Fjármála og tryggingastarfsemi. Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 9951/2018)

A kvartaði yfir að þrátt fyrir að eiga fasteign og innbú með bróður sínum greiddu bæði iðgjöld vegna heimilistrygginga hjá tryggingafélaginu sínu þar sem þau teldust ekki vera fjölskylda samkvæmt skilgreiningum félagsins.

Tryggingafélagið er einkaréttarlegur aðili og kvörtunin beindist þannig að starfsemi einkaaðila sem felur ekki í sér beitingu opinbers valds sem honum hefur verið falið með lögum. Það féll því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. janúar 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til erindis yðar til mín, dags. 10. janúar sl., þar sem þér kvartið yfir því að þrátt fyrir að eiga saman fasteign og innbú greiðið þér og bróður yðar bæði iðgjöld vegna heimilistrygginga hjá tryggingafélagi yðar, X, þar sem þér teljist ekki vera fjölskylda samkvæmt skilgreiningum félagsins.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er sú að X er hlutafélag sem starfar á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og telst því einkaréttarlegur aðili. Vert er að taka fram að það sama gildir einnig um önnur tryggingafélög. Kvörtun yðar beinist þannig að starf­semi einkaaðila sem felur ekki í sér beitingu opinbers valds sem honum hefur verið fengið með lögum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki skilyrði til að ég taki kvörtun yðar til frekari meðferðar. Lýk ég því athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um um­boðsmann Alþingis.