Menntamál. Starfsréttindi kennara. Öryggiskröfur á sundstöðum. Lagaheimild. Stjórnvaldsfyrirmæli.

(Mál nr. 10051/2019)

A sem starfar sem íþróttakennari, og kennir m.a. sund í grunnskóla, leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að samkvæmt reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum væri þess krafist að sundkennarar stæðust hæfnispróf eða færu á endurmenntunarnámskeið. Taldi hann að umræddar kröfur takmörkuðu stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi hans og ættu sér ekki fullnægjandi stoð í lögum. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort fullnægjandi lagaheimild væri til staðar til að gera kröfur til sundkennara á grundvelli reglugerðarinnar sem sett var af umhverfis- og auðlindaráðherra.

Umboðsmaður óskaði eftir skýringum frá bæði umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu af þessu tilefni. Í svörum beggja ráðuneyta var að meginstefnu byggt á því að þær kröfur sem höfðu verið settar í reglugerð af hálfu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, á grundvelli heimildar í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, vörðuðu mikilvæg öryggismál og þar með almannahagsmuni. Lögin hefðu eðli máls samkvæmt tengingu við marga málaflokka og eðlilegt væri að fjalla um kröfur til sundkennara í reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, enda væri það gert í formlegu samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Þá höfðu bæði ráðuneyti vísað til þess að þegar skilgreiningu á hugtakinu „hollustuvernd“ hefði verið breytt með lögum hefði tilgangur þess verið að rýmka inntak hugtaksins og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu heimilt að setja reglur, m.a. um öryggi á sund- og baðstöðum.

Umboðsmaður benti á að sundkennarar hefðu réttindi til að sinna kennslu sem færi fram í sundlaugum. Slíkir staðir væru starfsleyfisskyldir. Þær kröfur sem væri deilt um í málinu fælu í reynd í sér viðbótarkröfur til þess að menntaður kennari gæti nýtt sér réttindi sín til að sinna sundkennslu í skólum. Almennt yrði að miða við að ákvæði í reglugerðum sem væru íþyngjandi fyrir borgaranna eða takmörkuðu réttindi þeirra ættu sér skýra lagastoð.  Í tilviki A hefði hann fengið útgefin leyfisbréf til að nota starfsheitin grunnskóla- og framhaldsskólakennari. Ekki væri dregið í efa að það væri tilefni til að gæta öryggis á sund- og baðstöðum en ráðstafanir í formi reglugerðar sem gripu inn í viðurkennd starfsréttindi sundkennara þyrftu að uppfylla kröfur um lagaheimild og skýrleika hennar.

Það var niðurstaða umboðsmanns að þær heimildir sem ráðherra hefði vísað til, og þá m.a. með tilliti til orðalags í lögskýringargögnum, hefðu ekki svo ótvírætt væri átt að ná til þess að setja skilyrði um endurmenntun og/eða hæfnispróf þeirra sem koma að störfum á sund- og baðstöðum umfram það sem félli beint undir þá öryggisþætti sem leiddir yrðu af orðalagi skilgreiningar á hugtakinu „hollustuvernd“ í lögunum. Ekki yrði séð að löggjafinn hefði veitt umhverfis- og auðlindaráðherra heimild til að gera þær kröfur til endurmenntunar og/eða hæfnisprófa af hálfu kennara sem hefðu viðurkennd starfsréttindi til sundkennslu með þeim hætti sem gert hefði verið í umræddri reglugerð. Þá benti umboðsmaður á að hlutaðeigandi stjórnvöld þyrftu að hafa forgöngu um að tryggja að þær reglur sem þau hefðu heimild til að setja um öryggiskröfur innan íþróttamannvirkja, þ.m.t. á sundstöðum, væru settar af þar til bærum aðila og efni þeirra hefði fullnægjandi lagastoð.