Sveitarfélög. Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 9935/2018)

A kvartaði yfir greiðslu úr bæjarsjóði X til maka látins starfsmanns sveitarfélagsins.

Umræddar greiðslur áttu sér stað árið 2014 og þar með utan þess frests sem mælt er fyrir um í lögum um umboðsmann Alþings.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. janúar 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til erindis yðar til mín, dags. 29. desember sl., þar sem þér kvartið yfir greiðslu úr bæjarsjóði X til maka látins starfsmanns sveitarfélagsins.

Í kvörtun yðar vísið þér til álits míns frá 7. desember sl. í máli nr. 9672/2018 þar sem fjallað var um atriði sem sneru að syni starfsmannsins, sem bar ábyrgð á dánarbúi hans, einkum fyrirkomulagi greiðslnanna og samskiptum við sveitarfélagið. Í álitinu var sérstaklega tekið fram að það hvort makinn hefði átt rétt á greiðslunum varðaði kjarasamningsbundin réttindi og félli því utan athugunar minnar.

Auk framangreinds liggur fyrir að umræddar greiðslur áttu sér stað á árinu 2014 eða utan þess frests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis, þ.e. árs frá því að stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki uppfyllt skilyrði til að taka kvörtun yðar til meðferðar. Ég bendi yður hins vegar á að innan stjórnkerfis ríkisins hefur ákveðnum aðilum verið falið að hafa eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga. Þannig hefur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga  almennt eftirlit með því að fjármál og fjármálastjórn sveitarfélaga séu í samræmi við lög og reglur, sbr. 1. mgr. 79. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þá hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra almennt stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum, m.a. við meðferð mála sem lúta að fjármálum sveitarfélaga, sbr. 109. og 110. gr. laganna. Ef þér teljið tilefni til getið þér því freistað þess að leita til eftirlitsnefndarinnar og/eða samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins en ég tek það fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess að hvaða marki það málefni sem kvörtun yðar til mín beinist að á undir þessa aðila.

Með vísan til framangreinds læt ég máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.