Greiðsluaðlögun og eignaráðstöfun. Gjaldþrotaskipti. Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 9931/2018)

A kvartaði í desember 2018 yfir ákvörðun umboðsmanns skuldara frá því í september 2014 um að synja honum um fjárhagsaðstoð til greiðslu skiptakostnaðar vegna gjaldþrotaskipta.

Á meðal skilyrða þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns Alþingis er að hún sé borin upp innan árs frá því að sá stjórnsýslugerningur sem um ræðir hafi verið til lykta leiddur.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. janúar 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar frá 21. desember 2018 yfir ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 10. september 2014 um að synja yður um fjárhagsaðstoð til greiðslu skiptakostnaðar vegna gjaldþrotaskipta yðar. Þar sem engin gögn fylgdu kvörtun yðar var þess óskað, með símtali 27. desember sl., að þér senduð mér upplýsingar sem varpað gætu frekara ljósi á kvörtun yðar. Þau bárust með tölvupósti 8. janúar sl.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Kvörtun yðar lýtur samkvæmt framangreindu að synjun umboðsmanns skuldara um fjárhagsaðstoð frá 10. september 2014. Með hliðsjón af því að kvörtun yðar barst mér 21. desember 2018 fæ ég ekki séð að framangreindu skilyrði sé fullnægt.

Í tilefni af kvörtun yðar er einnig vert að taka fram að í 3. mgr. 6. gr. er kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðs­manns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggir á því sjónarmiði að afstaða stjórnvalda til erindis verður að liggja fyrir og stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Ákvarðanir umboðsmanns skuldara um veitingu fjárhagsaðstoðar eru kæranlegar til félags- og barnamálaráðherra sbr. 6. gr. laga nr. 9/2014, um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Málsmeðferð kæru fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Ljóst er að umræddur kærufrestur er liðinn þar sem ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin í september 2014.   

Með vísan til framangreinds tel ég að ekki séu skilyrði að lögum til þess að ég fjalli frekar um kvörtun yðar. Lýk ég því athugun minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.