Námslán og styrkir. Háskólar. Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 9942/2018)

A kvartaði yfir að hafa fengið synjun á umsókn um doktorsstyrk vegna doktorsverkefnis, úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands við úthlutun vegna ársins 2018. Einnig að sér hafi verið synjað um aðgang að upplýsingum og beiðni um aðgang að tilteknum gögnum hefði ekki verið svarað efnislega.

Umboðsmaður taldi rétt, með vísan til sjónarmiða að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. um umboðsmann Alþingis að A freistaði þess fyrst að óska eftir afstöðu háskólaráðs til málsmeðferðar við afgreiðslu á styrkumsókninni. Sama máli gegndi um synjun stjórnar Rannsóknasjóðs á að veita A aðgang að upplýsingum um úthlutunarferlið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. janúar 2019, sem hljóðar svo:

   

I

Ég vísa til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 4. janúar sl., þar sem þér kvartið yfir synjun á umsókn yðar um doktorsstyrk vegna doktors­verkefnis úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands og Rannsókna­sjóði Háskóla Íslands við úthlutun vegna ársins 2018. Þér beinið kvörtun yðar að Háskóla Íslands, stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands, stjórn Háskólasjóðs (Rannsóknasjóðs) Eimskipafélags Íslands og fagráði X ­sviðs Háskóla Íslands.

Af erindi yðar má ráða að óánægja yðar lúti m.a. að því með hvaða hætti fagráð X-sviðs ákvarðaði vægi sjónarmiða við mat á verk­efnum. Í kvörtun yðar kemur einnig fram að þér teljið að umsögn fag­ráðsins, sem ákvörðun um að fallast ekki á umsókn yðar um styrk grund­vallaðist á, hafi verið byggð á röngu mati og röngum forsendum og ekki verið í samræmi við umsóknina. Af þessum sökum hafi málsmeðferð ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og grundvöllur ákvörðunarinnar ekki réttur. Þá hafi yður verið synjað um aðgang að upplýsingum um umsagnir umsagnaraðila, menntun þeirra og reynslu og beiðni yðar um aðgang að öllum fundargerðum og öðrum gögnum málsins sem stjórnin hefði undir höndum hafi ekki verið svarað efnislega, en þér hafið eingöngu fengið afhenta umsögn um verk­efnið, dags. 8. júní 2018. Það leiði m.a. til þess að þér getið ekki lagt mat á mögulegt vanhæfi eða almennt hæfi umsagnaraðilanna. Jafnframt teljið þér að rökstuðningur fyrir synjuninni hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 19. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II

1

Samkvæmt 1. málsl. 1. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, gilda lögin m.a. um Háskóla Íslands. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2008 er stjórn háskóla falin háskólaráði og rektor. Há­skólaráð markar heildar­stefnu í kennslu og rannsóknum og mótar skipu­lag háskóla. Háskóla­ráð fer með almennt eftirlit með starfsemi há­skólans í heild, einstakra skóla og há­skólastofnana og ber ábyrgð á því að háskóli starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Sam­kvæmt 2. mgr. sömu greinar fer há­skóla­ráð með úrskurðarvald í mál­efnum háskólans, einstakra skóla og stofnana sem honum tengjast og heyra undir háskólaráð eða skóla. Sam­kvæmt 3. mgr. sömu greinar ber há­skólaráð ábyrgð á framkvæmd sam­starfs­­samninga sem háskóli gerir við fyrir­tæki og aðrar stofnanir. Þá hefur háskólaráð yfirumsjón með fyrir­tækjum, sjóðum og almennum eignum háskóla.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, er háskóla heimilt að stofna og starfrækja sérstaka rannsóknar- og þróunar­sjóði. Skal um þá sett skipulagsskrá sem mennta- og menningar­mála­­ráðherra og háskólaráð staðfesta og skal háskólaráð hafa yfir­umsjón með slíkum sjóðum, sbr. 3. mgr. 5. gr.

Í 75. gr. reglna Há­skóla Íslands nr. 569/2009 er kveðið á um Rannsóknasjóð Háskóla Íslands. Þar segir að tilgangur sjóðsins sé að efla rannsóknir í há­skólanum. Háskólaráð ákveður árlega fjárveitingu til sjóðsins, sbr. 2. mgr. 75. gr. Samkvæmt 3. mgr. 75. gr. er stjórn Rann­sóknasjóðs skipuð formönnum fimm sjálfstæðra fagráða, einu fyrir hvert fræðasvið. Formaður er skipaður af háskólaráði samkvæmt til­nefningu rektors. Rektor skipar fjóra til fimm sérfræðinga til setu í fagráðunum. Fagráðin hafa það hlutverk að annast faglegt mat og for­gangs­röðun umsókna í Rannsóknasjóð Háskóla Íslands sem og Háskólasjóð Eimskipa­félagsins. Faglegt mat ráðsins byggist á viðmiðum sem vísinda­nefnd háskólaráðs setur. Það kemur síðan í hlut stjórnar sjóðsins að annast úthlutun úr sjóðnum á grundvelli tillagna fagráða, sbr. 4. mgr. 75. gr. reglnanna. Vísindanefnd háskólaráðs setur stjórn Rannsóknasjóðs og fagráðum viðmið um úthlutun, sbr. 5. mgr. 75. gr. Þá gefur stjórn sjóðsins háskólaráði og vísindanefnd háskólaráðs skýrslu um úthlutun í kjölfar hverrar úthlutunar úr sjóðnum, sbr. 8. mgr. 75. gr. reglnanna.  

2

Hvað varðar þann hluta kvörtunar yðar sem beinist að Há­skóla­sjóði Eimskipafélags Íslands þá var sjóðnum upphaflega komið á fót með skipulagsskrá sem staðfest var 5. nóvember 1964. Skipulagsskránni var síðast breytt 16. janúar 2014. Rektor Háskóla Íslands á sæti í stjórn sjóðsins auk þess sem forstjóri Eimskipafélags Íslands hf. og stjórnar­formaður og bankastjóri Landsbankans eiga þar sæti, sbr. 2. mgr. 5. gr. skipu­lags­skrárinnar. Í 2. mgr. 6. gr. skipulagsskrárinnar kemur fram að reikningar sjóðsins skuli árlega birtir ásamt reikningum Landsbankans og að háskólaráði skuli sent eintak af reikningunum.

Um sjóðinn gilda reglur um styrki úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands til stúdenta í doktorsnámi við Háskóla Íslands, samþykktar af háskólaráði 8. desember 2016. Með úthlutun úr sjóðnum fer stjórn Rann­sókna­sjóðs Háskóla Íslands í umboði stjórnar Háskólasjóðs Eimskipa­félags Íslands, sbr. 1. mgr. 2. mgr. reglnanna. Líkt og áður segir skipa formenn fimm sjálfstæðra fagráða hvers fræðasviðs stjórn Rannsóknasjóðs. Þá er það hlutverk fagráða að meta og forgangsraða umsóknum í Háskólasjóð Eim­skipa­félagsins. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. reglna um styrki starfar verk­efnastjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs háskólans með stjórn Rann­sókna­sjóðs HÍ og fagráðunum. Vísinda- og nýsköpunarsvið hefur m.a. umsjón með móttöku og meðferð umsókna í umboði stjórnar Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands. Þá kemur fram í 2. mgr. 1. gr. reglnanna að há­skóla­ráð skuli samþykkja breytingar á reglunum auk þess sem há­skóla­ráði ásamt stjórn sjóðsins skuli að lokinni úthlutun árlega gerð grein fyrir styrkveitingum undan­gengins árs og starfseminni framundan.

III

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórn­valds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Eins og rakið hefur verið hér að framan annast stjórn Rann­sókna­sjóðs Háskóla Íslands úthlutun úr sjóðnum sem og úthlutun úr Háskóla­sjóði Eimskipafélags Íslands á grundvelli tillagna frá fagráðum hvers fræðasviðs. Ljóst er að háskólaráð fer með almennt eftirlit með starf­semi háskólans í heild ásamt því að hafa yfirumsjón með sjóðum skólans. Með hliðsjón af framangreindu tel ég rétt, ef þér teljið tilefni til, að þér freistið þess að óska eftir afstöðu háskólaráðs til málsmeðferðar við afgreiðslu á styrkumsókn yðar áður en mér er unnt að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar, sbr. þau sjónarmið sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég hef þó ekki tekið afstöðu til þess hvaða afgreiðslu erindi yðar ætti að hljóta hjá ráðinu.

Hvað varðar synjun stjórnar Rannsóknasjóðs á að veita yður aðgang að upplýsingum um úthlutunarferlið þá getið þér einnig freistað þess að beina beiðni yðar til háskólaráðs, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  

IV

Í ljósi framangreinds eru ekki uppfyllt skilyrði að lögum til þess að ég geti fjallað frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Farið þér þá leið að leita til háskólaráðs með erindi yðar er yður frjálst að leita til mín á nýjan leik teljið þér yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess.