Lögreglu og sakamál. Meðferð ákæruvalds. Tafir. Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 9954/2018)

A kvartaði yfir málsmeðferð embættis héraðssaksóknara og taldi að ekki hefði verið fylgt reglum um málshraða, meðalhóf o.fl.

Í bréfi umboðsmanns til A var m.a. vakin athygli á skilyrðum þess að umboðsmaður taki kvörtun til meðferðar og benti honum á að freista þess að leita til ríkissaksóknara á grundvelli lögbundins eftirlits hans með handhöfum ákæruvalds áður en hann leitaði til umboðsmanns með kvörtun.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. janúar 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 14. janúar sl., f.h. A yfir málsmeðferð embættis héraðssaksóknara í máli þar sem hann hefur réttarstöðu sakbornings. Í kvörtuninni kemur fram að hann telji að embættið hafi ekki fylgt reglum um málshraða, meðal­hóf o.fl.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skil­yrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki af­skipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórn­völd skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt.

Þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála og fyrir liggur að mál hefur verið til meðferðar í nokkurn tíma og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt hefur almennt, þrátt fyrir áðurnefnda reglu, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá stjórnvaldinu hvað líði afgreiðslu viðkomandi máls. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úrlausn sinna mála enda hefur reyndin í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfunum og hvenær ráðgert er að afgreiða málið. Í þessum tilvikum lýkur umboðsmaður þá athugun sinni á málinu. Þegar niðurstaða liggur ekki fyrir hef ég hins vegar gætt varfærni við að taka afstöðu til þess að hvort tafir sem orðnar eru á tilteknum stjórnsýslumálum sem enn eru til meðferðar í stjórnsýslunni séu óeðlilegar eða óréttlættar í skilningi málshraða­reglunnar, þ.e. að afgreiðsla málsins hafi dregist „óhæfilega“ að teknu tilliti til sjónar­miða um atriði eins og umfang og eðli máls og almennt álag í starf­semi viðkomandi stjórnvalds.

Auk framangreinds ber jafnframt að líta til þess að eftir breytingar sem komu til framkvæmda við gildistöku laga nr. 47/2015, um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum, er stjórnsýsla ákæruvalds á tveimur stigum. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, hefur ríkissaksóknari eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá öðrum ákærendum og samkvæmt 3. mgr. 21. gr. getur hann gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um einstök mál sem þeim er skylt að hlíta. Hann getur kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um fram­kvæmd hennar og fylgst með henni. Af því leiðir að málsaðili sem telur á sig hallað við rannsókn lögreglu eða málsmeðferð eftir að mál er komið til meðferðar hjá ákæranda getur beint erindi til ríkis­sak­sóknara um það atriði. Fyrirmæli ríkissaksóknara eru bindandi fyrir lægra setta stjórnvaldið en það er komið undir ákvörðun stjórnvaldsins hvort það verður við tilmælum umboðsmanns, þótt það sé almennt raunin.

Með hliðsjón af framangreindu og að virtum þeim sjónarmiðum sem  búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar. Ef þér freistið þess að leita til ríkissaksóknara á grundvelli lögbundins eftirlits hans með hand­höfum ákæruvalds og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu hans getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég máli þessu lokið.