Opinberir starfsmenn. Áminning. Hæfi. Setning staðgengils.

(Mál nr. 10023/2019)

Starfsmaður Háskólans á Akureyri leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir áminningu sem  háskólinn veitti honum fyrir að fara ekki að fyrirmælum rektors háskólans um að gæta orða sinna í samskiptum við samstarfsfólk og yfirmenn. Rektor hafði lýst yfir vanhæfi í málinu með vísan til þess að hægt væri að líta svo á að hann væri aðili þess að hluta til og í framhaldinu falið föstum staðgengli sínum, forseta viðskipta- og raunvísindasviðs, að taka við málinu og leysa úr því. Að fengnum skýringum Háskólans á Akureyri ákvað umboðsmaður að afmarka málið við þá ákvörðun rektors að fela deildarforseta við háskólann, sem staðgengli rektors, meðferð þess.

Umboðsmaður rakti ákvæði stjórnsýslulaga um málsmeðferð þegar vafi leikur á hæfi starfsmanns til meðferðar þess. Af þeim leiðir að yfirmaður stofnunar ákveður hvort starfsmanni beri að víkja sæti en komi upp vafi um hæfi yfirmanns tekur hann sjálfur ákvörðun um hvort hann víki sæti. Sá sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess. Honum er þó heimilt að gera þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að halda máli í réttu horfi á meðan staðgengill er ekki til staðar. Þegar starfsmaður víkur sæti og ekki er til staðar annar hæfur starfsmaður skal sá er veitir stöðuna setja staðgengil til þess að fara með málið sem til úrlausnar er.

Taldi umboðsmaður leiða af framangreindu að eftir að rektor hafði tekið ákvörðun um eigið vanhæfi í áminningarmálinu hefði honum ekki verið heimilt taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess umfram nauðsynlegar ráðstafanir til að halda málinu í réttu horfi á meðan staðgengill var ekki til staðar. Skilyrði reglunnar um að ekki væri til staðar „annar hæfur starfsmaður“ bæri að túlka svo að þar væri vísað til hliðsettra samstarfsmanna hins vanhæfa starfsmanns sem vinna að hliðstæðum verkefnum hjá sömu stofnun. Af því leiddi að þegar æðsti yfirmaður stofnunar yrði vanhæfur til meðferðar tiltekins máls væri almennt ekki til að dreifa slíkum hliðsettum samstarfsmanni sem gæti farið með málið í stað yfirmannsins. Þá taldi umboðsmaður að rektor hefði ekki verið heimilt að fela öðrum starfsmanni skólans og þá undirmanni sínum að fara með ákvörðunarvald í málinu í hans stað nema þá ef það leiddi beinlínis af lögum og reglum um starfsemi Háskólans á Akureyri. Af þeim, eða stöðu staðgengils, væri ekki ótvírætt að rektor gæti falið honum að fara með einstök mál sem hann viki sæti í vegna vanhæfis. Því yrði að líta svo að rektor hefði borið að gera mennta- og menningarmálaráðherra grein fyrir því að hann hefði ákveðið að víkja sæti í máli starfsmannsins og það kæmi því í hlut ráðherra að setja staðgengil til þess að fara með málið.

Var það niðurstaða umboðsmanns að vegna þessa annmarka hefði skort á lögmætan grundvöll valdheimilda staðgengils rektors til að fara með málið og taka ákvörðun í því. Ekki yrði annað séð en að umræddur annmarki á málsmeðferðinni hefði óhjákvæmilega áhrif á gildi ákvörðunar staðgengilsins í málinu. Hér ætti því við það sama og þegar vanhæfur starfsmaður hefði haft mikil áhrif á undirbúning og meðferð máls eða starfsmaður hefur ekki verið að lögum bær til að fara með málið að óhjákvæmilegt kynni að reynast að ómerkja málsmeðferðina og byrja málið upp á nýtt. Voru það tilmæli umboðsmanns til Háskólans á Akureyri að taka mál starfsmannsins til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og leysa þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í áliti þessu og taka jafnframt framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.