna sem um ræddi og að niðurstaða Barnaverndarstofu hafi ekki lotið að þáttum málsins sem vörðuðu hann með beinum hætti hafi hann ekki verið talinn aðili máls í skilningi barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þess vegna hafi honum ekki verið sent afrit af bréfi stofnunarinnar til viðkomandi barnaverndarnefndar. 

Til þess að mér væri unnt að meta hvort tilefni væri til að taka þetta atriði til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar umboðsmanns í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ritaði ég Barnaverndarstofu bréf 19. ágúst sl. Þar óskaði ég eftir því að Barnaverndarstofa upplýsti mig um hvaða almenna verklag gilti um upplýsingagjöf til þeirra sem kvarta til stofnunarinnar yfir því að barnaverndarnefndir fari ekki að lögum við rækslu starfa sinna, og þá sérstaklega í þeim tilvikum þegar forsjárlausir foreldrar kvarta vegna meðferðar á málum barna þeirra eða eftir atvikum nánir aðstandendur.

Svar við fyrirspurninni barst með bréfi Barnaverndarstofu dags. 24. september sl. Þar gerir Barnaverndarstofa grein fyrir gildandi verklagi. Meðal annars kemur fram í svarinu að athugun Barnaverndarstofu á grundvelli 8. gr. laga nr. 80/2002 sé ekki eiginlegt stjórnsýslumál heldur sinni stofan fyrst og fremst lögbundnu eftirlitshlutverki sínu gagnvart barnaverndarnefndum, þótt slík athugun hefjist vegna upplýsinga sem stofnunni berast frá einstaklingi sem er ósáttur við vinnslu nefndar í tilteknu mái. Þeir sem kvarta eigi þarf af leiðandi ekki beina aðild að athugun Barnaverndarstofu á grundvelli 8. gr. barnaverndarlaga. Slík athugun sé alltaf sjálfstæð og geti beinst að öðrum atriðum en kvartað var yfir.

Barnaverndarstofa bendir á að það verklag hafi samt sem áður verið viðhaft að veita þeim, sem til stofunnar leitar með athugasemdir við störf tiltekinnar barnaverndarnefndar, upplýsingar um lyktir máls í þeim tilvikum þegar viðkomandi er aðili að barnaverndarmálinu sjálfu hjá þeirri barnaverndarnefnd sem um ræðir. Í þeim tilvikum þegar viðkomandi telst ekki aðili að barnaverndarmálinu hefur Barnaverndarstofa upplýst viðkomandi um ástæður þess að ekki er unnt að veita nánari upplýsingar um afgreiðslu málsins eða að eingöngu sé hægt að upplýsa viðkomandi um hluta niðurstöðu Barnaverndarstofu. Í svarbréfinu til mín er sérstaklega gerð grein fyrir því hvernig Barnaverndarstofa hefur afmarkað rétt foreldra sem fara ekki með forsjá til upplýsinga við meðferð og afgreiðslu kvartana. Í slíkum tilvikum er metið í hverju tilviki fyrir sig hvort einhverjir þættir málsins varði viðkomandi foreldri með beinum hætti. Ef svo er, hvort sem um forsjárlausa foreldra er að ræða eða aðra nákomna, þá hefur Barnaverndarstofa lagt til grundvallar, í samræmi við sjónarmið í lokabréfi umboðsmanns í málinu nr. 586/2007, að ef úrlausnarefni varði hagsmuni foreldris eða eftir atvikum annarra nákominna, að viðkomandi eigi rétt til upplýsingu um þá þætti málsins.

Barnaverndarstofa gerir í bréfinu sérstaklega grein fyrir verklagi í tengslum við umkvörtunaratriði forsjárlauss foreldris eða annarra nákominna varðandi þætti sem ekki varða viðkomandi með beinum hætti. Um það segir í svarbréfinu að þá hafi Barnaverndarstofa afmarkað upplýsingagjöf til við komandi þannig að hann teljist ekki aðili að málinu, hvorki í heild né að hluta og í slíkum tilvikum séu ekki veittar frekari upplýsingar, hvorki um gang málsins né hver niðurstaða þess hefur orðið. Í niðurlagi svarbréfs Barnaverndarstofu segir svo eftirfarandi:

„Að lokum vil Barnaverndarstofa taka það fram að í framhaldi af tilvitnuðu fyrirspurnarbréfi umboðsmanns hefur stofan tekið hluta af verklagi stofunnar til endurskoðunar og komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt sé að tilkynna þeim sem til stofunnar leita með athugasemdir sínar ávallt þegar stofan hefur lokið við skoðun sína á málinu og þá eftir atvikum einnig um niðurstöðu stofunnar.“

Í ljósi þess sem að framan er rakið, og þess að Barnaverndarstofa hefur upplýst að hún hafi þegar tekið verklag sitt til endurskoðunar með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin voru í fyrirspurnarbréfi mínu, tel ég ekki tilefni til að taka verklag stofunnar að þessu leyti til formlegrar athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég mun þó áfram fylgjast með þessum málum með hliðsjón af þeim kvörtunum og ábendingum sem mér kunna að berast og taka til frekari athugunar ef ég tel ástæðu til.