Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Álitsumleitan. Atvinnuleyfi. Aðild. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 9850/2018)

Félagið A kvartaði yfir ráðningu á bandarískum ríkisborgara í stöðu hjá X og þeirri afstöðu Vinnumálastofnunar að félagið hefði ekki átt aðild að máli sem lauk með því að sama einstaklingi var veitt tímabundið atvinnuleyfi. Því yrði farið með beiðni félagsins um gögn eftir upplýsingalögum.

Ekki varð ráðið að sá hluti kvörtunarinnar sem laut að ráðningu í stöðuna snerti beinlínis hagsmuni A eða réttindi umfram aðra. Ekki voru því forsendur til að umboðsmaður tæki þann þátt til athugunar. Hvað snerti aðgang að gögnum hafi komið fram í bréfi frá Vinnumálastofnun að hún telji félagið hafa átt rétt þeim en vegna mistaka hafi þeim rétti ekki verið fullnægt. Úr því hefði verið bætt.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. janúar 2019, sem hljóðar svo:

 

I

Ég vísa til kvörtunar A 1. október sl. og viðbótargagna sem bárust 18. sama mánaðar. Ég skil erindi félagsins þannig að kvartað sé yfir ráðningu X á bandarískum ríkisborgara í stöðu sem var auglýst laus 18. ágúst 2017 og þeirri afstöðu Vinnumálastofnunar að félagið hafi ekki átt aðild að máli sem lauk með því að sama einstaklingi var veitt tímabundið atvinnuleyfi. Því yrði farið með beiðni félagsins um gögn eftir upplýsingalögum, nr. 140/2012, sbr. tölvupóstsamskipti 4. september sl.

II

1

Í tilefni af þeim hluta kvörtunarinnar sem lýtur að ráðningu í starf hjá X bendi ég á 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar kemur fram að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns, getur kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Þessi hluti kvörtunarinnar beinist að ákvörðun stjórnvalds um ráðningu tiltekins einstaklings. Hvað sem líður aðkomu A að leyfisveitingu vegna umræddrar ráðningar á vettvangi Vinnumála­stofnunar átti félagið ekki aðild að ráðningarmálinu sem slíku hjá X. Af þeim sökum og þar sem annað liggur ekki fyrir fæ ég ekki ráðið að þessi hluti kvörtunar félagsins snerti beinlínis hagsmuni þess eða réttindi umfram aðra. Ég tel mig því ekki hafa forsendur til að líta svo á að kvörtun félagsins að þessu leyti uppfylli skilyrði í lögum um umboðsmann Alþingis.

Þar sem þessi hluti kvörtunarinnar er rökstuddur með vísan til þess að ráðningin hafi brotið í bága við tiltekið ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, vek ég athygli félagsins á að lögin taka ekki til starfsmanna X, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 2. gr. laganna og dóm Hæstaréttar Íslands 1. mars 2007 í máli nr. 438/2006.

Jafnframt vek ég athygli á að ef einstaklingur sem átti aðild að framangreindu ráðningarmáli telur sig hafa verið beittan rangsleitni getur hann kvartað af því tilefni til mín, auk þess sem A getur kvartað fyrir hans hönd að fengnu umboði þar að lútandi. Ég árétta að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé fyrir einstakling í þeirri stöðu að kvarta til mín.

2

Í tilefni af þeim hluta kvörtunarinnar sem varðar aðgang félagsins að gögnum ritaði ég Vinnumálastofnun bréf 21. nóvember sl., sem félaginu var kynnt með bréfi, dags. sama dag. Mér barst svar stofnunarinnar 16. janúar sl. Þar kemur m.a. fram að Vinnumálastofnun telji að A hafi átt rétt á aðgangi að gögnum málsins og að þeim rétti hafi, vegna mistaka, ekki verið fullnægt. Hafi stofnunin því sent félaginu afrit þeirra gagna sem hafi verið undanþegin aðgangi þess.

Þessi hluti kvörtunarinnar lýtur að afgreiðslu Vinnumálastofnunar á beiðni félagsins um aðgang að gögnum og stofnunin hefur nú sent félaginu afrit þeirra gagna sem höfðu verið undanþegin aðgangi þess. Af þeim sökum tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna þessa hluta málsins. Ég tek fram að á þessu stigi hef ég ekki tekið neina afstöðu til þess hvort og þá hvaða þýðingu þessi dráttur á að afhenda gögnin hefur haft áhrif á möguleika félagsins til að veita lögbundna umsögn.

III

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég umfjöllun minni um kvörtun Félags íslenskra hljómlistarmanna, sbr. 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.