Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Svör við erindum.

(Mál nr. 9929/2018)

A kvartaði annars vegar yfir á hvaða lagagrundvelli landlæknisembættið ákvað að afgreiða erindi hans og hins vegar að honum hefðu ekki borist svör við erindinu eða viðbrögð við ítrekun.

Við eftirgrennslan kom í ljós að málið var að hluta enn til meðferðar hjá landlæknisembættinu og virtist komið í farveg.

   

Umboðsmaður lauk því málinu með bréfi, dags. 24. janúar 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 19. desember sl., sem beinist að landlæknisembættinu. Annars vegar kvartið þér yfir því að landlæknisembættið hafi ákveðið að afgreiða erindi yðar frá 1. mars. sl., vegna aðgerðar [...], á grundvelli 1. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, sem fjallar um samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu, en ekki 2. mgr. 12. gr., sem fjallar m.a. um formlegar kvartanir vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Hins vegar kvartið þér yfir því að yður hafi ekki borist svör við erindinu eða viðbrögð við ítrekun sem þér senduð embættinu 7. nóvember sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var landlæknisembættinu ritað bréf, dags. 21. desember sl., þar sem þess var óskað að embættið veitti mér upplýsingar um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Mér hefur nú borist svar ásamt tölvupósti til yðar, dags. 17. janúar sl., þar sem m.a. kemur fram að viðkomandi læknir hafi svarað embættinu vegna málsins með bréfi, dags. 17. október sl., yður eru veittar tilteknar leiðbeiningar og tilkynnt að málið sé nú til skoðunar í ljósi 26. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, sem fjallar um samþykki vegna meðferðar sjúkra barna. Tekið er fram að nánari upplýsinga um þetta atriði megi vænta innan tveggja vikna.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt.

Þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála og fyrir liggur að mál hefur verið til meðferðar í nokkurn tíma og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt hefur almennt, þrátt fyrir áðurnefnda reglu, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá stjórnvaldinu hvað líði afgreiðslu viðkomandi máls. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úrlausn sinna mála enda hefur reyndin í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfunum og hvenær ráðgert er að afgreiða málið. Í þessum tilvikum lýkur umboðsmaður þá athugun sinni á málinu.

Samkvæmt því sem kemur fram í svari landlæknisembættisins til yðar, dags. 17. janúar sl., er málið enn til meðferðar hjá embættinu að hluta og virðist nú vera komið í farveg. Í ljósi þess tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu. Ef þér teljið yður hins vegar enn beittan rangsleitni að fenginni endanlegri niðurstöðu landlæknis í málinu getið þér leitað til mín á ný, eftir atvikum að undangenginni kæru til heilbrigðisráðherra, sbr. 6. gr. 12. gr. laga nr. 41/2007. Í því sambandi tel ég rétt að taka fram að kæruheimildin er bundin við málsmeðferð landlæknis.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég máli þessu lokið.