Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Lögreglu og sakamál.

(Mál nr. 9958/2018)

Kvartað var yfir að ríkissaksóknari hefði ítrekað synjað um aðgang að gögnum í sakamáli. Jafnframt var kvartað yfir efnislegri afgreiðslu ráðuneytis á erindi og drætti á afgreiðslu þess.

Af kvörtuninni og öðrum gögnum málsins varð ekki annað ráðið en að málið væri enn til meðferðar hjá ríkissaksóknara og endanleg niðurstaða hans ekki ljós. Þá hefði ráðuneytið svarað erindinu þótt það hefði tekið nokkuð langan tíma.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. janúar 2019, sem hljóðar svo:

   

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín frá 15. janúar sl. sem beinist að ríkissaksóknara og dómsmálaráðuneytinu vegna beiðna yðar um aðgang að gögnum í sakamáli [...]. Í erindi yðar kemur fram að ríkis­saksóknari hafi ítrekað synjað yður um aðgang að gögnum í málinu, síðast með bréfi, dags. 6. júlí 2018. Jafnframt er kvartað yfir svörum ráðu­neytisins frá 14. janúar sl. við erindi yðar frá 29. júlí 2018. Þér gerið bæði athugasemdir við efnislega afgreiðslu ráðuneytisins á erindinu og drátt á afgreiðslu þess. 

II

Fyrir liggur að þér senduð ríkissaksóknara erindi, dags. 22. júní 2018, og að ríkissaksóknari sendi yður bréf, dags. 6. júlí, með tilteknum upplýsingum og ósk um að beiðni yðar um aðgang yrði rökstudd og upplýst um hvort óskað væri eftir aðgangi að tilteknum gögnum eða öllum. Þér senduð erindi til dómsmálaráðuneytisins, dags. 29. júlí 2018, þar sem þér tókuð fram að þér kærðuð niðurstöðu ríkissaksóknara frá 6. júlí 2018. Ráðuneytið svaraði yður með bréfi, dags. 14. janúar sl., þar sem m.a. kemur fram að ekki verði séð að beiðni yðar um afhendingu á gögnum hafi verið synjað af hálfu ríkissaksóknara heldur hafi einungis verið óskað eftir frekari rökstuðningi fyrir beiðninni. Ekki sé um endanlega ákvörðun ríkissaksóknara að ræða í máli yðar.

Af kvörtun yðar og gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að málið sé enn til meðferðar hjá ríkissaksóknara. Til að umboðsmaður Alþingis geti tekið mál til athugunar verður að liggja fyrir endanleg niðurstaða stjórnvalda í málinu. Þar sem ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða í málinu af hálfu ríkissaksóknara eru ekki skilyrði til að ég taki mál yðar hjá ríkissaksóknara til athugunar að svo stöddu.

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og þau gögn sem fylgdu henni tel ég ekki tilefni til að fjalla nánar um svör ráðuneytisins til yðar.  Að því er varðar þann þátt kvörtunar yðar er varðar þann tíma sem það tók að afgreiða erindið hjá ráðuneytinu, þ.e. fimm og hálfan mánuð, tek ég fram að ljóst er að nokkuð langur tími leið frá því að þér senduð ráðuneytinu erindi yðar þar til því var svarað. Ráðuneytið hefur beðist velvirðingar á þeim drætti. Ég tel ekki tilefni til að taka þetta atriði eitt og sér til nánari athugunar að svo stöddu en hef þó sent dómsmála­ráðuneytinu afrit af þessu bréfi til upplýsingar þar sem ég tel, að virtu efni erindisins, að það hefði verið í betra samræmi við almenna málshraðareglu íslensks stjórnsýsluréttar að bregðast við fyrr.

Ég tek fram að þegar þér hafið fengið endanlega niðurstöðu ríkissaksóknara til beiðni yðar um aðgang að gögnum er yður frjálst að leita til mín að nýju.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég þar með athugun minni á málinu.