Fjármála og tryggingastarfsemi. Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 9955/2018)

A kvartaði yfir að fjármálafyrirtæki hefði endurreiknað lán hans þrátt fyrir að eiga ekki frumrit lánssamningsins og óskaði eftir áliti umboðsmanns á hvort slíkt samrýmdist lögum.

Starfssvið umboðsmanns nær einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu stjórnsýslulaga. Það féll því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. janúar 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar frá 14. janúar sl. þar sem þér kvartið yfir því að X hafi endurreiknað lán yðar þrátt fyrir að eiga ekki til frumrit lánssamningsins. Þér óskið eftir áliti umboðsmanns Alþingis á hvort slíkt samrýmist lögum.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftir­­lit með stjórn­sýslu ríkis og sveitar­félaga og tryggja rétt borgaranna gagn­vart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er sú að X er hlutafélag og fjármálafyrirtæki sem starfar á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og telst því einkaréttarlegur aðili. Þar breytir engu þótt hann sé að stærstum hluta í eigu ríkissjóðs. Kvörtun yðar beinist þannig að starfsemi einkaaðila sem felur ekki í sér beitingu opinbers valds sem honum hefur verið fengið með lögum.

Yður til upplýsingar bendi ég á að í 2. mgr. 19. gr. a laga nr. 161/2002 kemur m.a. fram að fjármálafyrirtækjum er skylt að eiga aðild að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Úrskurðarnefndin starfar samkvæmt samningi milli ráðherra, Neytendasamtakanna og Samtaka fjármálafyrirtækja, svo og samkvæmt samþykktum er hún setur sér. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samþykkta nefndarinnar geta viðskiptamenn fjármálafyrirtækja sem aðild eiga að nefndinni, sbr. þó b-lið 2. mgr., snúið sér til nefndarinnar með kvartanir vegna viðskipta við þau. Í samræmi við 8. gr. samþykktanna er úrskurðarnefndin vistuð hjá Fjármála­eftirlitinu og skal kvörtun til nefndarinnar afhent Fjármálaeftirlitinu skriflega. Teljið þér ágreining yðar heyra undir úrskurðarvald nefndarinnar, sbr. það sem greinir að framan og 5. og 6. gr. samþykkta hennar, getið þér freistað þess að bera erindi yðar undir hana. Ég tek þó fram að ég hef enga afstöðu tekið til þess hvort svo sé eða hvort tilefni sé til að leita til nefndarinnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki skilyrði til að ég taki kvörtun yðar til frekari meðferðar. Lýk ég því athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um um­boðsmann Alþingis.