Eignir ríkisins. Ríkisjarðir. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir. Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 9927/2018)

A og B kvörtuðu annars vegar yfir afstöðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra  til erindis þeirra og hins vegar málsmeðferð og afgreiðslu Ríkiseigna á málefnum þeirra.

Umboðsmaður taldi rétt að hlutaðeigandi freistuðu þess að leita til fjármála- og efnahagsráðuneytisins áður en leitað yrði til sín, þar sem mál sem varði Ríkiseignir og ríkisjarðir heyri undir það ráðuneyti.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. janúar 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar 18. desember sl. fyrir hönd A og B yfir annars vegar afstöðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá 19. nóvember sl. til erindis yðar frá 11. september sl. og hins vegar málsmeðferð og afgreiðslu Ríkiseigna á málefnum umbjóðenda yðar. Í kvörtun yðar er rakið að umbjóðendur yðar og Ríkiseignir greini á um tiltekin atriði sem varða ábúð þeirra á jörðinni X. Þar sem umbjóðendur yðar hafi ekki náð samkomulagi um lausn á málum við Ríkiseignir hafi þeir leitað til framangreinds ráðherra, sem fari með yfirstjórn þeirra mála sem ábúðarlög gilda um, sbr. 3. gr. laga nr. 80/2004. Í erindi þeirra til ráðherrans, dags. 11. september sl., kom fram að umbjóðendur yðar gerðu þá kröfu að hann tæki mál jarðarinnar til sérstakrar skoðunar og afgreiðslu. Þá óskuðu umbjóðendur yðar eftir því að ráðherra staðfesti að þau væru enn ábúendur á jörðinni.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er fjallað um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar hjá umboðsmanni. Í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvaldið hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Í samræmi við þau sjónarmið sem búa að baki þessu ákvæði hef ég talið að áður en umboðsmaður Alþingis tekur mál til meðferðar sé rétt að stjórnvald sem fer með yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með að taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að það beiti þeim heimildum sínum.

Sem fyrr segir fer sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem ábúðarlög, nr. 80/2004, gilda um, sbr. 3. gr. Í j. lið 6. tölul. 2. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sbr. 2. gr. forseta­úrskurðar nr. 120/2018, um skiptingu starfa ráðherra, kemur fram að undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra falli almenn jarðamál, ábúðarmál, afréttir, fjallskil og girðingar, þ.m.t. málefni úttektar­manna og yfirmatsnefndar samkvæmt ábúðarlögum. Á hinn bóginn fer fjármála- og efnahagsráðuneytið með mál er varða ríkisjarðir og Ríkiseignir, sbr. f. og h. liði 3. tölul. 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018. Þá starfa Ríkiseignir á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál.

Ágreiningur umbjóðenda yðar við Ríkiseignir lýtur m.a. að málsmeðferð og athöfnum Ríkiseigna sem varða forræði ríkisins á ríkisjörð. Af þeim sökum og þar sem mál er varða Ríkiseignir og ríkisjarðir heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og Ríkiseignir starfa á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra, tel ég rétt að umbjóðendur yðar freisti þess að leita til fjármála- og efnahags­ráðuneytisins áður en þau leita til mín, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Ég bendi jafnframt á að eins og málið var lagt fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með erindi umbjóðenda yðar frá 11. september sl. verður ekki séð að sá ráðherra hafi haft valdheimildir eða borið að taka til úrlausnar það ágreiningsefni sem þar var fjallað um.

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef umbjóðendur yðar ákveða að fylgja þessu máli eftir með því að leita til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og telja sig beitt rangsleitni að fenginni afstöðu þess geta þau leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi og verður þá metið að hvaða marki hún getur komið til umfjöllunar hjá mér.