Almannatryggingar. Ellilífeyrir.

(Mál nr. 9950/2018)

A kvartaði vegna svara Tryggingastofnunar um réttindi hans til ellilífeyrisgreiðslna.

Af kvörtuninni mátti ráða að hún beindist að svari við fyrirspurn en ekki lægi fyrir formleg ákvörðun frá Tryggingastofnun um ellilífeyrisréttindi A. Ekki var því uppfyllt skilyrði um að kvörtun varði tiltekna, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. janúar 2019, sem hljóðar svo: 

 

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 9. janúar sl., sem beinist að Tryggingastofnun vegna svara stofnunarinnar um réttindi yðar til ellilífeyrisgreiðslna. Í kvörtuninni kemur fram að þér hafið í hyggju að sækja um ellilífeyri og að þér teljið yður eiga rétt á 30% varanlegri hækkun á lífeyri þar sem þér hafið frestað töku hans, en þér verðið 66 ára gamall á þessu ári. Í því sambandi takið þér fram að þér hafið starfað sem sjómaður og yður hafi því verið heimilt að hefja töku ellilífeyris við 60 ára aldur. Í kvörtuninni kemur fram að stéttarfélag yðar hafi verið í samskiptum við Tryggingastofnun fyrir yðar hönd, m.a. með því að senda fyrirspurnir á stofnunina, en að í svörum stofnunarinnar hafi komið fram sú afstaða að þér eigið ekki rétt á hækkuninni.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er tekið fram að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Af kvörtun yðar má ráða að hún beinist að svari við fyrirspurn en ekki liggi fyrir formleg ákvörðun frá Tryggingastofnun um ellilífeyrisréttindi yðar. Því er ljóst að ofangreint skilyrði laganna er ekki uppfyllt.

Þá er rétt að vekja athygli yðar á því að í 6. gr. laga nr. 85/1997 er kveðið á um frekari skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli á grundvelli kvörtunar fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra sett stjórnvald, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Í ljósi framangreinds eru ekki skilyrði til að ég fjalli frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Ég bendi yður hins vegar á að ef til þess kemur að þér sækið um ellilífeyri og fáið tilkynningu um ákvörðun Tryggingastofnunar er heimilt að kæra hana til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Ef þér teljið yður beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar getið þér leitað til mín með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.