Skipulags- og byggingarmál. Sveitarfélög. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 9770/2018)

A kvartaði yfir að sveitarfélagið X hefði ekki brugðist við kröfu um að hús, sem stæði mjög nálægt lóðarmörkum við lóð sem A og fjölskylda hefðu haft á leigu um áratugaskeið, yrði fjarlægt. Laut kvörtunin jafnframt að beiðni um aðgang að gögnum hefði ekki verið afgreidd.

Við eftirgrennslan umboðsmanns kom í ljós að málið var í farvegi. Eiganda hússins á nágrannalóðinni hefði verið gert að fjarlægja það og verið veittur frestur til þess. Ekki yrði heldur annað séð en A hefði verið veittur aðgangur að tilteknum gögnum málsins.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. janúar 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín sem beinist að því að sveitarfélagið X hafi ekki brugðist við kröfu yðar um að fjarlægt verði hús sem stendur á lóð nr. [...] í mikilli nálægð við lóðarmörk lóðar nr [...] sem þér ásamt fjölskyldu yðar hafið haft á leigu um áratugaskeið. Þá lýtur kvörtun yðar að því að beiðni yðar um aðgang að gögnum varðandi málið hafi ekki verið afgreidd.

Í tilefni af kvörtuninni var sveitarfélaginu ritað bréf, dags. 24. júlí sl., þar sem óskað var eftir upplýsingum og gögnum sem varpað gætu ljósi á þann farveg sem umrætt mál var lagt í og hvort erindi yðar væri enn til meðferðar hjá sveitarfélaginu og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Þá var óskað eftir upplýsingum um hvað liði afgreiðslu á beiðni yðar um aðgang að gögnum málsins. Með bréfum, dags. 13. september, 4. október, 31. október og 15. janúar sl. var erindið ítrekað.

Mér hefur nú borist svar frá sveitarfélaginu, dags. 22. janúar sl., þar sem framvindu málsins er lýst. Þar kemur m.a. fram að með ákvörðun byggingarfulltrúa sveitarfélagsins, dags. [...], hafi eiganda hússins á lóð nr. [...] verið gert að fjarlægja húsið af lóðinni og var frestur veittur til 1. október s.á. að viðlögðum dagsektum. Í kjölfarið óskaði eigandi hússins eftir því við byggingarfulltrúa að frestur til að fjarlægja húsið yrði framlengdur til 1. ágúst 2019 þar sem til stæði að reisa nýtt frístundahús á lóðinni og hugðist hann nýta gamla húsið sem vinnuaðstöðu á meðan á framkvæmdum stæði. Byggingarfulltrúi óskaði af því tilefni eftir ýmsum gögnum hjá eiganda hússins, m.a. samningi um kaup á frístundahúsi og verkáætlun. Með ákvörðun byggingarfulltrúa, dags. [...], var eiganda hússins á lóð nr. [...] veittur umbeðinn frestur til 1. ágúst 2019 til að fjarlægja húsið með tilteknum fyrirvörum. Samkvæmt svarbréfi sveitarfélagsins og þeim gögnum sem því fylgdu voruð þér upplýstar um framgang málsins á meðan beiðni eiganda hússins um lengri frest var til meðferðar, með tölvubréfum, dags. 23. október, 22. nóvember, 27. desember og 11. janúar sl. Þá fæ ég ráðið að yður hafi jafnframt verið veitt afrit af samskiptum byggingar­fulltrúa við eiganda hússins.

Þar sem kvörtun yðar til mín lýtur einkum að töfum á málsmeðferð og þar sem mér hafa nú borist upplýsingar um að mál er varðar húsið á lóð nr. [...] séu í farvegi og að eiganda hússins hafi verið gert að fjarlægja húsið innan tiltekinna tímamarka tel ég ekki tilefni til að fjalla frekar um það atriði í kvörtun yðar. Þá fæ ég ekki betur séð af þeim gögnum sem mér bárust frá sveitarfélaginu en að yður hafi verið veittur aðgangur að tilteknum gögnum varðandi málið. Ég tel þó ekki fyllilega ljóst hvort orðið hafi verið við beiðni yðar að öllu leyti. Ef þér teljið að beiðni yðar um gögn hafi ekki verið afgreidd með fullnægjandi hætti getið þér leitað til sveitarfélagsins með ítrekun þar að lútandi. Verði frekari tafir á afgreiðslu slíkrar beiðni getið þér að sjálfsögðu leitað til mín á nýjan leik með kvörtun vegna tafa.

Með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég þar með athugun minni á málinu. Ég tek fram að mál þetta hefur þó orðið mér tilefni til að koma tiltekinni ábendingu á framfæri við sveitarfélagið í hjálögðu bréfi, dags. í dag. Sú ábending breytir þó ekki framangreindri niðurstöðu minni.

   


   

Bréf umboðsmanns, dags. 29. janúar 2019, til sveitarfélagsins X hljóðar svo:

 

Ég vísa til bréfaskipta í tilefni af kvörtun A er laut að því að sveitarfélagið X hefði ekki brugðist við kröfu A um að fjarlægt yrði hús sem stæði á lóð [...].

Eins og fram kemur í bréfi mínu til A, dags. í dag, hef ég lokið athugun minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga, nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á málinu orðið mér tilefni til að koma eftirfarandi ábendingu á framfæri og þá með það í huga að hún verði framvegis höfð í huga við meðferð mála hjá sveitarfélaginu.

Í tilefni af kvörtun A til mín var sveitarfélaginu ritað bréf, dags. 24. júlí 2018, og var þess þá óskað að svör við því bærust eigi síðar en 28. ágúst s.á. Síðan hefur erindið verið ítrekað fjórum sinnum með bréfum, dags. 13. september, 4. og 31. október og 15. janúar sl. Mér barst svar sveitarfélagsins með bréfi, dags. 22. janúar sl., þ.e. sex mánuðum eftir að sveitarfélaginu var fyrst ritað bréf. Ekki hafa komið fram neinar skýringar á því hvers vegna slíkur dráttur varð á svörum til mín að öðru leyti en því að lögmaður sveitarfélagsins ritaði mér bréf, dags. 8. nóvember sl., þar sem fram kom að sveitarfélagið hefði leitað til hans með málið og að vænta mætti svara á allra næstu dögum.

Í svari sveitarfélagsins til mín er ekki að finna svar við þeim þætti fyrirspurnarinnar er laut að því hvort brugðist hefði verið við beiðni A um aðgang að tilteknum gögnum varðandi málið. Eins og fram kemur í bréfi mínu til A tel ég ekki fyllilega ljóst hvort sveitarfélagið hafi orðið við beiðni A um afhendingu gagna að öllu leyti. Af þeim sökum beindi ég því til A að ef A teldi sig enn ekki hafa fengið þau gögn sem A óskaði eftir gæti A leitað til sveitarfélagsins á ný.

Ákvæði 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, veita umboðsmanni víðtækan rétt til að krefja stjórnvöld um upp­lýsingar og skýringar sem hann þarfnast vegna starfs síns. Sinni stjórn­völd því ekki að láta umboðsmanni í té nauðsynlegar skýringar og gögn innan hæfilegs tíma frá því að þess er óskað er honum torvelt að sinna því eftirlitshlutverki með stjórnsýslunni sem honum er ætlað sam­kvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997. Ég tel ljóst að sá dráttur sem varð á því að sveitarfélagið svaraði fyrir­spurnarbréfum mínum í tilefni af máli þessu og skortur á að sveitarfélagið svaraði fyrirspurn minni varðandi beiðni A um aðgang að gögnum málsins hafi ekki samrýmst þeim sjónarmiðum sem lög um umboðsmann Alþingis byggjast á.