Póst og fjarskiptamál. Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 9940/2018)

A kvartaði yfir því að Síminn hf. hefði lokað fyrir þann möguleika viðskiptavina sinna að taka upp efni til eigin nota og taldi að ákvörðunin ætti sér ekki lagastoð.

Starfssvið umboðsmanns nær einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu stjórnsýslulaga. Umboðsmaður taldi því ekki skilyrði að lögum til að fjalla frekar um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. janúar 2019, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til kvörtunar yðar 3. janúar sl. yfir því að Síminn hf. hafi lokað fyrir þann möguleika viðskiptavina sinna að taka upp efni til eigin nota. Þér teljið að ákvörðun Símans hf. eigi sér ekki lagastoð og vísið m.a. í 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftir­­lit með stjórn­sýslu ríkis og sveitar­félaga og tryggja rétt borgaranna gagn­vart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ég fæ ekki séð af erindi yðar að kvartað sé yfir athöfn eða ákvörðun stjórnvalds í máli yðar. Þá beinist kvörtun yðar ekki að einkaaðila sem hefur með lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga, heldur varði kvörtunin eins og áður segir ákvörðun Símans hf. sem er einkaréttarlegt hlutafélag, sbr. lög um hlutafélög nr. 2/1995. Í ljósi þessa og framangreindra lagareglna um starfssvið umboðsmanns Alþingis eru því ekki uppfyllt skilyrði til að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar. Er umfjöllun minni um mál yðar því hér með lokið sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.