Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 9883/2018)

A kvartaði yfir töfum á meðferð kærumáls síns hjá dómsmálaráðuneytinu vegna úrskurðar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um umgengni barns A við föður þess

Við eftirgrennslan umboðsmanns hjá ráðuneytinu kom í ljós að til stæði að ljúka málinu á tilteknum tíma og var það gert nokkru síðar með úrskurði.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. janúar 2019, sem hljóðar svo:

 

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín frá 30. október 2018 sem lýtur að töfum á meðferð kærumáls yðar hjá dómsmálaráðuneytinu vegna úrskurðar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um umgengni barns yðar við föður þess.

Í tilefni af kvörtun yðar var ráðuneytinu ritað bréf, dags. 5. nóvember sl., þar sem þess var óskað að ráðuneytið veitti upplýsingar um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindis yðar. Að fengnum svörum ráðuneytisins með bréfi, dags. 16. nóvember sl., um að gert væri ráð fyrir að málinu lyki fyrir nóvemberlok, var ráðuneytinu ritað bréf á ný, dags. 20. nóvember sl., þar sem þess var m.a. óskað að ég yrði upplýstur um þegar erindinu hefði verið svarað. Yrðu tafir á afgreiðslu málsins var þess jafnframt óskað að ég yrði upplýstur um stöðu málsins í síðasta lagi 17. desember sl. og bárust mér umbeðnar upplýsingar með bréfi, dags. 18. desember sl.

Mér hefur nú borist bréf ráðuneytisins, dags. 15. janúar sl., þar sem fram kemur að ráðuneytið hafi úrskurðað í kærumáli yðar.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á meðferð máls yðar hjá ráðuneytinu og það hefur nú afgreitt málið tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna hennar.

Með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég þar með athugun minni á málinu.