Atvinnuréttindi. Réttur til að nota starfsheitið tæknifræðingur. Álitsumleitan. Jafnræðisreglur. Afturvirkni stjórnvaldsfyrirmæla.

(Mál nr. 612/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 9. febrúar 1993.
Tæknifræðingafélag Íslands kvartaði yfir þeirri ákvörðun iðnaðarráðuneytisins að veita A leyfi til að kalla sig tæknifræðing andstætt umsögn félagsins. Taldi félagið, að ráðuneytið hefði með leyfisveitingunni brotið gegn 6. gr. laga nr. 62/1986 og ekki haldið loforð um að virða það sjónarmið félagsins, að skóli sá, þar sem A nam, teldist ekki fullgildur samkvæmt lagagrein þessari.
Umboðsmaður tók fram, að með 1. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1986 væri Tæknifræðingafélagi Íslands fenginn lögbundinn umsagnarréttur og svigrúm við mat á því, hvað telja skyldi "fullgildan skóla". Almennar reglur stjórnsýsluréttar, þ. á m. reglur um þau sjónarmið, sem byggja mætti á, svo sem jafnræðisreglur, settu þó mati þessu skorður, auk þess sem leyfisveitandinn, iðnaðarráðherra, gæti m.a. um það fjallað, hvort umsögn félagsins væri í samræmi við lög og almennar reglur stjórnsýsluréttar og veitt leyfi á þeim grundvelli.
Iðnaðarráðuneytið og Tæknifræðingafélag Íslands höfðu leitast við að setja almennar reglur um það, hvernig meta skyldi nám umsækjenda um leyfi til að kalla sig tæknifræðinga og var auglýsing um reglur þessar birt í Lögbirtingablaði 30. desember 1988. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í reglum þessum skyldi meta umsóknir þeirra, sem byrjað höfðu samfellt nám í tæknifræði fyrir 1. janúar 1987 eftir reglum, sem áður hafði verið farið eftir. Taldi ráðuneytið, að umsókn A hefði átt að afgreiða eftir bráðabirgðaákvæði þessu, og fram kom af hálfu ráðuneytisins, að A hefði verið veitt leyfið, þar sem umsækjendum með menntun frá sama skóla hefði áður verið veitt leyfi til að kalla sig tæknifræðinga.
Umboðsmaður taldi, að fyrrgreindu bráðabirgðaákvæði hefði verið ætlað að koma í veg fyrir, að hertar kröfur fyrir viðurkenningu tækniskóla kæmu óvænt og hart niður á þeim mönnum, sem stundað hefðu nám við skóla, sem þessar hertu kröfur útilokuðu. Væri auglýsingin í samræmi við viðurkennd grundvallarsjónarmið stjórnsýsluréttar um afturvirkni laga og stjórnarathafna. Enn brýnna hefði tilefni bráðabirgðaákvæðisins verið fyrir þá sök, að ekki yrði ráðið, að hinar hertu kröfur hefðu verið kynntar á fullnægjandi hátt. Taldi umboðsmaður ekki lagarök til að gagnrýna iðnaðarráðuneytið fyrir að veita á grundvelli auglýsingarinnar ýmsum mönnum leyfi til að kalla sig tæknifræðinga, sem byrjað höfðu nám fyrir 1. janúar 1987 við þann skóla, sem A nam við. Þá yrði ráðuneytið vegna jafnræðissjónarmiða heldur ekki gagnrýnt fyrir að veita A slíkt leyfi.

I. Kvörtun.

Hinn 2. júlí 1992 leitaði Tæknifræðingafélag Íslands til mín og kvartaði yfir þeirri ákvörðun iðnaðarráðuneytisins frá 25. nóvember 1991, að veita A, leyfi til að kalla sig tæknifræðing. Segir í bréfi félagsins, að um sé að ræða gamalt ágreiningsmál. Hafi iðnaðarráðuneytið, veitt mönnum leyfi til þess að kalla sig tæknifræðinga (ingeniør), enda þótt þeir hefðu stundað nám við skóla, sem hefði ekki notið viðurkenningar félagsins sem fullgildur. Hafi ráðuneytið þar með farið gegn fyrirmælum 6. gr. laga nr. 62/1986 um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga. Einnig er tekið fram í bréfi félagsins, að í framhaldi af dómi Hæstaréttar frá 7. júní 1988 hafi Tæknifræðingafélag Íslands og iðnaðarráðuneytið reynt að ná samstöðu um afgreiðslu á erindum manna, sem óskuðu eftir því að mega kalla sig tæknifræðinga. Af því tilefni hafi verið birt auglýsing í Lögbirtingablaðinu 30. desember 1988 "um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig tæknifræðing".

Í framangreindu bréfi Tæknifræðingafélags Íslands frá 2. júlí 1992 segir síðan:

"Í þessari auglýsingu er hnykkt á ákvæðum laga um rétt Tæknifræðingafélags Íslands til þess að segja af eða á um hvort tilteknir skólar fullnægi skilyrðum þeim sem lögin setja.

...

25. nóvember 1991 barst Tæknifræðingafélagi Íslands síðan bréf iðnaðarráðuneytisins, þar sem fram kemur að ráðuneytið hafi þrátt fyrir framangreint veitt umræddum [A] leyfi til þess að kalla sig tæknifræðing. Rétt er að geta þess hér að fyrr á árinu 1991 höfðu iðnaðarráðuneytið og Tæknifræðingafélagið átt samstarf um mat á bandarískum skólum þar sem slíkt mat er vandasamt og erfitt úrlausnar hér á landi. Í bréfi iðnaðarráðuneytisins dagsettu 6. maí 1991 um það efni og önnur málefni ráðuneytisins og félagsins segir meðal annars: "Ráðuneytið féllst á röksemdir Tæknifræðingafélagsins varðandi sænska skóla þ.e. að þeir uppfylli ekki þær tilskildar kröfur félagsins sem fullgildir, sbr. 6. gr. l. nr. 62/1986."

Að dómi Tæknifræðingafélags Íslands hefur iðnaðarráðuneytið með leyfisveitingu sinni til [A] ekki einungis brotið skýr ákvæði laga nr. 62/1986 heldur einnig svikið eigið loforð um að fallast á þau sjónarmið Tæknifræðingafélagsins að sænskir skólar uppfylli ekki kröfur um tekniskan æðri skóla sem Tæknifræðingafélag Íslands viðurkennir sem fullgildan í viðkomandi grein.

Þess ber einnig hér að geta að ýmis ummæli iðnaðarráðuneytisins til að mynda í bréfi frá 25. nóvember 1991 um að sænskir skólar njóti viðurkenningar Evrópusambands verkfræðinga og tæknifræðinga FEANI eru beinlínis rangar og því til sönnunar eru lögð fram gögn um viðurkennda skóla FEANI í Svíþjóð,..."

II. Málavextir.

Auglýsing sú, sem vísað er til hér að framan, birtist í Lögbirtingablaðinu 30. desember 1988 og er undirrituð af iðnaðarráðuneytinu og Tæknifræðingafélagi Íslands 19. desember 1988. Í auglýsingunni kemur fram:

"Iðnaðarráðuneytið og Tæknifræðingafélag Íslands (T.F.Í.) hafa komið sér saman um að miða við eftirfarandi reglur við mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig tæknifræðing:

1. Umsækjandi er hlotið hefur grunnmenntun í tæknifræði og eina eða fleiri prófgráðu því til staðfestingar skal öðlast leyfi til að kalla sig tæknifræðing ef öllum eftirfarandi atriðum er fullnægt:

...

Reglur þessar taka gildi 1. janúar 1989 og skulu auglýstar í Lögbirtingablaði, dagblöðum og sérstaklega kynntar nemendum í tæknifræði.

Reglur þessar gilda þar til annað verður ákveðið og auglýst með sama hætti.

Ákvæði til bráðabirgða.

Umsóknir manna sem hafa byrjað samfellt nám í tæknifræði fyrir 1. janúar 1987 og ekki geta aðlagað nám sitt ofangreindum reglum skulu metnar eftir þeim reglum sem notaðar hafa verið að undanförnu."

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 16. júní 1992 óskaði ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að iðnaðarráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar Tæknifræðingafélags Íslands og léti mér í té gögn málsins. Sérstaklega óskaði ég eftir því að fram kæmi með hliðsjón af fyrirmælum 5. og 6. gr. laga nr. 62/1986, á hvaða forsendum og sjónarmiðum ákvörðun ráðuneytisins frá 25. nóvember 1991 hefði verið byggð. Í svarbréfi iðnaðarráðuneytisins frá 1. júlí 1992 segir meðal annars:

"Eins og fram hefur komið hafa á undanförnum árum risið deilur milli ráðuneytisins og Tæknifræðingafélags Íslands um mat á tæknifræðinámi við hina ýmsu skóla. Að lokum varð að samkomulagi að birta sameiginlega auglýsingu í Lögbirtingablaðinu þar sem settar voru ákveðnar verklagsreglur við mat á námi. Auglýsingin birtist þann 30. desember 1988 og tók gildi þann 1. janúar 1989.

Atvik máls þessa eru á þá leið að þann 26. ágúst 1991 lagði [A] fram í iðnaðarráðuneytinu umsókn um leyfi til að nota starfsheitið tæknifræðingur hér á landi. [A] hafði áður lagt inn umsókn þessa efnis og í kjölfar neikvæðrar umsagnar Tæknifræðingafélagsins var honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ráðuneytið. Með ítrekaðri umsókn hans frá 26. ágúst 1991 komu fram andmæli gegn synjun Tæknifræðingafélagsins sem byggðist á því að aðilar með nákvæmlega sömu menntun og hann sjálfur hefðu fengið leyfi til að kalla sig tæknifræðing enda hafi skólinn verið viðurkenndur af félaginu þar til fyrir nokkrum árum.

Óskað var eftir umsögn Tæknifræðingafélags Íslands og þann 24. október 1991 barst ráðuneytinu bréf Tæknifræðingafélagsins þar sem fram kemur að [...], deildarstjóri byggingadeildar Tækniskóla Íslands, hafi metið nám [A] og komist að þeirri niðurstöðu að mikið vantaði á að nám hans stæðist kröfur þær er settar voru með sameiginlegri auglýsingu ráðuneytisins og Tæknifræðingafélags Íslands er birt var í Lögbirtingablaði 30. desember 1988 og tók gildi þann 1. janúar 1989. Tæknifræðingafélagið samþykkti því ekki að [A] yrði veitt leyfi til að kalla sig tæknifræðing.

Í 6. gr. laga nr. 62 frá 5. september 1986 um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, landslagshönnuði, húsgagna- og innanhúshönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga segir að engum megi veita leyfi nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í tæknifræði frá tekniskum æðri skóla sem Tæknifræðingafélag Íslands viðurkennir sem fullgildan skóla í þeirri grein.

Frá því að lög nr. 73/1968 tóku gildi, en þau lög eru undanfari núgildandi laga um starfsheiti nr. 62/1986 hefur ráðuneytið gefið út leyfi til rúmlega tuttugu aðila sem stundað hafa nám við [X]. Í yfirgnæfandi fjölda tilvika lágu fyrir meðmæli Tæknifræðingafélagsins.

Með ofangreindri auglýsingu iðnaðarráðuneytisins og Tæknifræðingafélagsins sem birtist í Lögbirtingablaðinu 30. desember 1988 er svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða: "Umsóknir manna sem byrjað hafa samfellt nám í tæknifræði fyrir 1. janúar 1987 og ekki geta aðlagað nám sitt ofangreindum reglum skulu metnar eftir þeim reglum sem notaðar hafa verið að undanförnu". Reglur þessar voru afrakstur samvinnu Tæknifræðingafélagsins og iðnaðarráðuneytisins og settar til viðmiðunar við mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig tæknifræðing. Líta verður svo á að með birtingu þeirra sé einnig verið að kynna aðilum er hlut eiga að máli þær kröfur er gerðar eru til tæknimenntunar á þessu sviði. Gera má ráð fyrir að með vísan til þessara reglna hafi [A] mátt vænta þess að nám hans í [X] yrði metið til fullra réttinda.

Ljóst er að [A] hóf samfellt nám í tæknifræði fyrir ofangreind tímamörk. Fyrir liggur að aðilum með nákvæmlega sömu menntun og [A] hafi verið veitt leyfi til að kalla sig tæknifræðing. Í bréfi Tæknifræðingafélags Íslands til ráðuneytisins, dagsett 22. janúar 1992 kom það fram að hugsanlega hafi félagið mælt með þessum mönnum vegna mistaka. Meðfylgjandi eru gögn úr málasafni ráðuneytisins er varða leyfisveitingar til þeirra aðila er hafa sömu menntun og [A].

Samkvæmt ofangreindu telur ráðuneytið að líta verði svo á að nám [A] falli undir bráðabirgðaákvæðið í auglýsingunni frá 30. desember 1988 og því hafi á grundvelli jafnræðisreglu ekki verið unnt að synja um veitingu umbeðins leyfis. Varðandi ummæli í bréfi ráðuneytisins til Tæknifræðingafélagsins, dagsett 6. maí 1991, þar sem fram kemur að ráðuneytið fallist á röksemdir varðandi það að sænskir skólar uppfylli ekki tilskildar kröfur ber að árétta að með því er verið að vísa til aðila er nú eru í námi, en hvað varðar þá aðila sem þegar hafa lokið prófi frá sænskum skólum varð að miða við þær reglur sem koma fram í áðurnefndri auglýsingu."

Með bréfi, dags. 6. júlí 1992, gaf ég Tæknifræðingafélagi Íslands kost á að senda mér þær athugasemdir, sem félagið teldi rétt að gera í tilefni af skýringum iðnaðarráðuneytisins. Í athugasemdum Tæknifræðingafélags Íslands, er bárust mér með bréfi félagsins 4. ágúst 1992, kom fram:

"Af því tilefni óskar T.F.Í. að taka fram eftirfarandi:

1. Í upphaflegu bréfi T.F.Í. til umboðsmanns Alþingis sem dagsett er 2. júlí sl. var í niðurlagi minnst á að þau ummæli iðnaðarráðuneytisins að sænskir skólar (sem ráðuneytið nefnir tækniskóla) væru viðurkenndir af FEANI, Evrópusamtökum verk- og tæknifræðinga. Var í bréfinu vitnað til fylgiskjals sem láðist að leggja með bréfinu. Með þessu bréfi fylgja ljósrit úr tveim síðustu útgáfum FEANI á þeim skólum sem samtökin fullgilda í Svíþjóð, annað frá 1989 og hitt frá 1992. Ljóst er að einungis "civilingeniør"-skólar eru viðurkenndir í Svíþjóð, enda halda Svíar ekki öðru fram.

2. Í bréfi ráðuneytisins segir að ráðuneytið hafi gefið út leyfi til rúmlega tuttugu aðila sem stundað hafi nám við [X] og að í yfirgnæfandi tilvika hafi legið fyrir meðmæli T.F.Í. Hér mun vera átt við leyfisveitingar sem langflestar áttu sér stað fyrir meira en tuttugu árum. Á þeim tíma hafa kröfur um lágmarksmenntun til að öðlast tæknifræðingsheiti breyst bæði hérlendis og erlendis.

Sú lagatúlkun iðnaðarráðuneytisins að þótt mælt hafi verið með leyfisveitingu fyrir meira en tuttugu árum, þá geti ráðuneytið um aldur og ævi veitt mönnum frá sama skóla gegn andmælum T.F.Í. rétt til að kalla sig tæknifræðing, fær ekki staðist. Með slíkri túlkun væri núgildandi ákvæði 6. gr. l. nr. 62/1986 að engu gert og T.F.Í. væri í raun svipt því valdi sem lögin veita félaginu.

3. Hafnað er lögskýringu iðnaðarráðuneytisins að því er tekur til bráðabirgðaákvæðis auglýsingar iðnaðarráðuneytisins og T.F.Í. Ef skilningur ráðuneytisins væri réttur, viki bráðabirgðaákvæðið ekki einungis sjálfri auglýsingunni heldur einnig lögunum sjálfum til hliðar hvenær sem ráðuneytið þóknaðist að veita manni leyfi til þess að kalla sig tæknifræðing. Bráðabirgðaákvæðinu var einungis ætlað að aðlaga örfáa aðila að hinum hertari reglum, en ekki að vera óþrjótandi tilefni til geðþóttaleyfisveitinga iðnaðarráðuneytisins."

IV.

Hinn 22. september 1992 ritaði ég iðnaðarráðuneytinu bréf. Í bréfi mínu benti ég á, að samkvæmt bréfi ráðuneytisins frá 1. júlí 1992 hefði ráðuneytið gefið út leyfi til rúmlega tuttugu manna, sem hefðu stundað nám við X frá setningu laga nr. 73/1968, sbr. nú lög nr. 62/1986, og í yfirgnæfandi tilvika hefðu legið fyrir meðmæli Tæknifræðingafélags Íslands. Óskaði ég síðan eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987, að iðnaðarráðuneytið léti mér í té upplýsingar, svo sem greinir í eftirfarandi kafla bréfsins:

"1) Hvenær Tæknifræðingafélag Íslands hafi síðast viðurkennt nám frá umræddum skóla.

2) Í hvaða tilvikum og á hvaða grundvelli ráðuneytið hafi veitt mönnum, er lokið höfðu námi frá umræddum skóla, leyfi til þess að kalla sig tæknifræðinga, þegar ekki hafa legið fyrir meðmæli Tæknifræðingafélags Íslands.

3) Í auglýsingu um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig tæknifræðing, sem birtist í Lögbirtingablaðinu 30. desember 1988, er til þess vísað í ákvæði til bráðabirgða, að meta skuli umsóknir manna, sem hafi byrjað samfellt nám í tæknifræði fyrir 1. janúar 1987 "...eftir þeim reglum, sem notaðar hafa verið að undanförnu." Af þessu tilefni óska ég upplýsinga um, hvaða reglur sé hér átt við.

Með bréfi þessu fylgir í ljósriti bréf Tæknifræðingafélags Íslands frá 4. ágúst s.l., þar sem fram koma athugasemdir félagsins í tilefni af áðurgreindu bréfi iðnaðarráðuneytisins frá 1. júlí s.l. Ég tel rétt, að ráðuneytið sendi mér þær athugasemdir, sem það telur rétt að gera í tilefni af bréfi tæknifræðingafélagsins."

Með bréfi iðnaðarráðuneytisins frá 5. október 1992 bárust mér umbeðnar upplýsingar. Er bréf iðnaðarráðuneytisins svohljóðandi:

"Ráðuneytinu hefur borist erindi yðar þar sem óskað er viðbótar upplýsinga vegna kvörtunar Tæknifræðingafélags Íslands á ákvörðun ráðuneytisins um að veita [A], leyfi til að kalla sig tæknifræðing.

Áður en spurningum umboðsmanns er svarað vill ráðuneytið í upplýsingaskyni rekja í stuttu máli forsögu leyfisveitingar til [A]. Starfsheitið "tæknifræðingur" var lögfest með l. nr. 44, 3. apríl 1963. Frumvarp til þeirra laga var samið að beiðni Tæknifræðingafélags Íslands. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ætlunin er að starfsheitið "tæknifræðingur" sé veitt þeim sem lokið hafa námi frá tækniskólum og megi bera heitið "ingenör" erlendis (Alþt. 1962. A. (83. löggjafarþing), þingskj. 135, bls. 451). Tekið er fram í athugasemdunum að tæknifræðinám sé einskonar millistig á milli menntunar verkfræðinga og faglærðra iðnaðarmanna.

Fyrstu árin eftir setningu laganna ríkti samkomulag á milli ráðuneytisins og Tæknifræðingafélagsins um veitingu starfsheitisins "tæknifræðingur" en á sjöunda áratugnum hætti Tæknifræðingafélagið einhliða að viðurkenna ýmsa tækniskóla í Noregi og svo í Svíþjóð. Þessi stefnubreyting virtist eiga rót sína að rekja til ákvörðunar félagsins um að stefna ætti að því að tæknifræðinám yrði að mestu samhliða verkfræðinámi en ekki því að þeir skólar sem þeir höfðu áður viðurkennt hefðu slakað eitthvað á menntunarkröfum sínum [...] Ráðuneytið taldi að með tilliti til jafnræðisreglu og þess að menn höfðu í góðri trú hafið nám í viðkomandi skólum yrði að veita þeim starfsheiti á sama hátt og þeim mönnum sem áður höfðu lokið námi í sömu skólum.

Ofangreindur ágreiningur varð til þess að tæknifræðingafélagið höfðaði mál á hendur iðnaðarráðherra og [G] til ógildingar á starfsheitaleyfi sem ráðuneytið hafði veitt þeim síðarnefnda. Bæjarþing Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu þann 6. mars 1986 að ákvörðun Tæknifræðingafélagsins um að mæla ekki með veitingu starfsheitisins til [G] hefði ekki verið byggð á málefnalegum forsendum og því var iðnaðarráðherra ekki bundinn af synjun félagsins. Hæstiréttur staðfesti dóminn að niðurstöðu til 7. júní 1988 með vísan til tómlætis Tæknifræðingafélagsins, þ.e. að þeir hefðu ekki höfðað málið fyrr en liðið var á sjöunda ár frá því að leyfið var veitt. [H], settur hæstaréttardómari, var með sératkvæði þar sem hann rökstuddi sömu efnislegu niðurstöðu málsins með vísan til að ákvörðun Tæknifræðingafélagsins um að viðurkenna ekki lengur norska tækniskóla hafi verið haldin slíkum formgöllum að iðnaðarráðherra væri óbundinn af henni við leyfisveitingu til [G].

Sama ár og dómur Hæstaréttar féll, þ.e. 1988, hófust viðræður á milli ráðuneytisins og Tæknifræðingafélagsins um samkomulag um mat á umsóknum, [...] Við gerð samkomulagsins var lögð á það rík áhersla af hálfu ráðuneytisins að reglurnar yrðu ekki afturvirkar til þess að þeim sem hafið hefðu nám fyrir birtingu þeirra og væru komnir það vel á veg í náminu að þeir gætu ekki aðlagað sig nýjum reglum yrði ekki mismunað, [...] Tæknifræðingafélagið samdi drög að reglum sem ráðuneytið samþykkti með þeirri breytingu að miða ætti nýjar reglur við 1. jan. 1987 en ekki 1. jan. 1988. Þetta var samþykkt af félaginu. Auglýsing um niðurstöðu samkomulagsins var birt í Lögbirtingablaðinu þann 30. desember 1988.

Nú skal spurningum í bréfi umboðsmanns Alþingis frá 22. september svarað;

1) Af gögnum ráðuneytisins er ekki ljóst hvenær Tæknifræðingafélag Íslands síðast viðurkenndi nám frá [X] en ágreiningur virðist fyrst koma upp árið 1982, skv. bréfi ráðuneytisins dags. 18. maí 1983 og minnisblaði frá sama degi, [...]

2) Auk leyfisins til [A] hefur ráðuneytið veitt fjórum mönnum leyfi til að kalla sig tæknifræðinga án meðmæla frá Tæknifræðingafélagi Íslands:

[C], leyfi veitt 18.05.83, [...]

[D], leyfi veitt 27.03.85, [...]

[E], leyfi veitt 26.10.88, [...]

[F], leyfi veitt 26.10.88, [...]

Á fskj. nr. 1 og 6 kemur fram á hvaða grundvelli leyfin eru gefin út, þ.e. að samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafði ekki verið slakað á kröfum í skólanum frá því að Tæknifræðingafélag Íslands hafði viðurkennt skólann og að skólinn hafi verið viðurkenndur af FEANI á umræddum tíma, [...]. Veiting starfsheitaleyfis til [E], [F] og [A] var líka með vísan til niðurstöðu dómsmálsins sem að ofan er rakið, [...], enda álit ráðuneytisins að ef ákvörðun Tæknifræðingafélagsins um að hætta að viðurkenna norska tækniskóla, sem gerð var með atkvæðagreiðslu félagsmanna á sínum tíma, þætti haldin slíkum formgöllum að ráðuneytið þyrfti ekki að taka tillit til hennar, þá ætti slíkt ennfremur við um sænska skólann [X] þar sem engin formleg ákvörðun hafði verið tekin um að hætta að viðurkenna hann af hálfu Tæknifræðingafélags Íslands.

3) Í fskj. 1 er greinargerð um hvaða reglur ráðuneytið hefur miðað við, sjá sérstaklega lið 3 í greinargerðinni. Ráðuneytið lítur svo á að þar til auglýsing sú sem birtist í Lögbirtingablaðinu þann 30. desember 1988 hafi ekki legið ljóst fyrir við hvaða reglur bæri að miða varðandi hvað teldist "teknískur æðri skóli". Ætlun löggjafans var að miða við skóla sem útskrifuðu "ingeniöra" og að menntun tæknifræðinga væri millistig á milli háskólamenntaðra verkfræðinga og faglærðra iðnaðarmanna. Tæknifræðingafélagið fylgdi þessari stefnumörkun löggjafans til að byrja með. Síðan breytir Tæknifræðingafélagið einhliða um stefnu og ákveður innan síns félags að framvegis skuli aðeins skólar sem teljist á háskólastigi viðurkenndir af félaginu án þess að sú ákvörðun hafi uppfyllt lágmarkskröfur um formskilyrði ákvarðana sem varða starfsréttindi og launakjör fjölmargra einstaklinga. Það er lágmarksskilyrði að slíkar ákvarðanir séu teknar með formlegum hætti, byggðar á málefnalegum grunni og síðast en ekki síst birtar með skilmerkilegum hætti þannig að þeir sem eiga hagsmuni að gæta geti lagað sig að breyttum reglum. Þetta er grundvallarskilyrði þess að hægt sé að byggja á jafnræðissjónarmiði við starfsveitingar. Þetta skilyrði var ekki uppfyllt fyrr en með birtingu ofangreindrar auglýsingar í Lögbirtingablaðinu. Af þeim ástæðum hefur ráðuneytið eftir birtingu auglýsingarinnar 1988 í einstökum tilvikum þegar í hlut hafa átt einstaklingar sem falla undir bráðabirgðaákvæði hennar lagt sjálfstætt mat á umsóknir um starfsheitaleyfi eftir að neikvæð umsögn hefur borist frá Tæknifræðingafélaginu, sbr. leyfisveitinguna til [A].

Að lokum, vegna ummæla í bréfi Tæknifræðingafélagsins til umboðsmanns dags. 4. ágúst 1992, vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi: Í fyrsta lagi að ráðuneytið hefur aldrei haldið því fram að [X] sé í dag viðurkenndur af FEANI heldur hefur ráðuneytið aðeins sagt að hann hafi verið viðurkenndur af FEANI á þeim tíma sem þeir menn, sem fengið hafa starfsheitaleyfi ráðuneytisins án jákvæðrar umsagnar Tæknifræðingafélagsins, voru við nám í skólanum. Í öðru lagi vill ráðuneyti ítreka að það álítur að fullt samkomulag sé á milli þess og Tæknifræðingafélags Íslands um hvernig fara eigi með umsóknir aðila sem hafið hafa nám eftir 1. janúar 1987 sem og þeirra sem hófu nám fyrr en höfðu aðstæður til að laga sig að reglum þeim sem birtar voru í margnefndri auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Eðli málsins samkvæmt getur því ekki verið um margar umsóknir að ræða sem valdið geta ágreiningi á milli félagsins og ráðuneytisins varðandi þetta atriði í framtíðinni."

Hinn 6. október 1992 gaf ég Tæknifræðingafélagi Íslands kost á að senda mér þær athugasemdir, sem það teldi rétt að gera í tilefni af bréfi iðnaðarráðuneytisins. Athugasemdir félagsins bárust mér með bréfi félagsins frá 3. nóvember 1992. Þar segir meðal annars:

"Á bls. 1 í bréfi iðnaðarráðuneytis segir svo: "en á 7. áratugnum hætti Tæknifræðingafélagið einhliða að viðurkenna ýmsa tækniskóla í Noregi og svo í Svíþjóð". (Tilvitnun lýkur). Hið rétta er að á árinu 1968 fór fram allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna Tæknifræðingafélags Íslands um að hætta viðurkenningu á norskum skólum. Þá var komin fram sú hugmynd að tæknifræðinám skyldi vera minnst 3 ár á háskólastigi en það skilyrði uppfylltu norsku skólarnir ekki. Var því samþykkt að þeir sem hæfu nám eftir áramótin 1970/1971 fengju ekki aðild að Tæknifræðingafélagi Íslands og nám þeirra yrði ekki viðurkennt sem fullgilt tæknifræðinám.

Sama varð upp á teningnum með nám í Svíþjóð. Segja má að það sé rétt sem segir í bréfi ráðuneytisins að umrædd stefna eigi rót sína að rekja til þeirrar ákvörðunar að tæknifræðinám yrði að mestu samhliða verkfræðinámi enda er svo nú.

Að því er varðar dómsmál það er Tæknifræðingafélag Íslands höfðaði á hendur iðnaðarráðherra og [G], þá er fljótsagt að Hæstaréttardómur í því máli var ekki efnislegur en talið að réttur félags til kröfugerðar hefði glatast vegna tómlætis.

Iðnaðarráðuneytið treysti sér ekki til að svara því hvenær Tæknifræðingafélag Íslands síðast viðurkenndi nám frá [X]. Ekki er annað vitað en iðnaðarráðuneytið eigi skrá um sænskmenntaða tæknifræðinga og minnir undirritaðan að Tæknifræðingafélag Íslands hafi ekki viðurkennt nám frá [X] síðan 1969.

Svar ráðuneytisins við annarri spurningu umboðsmanns gefur ekki tilefni til frekari athugasemda af hálfu Tæknifræðingafélags Íslands en þegar eru fram komnar. Það skal þó aðeins áréttað að samkvæmt 6. gr. nr. 86/1986 er Tæknifræðingafélagi Íslands veittur sá réttur að viðurkenna eða hafna skólum, en iðnaðarráðuneytið hefur ekki getað sætt sig við það skýra ákvæði laganna. Iðnaðarráðuneytið hefur borið það fyrir sig að ákvörðun félagsins er varðar sænska skóla hafi verið haldin formgöllum, en ráðuneytið hefur í engu sýnt fram á að Tæknifræðingafélag Íslands hafi ekki þann rétt sem 6. gr. núgildandi laga mælir fyrir um. Þessi athugasemd á einnig við svar ráðuneytisins við þriðju spurningu umboðsmanns.

Iðnaðarráðuneytið heldur því fram í niðurlagi bréfsins að FEANI hafi viðurkennt [X] á þeim tíma sem þeir menn hafi fengið starfsleyfi ráðuneytisins án jákvæðrar umsagnar Tæknifræðingafélagsins voru við nám í skólanum. Þessi fullyrðing er röng. Hið rétta er að það tók FEANI um það bil 40 ár að marka þá stefnu sem nú loksins hefur verið ákveðin. Svokallað lágmarksnám er þrjú ár á háskólastigi. FEANI hefur aldrei viðurkennt að [X] væri skóli sem byði upp á nám sem er þrjú ár á háskólastigi. Tæknifræðingafélag Íslands hefur hins vegar allt frá áramótum 1970-1971 aðeins viðurkennt nám sem er þrjú ár á háskólastigi og studdist áður en FEANI samþykktin lá fyrir við reglur OECD.

Undir það skal tekið með iðnaðarráðuneytinu að varla eru mörg mál sem valdið geta ágreiningi í framtíðinni um þetta atriði. Það er þó engu að síður mjög mikilvægt að stjórnvaldi leyfist ekki að beita valdi gegn skýrum lagafyrirmælum eins og þeim sem hér er um að tefla."

V. Álit umboðsmanns Alþingis.

Í álitinu rakti ég nokkuð þróun þeirrar löggjafar um starfsheiti, sem á reyndi.

Með lögum nr. 44/1963 um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara eða tæknifræðinga voru sett svohljóðandi fyrirmæli í 5. og 6. gr.:

"5. gr.

Rétt til að kalla sig tæknifræðinga (ingeniör) eða heiti, sem felur í sér orðið tæknifræðingur, hafa þeir menn einir hér á landi, sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra.

6. gr.

Engum má veita leyfi það, sem um ræðir í 5. gr., nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í tæknifræði frá tekniskum æðri skóla, sem Tæknifræðingafélag Íslands viðurkennir sem fullgildan skóla í þeirri grein.

Þeir menn, sem fullnægja skilyrðum þeim, sem sett eru í 1. mgr. þessarar greinar, eiga rétt á, að þeim sé veitt leyfi til að kalla sig tæknifræðinga."

Lög nr. 44/1963 voru síðar endurútgefin sem lög nr. 73/1968 um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, tæknifræðinga eða byggingafræðinga. Síðastgreind lög voru loks endurútgefin sem lög nr. 62/1986 um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga. Ákvæði 5. og 6. gr. laga nr. 62/1986, sem nú eru í gildi, eru samhljóða framangreindum ákvæðum laga nr. 44/1963.

Í almennum athugasemdum við frumvarp það, er varð að lögum nr. 44/1963, segir að það hafi verið samið að beiðni Tæknifræðingafélags Íslands og að höfuðnýmæli þess sé að taka upp heitið tæknifræðingur...

"... sem starfsheiti þeirra manna, sem nú nefnast iðnfræðingar, samkvæmt lögum nr. 24 13. júní 1937, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara eða iðnfræðinga. Enn fremur, að tæknifræðingar megi nota orðið "ingeniör" í sambandi við starfstitil sinn, en verkfræðingar noti samsvarandi erlent starfsheiti: "diplom ingeniör" eða "civil ingeniör". (Alþt. 1962, A-deild, bls. 450.)

Í skýringum við 1. gr. framangreinds frumvarps er fjallað um rétt manna til þess að bera heitið verkfræðingur. Þar segir:

"Grein þessi er samhljóða 1. gr. laga nr. 24/1937, að því undanskildu, að fellt er niður orðið "ingeniör", sem nú er í 1. gr. laganna, á eftir orðinu "verkfræðingur", en í staðinn kemur "diplom-ingeniör, civil-ingeniör".

Flestir þeirra manna hér á landi, sem leyfi hafa fengið samkvæmt lögum nr. 24/1937 til að kalla sig iðnfræðinga, hafa lokið prófi í Danmörku, Noregi, Svíþjóð eða Þýskalandi frá tækniskólum, sem í þessum löndum útskrifa menn, sem þar mega nota starfsheitið "ingeniör", en verkfræðingar nota þar titilinn civil-ingeniör eða diplom-ingeniör. Breyting sú, sem í þessari grein felst, er því aðeins sú, að hér á landi skuli þeim, sem lokið hafa prófi frá viðurkenndum tækniskólum erlendis, heimilt að bera það starfsheiti, sem þarlendir menn mega nota að loknu sama prófi." (Alþt. 1962, A-deild, bls. 451.)

Í skýringum við 5. gr. framangreinds frumvarps kemur fram:

"Lagt er til, að sérfræðingar þeir, er 5.-6. gr. fjalla um, fái lögvernd á starfsheitinu "tæknifræðingur", í stað heitisins "iðnfræðingur" nú.

Tæknimenntaðir menn, sem 5.-6. gr. taka til, hafa stofnað stéttarfélag, er þeir nefna Tæknifræðingafélag Íslands, og eindregið óskað eftir, að þessi breyting yrði gerð. Fyrirsvarsmenn félagsins halda því fram, að bann við að nota starfsheiti það, sem sams konar námi fylgir erlendis, hafi mjög dregið úr áhuga ungra manna hér á landi til tæknifræðináms erlendis. Enda þótt ekki sé lagður dómur á þessa skoðun, er ljóst, að skortur er hér tilfinnanlegur á tæknifræðingum (iðnfræðingum), en slík menntun er millistig milli menntunar verkfræðinga og faglærðra iðnaðarmanna, og við margs konar störf eru tæknifræðingar mjög nauðsynlegir.

Verkfræðingar munu nú vera nær fjórfalt fleiri en tæknifræðingar hér á landi, og er það hlutfall milli þessara starfsgreina mjög á annan veg en æskilegt er talið, miðað við reynslu annarra þjóða. Það ber því nauðsyn til að stuðla að því, að fleiri ungir menn leiti sér tæknifræðimenntunar." (Alþt. 1962, A-deild, bls. 451.)

Í skýringum við 6. gr. frumvarpsins segir, að ákvæðið sé að efni til hliðstætt 6. gr. þágildandi laga nr. 24/1937, en samræmt nýmælum 5. gr. frumvarpsins.

Í 5. og 6. gr. laga nr. 24/1937 um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara eða iðnfræðinga voru svohljóðandi fyrirmæli:

"5. gr.

Rétt til að kalla sig iðnfræðinga eða til að kenna sig við sériðngrein sína, t.d. kalla sig vélfræðing eða raffræðing eða öðru slíku heiti, sem dregið er af sériðn manna og myndað með sama hætti, hafa þeir einir menn hér á landi, sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra.

6. gr.

Engum má veita leyfi það sem um ræðir í 5. gr., nema hann hafi lokið fullnaðarprófi við tekniskan framhaldsskóla í þeirri iðngrein, er hann vill kenna sig við, enda sé skólinn viðurkenndur sem fullgildur skóli í þeirri grein af stéttarfélagi iðnfræðinga þeirrar greinar hér á landi, ef til er, en ef það félag er ekki til, þá af Verkfræðingafélagi Íslands.

Þeir menn, sem fullnægja skilyrðum þeim, sem sett eru í þessari gr., eiga rétt á, að þeim sé veitt leyfið samkvæmt 5. gr."

Fram kemur í greinargerð þeirri, er fylgdi frumvarpi til framangreindra laga, að það sé flutt samkvæmt ósk Verkfræðingafélags Íslands og Akademiska arkitektafélagsins. Eins og frumvarpið var fyrst lagt fram, hljóðaði 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins svo:

"Engum má veita leyfi það, sem ræðir um í 5. gr., nema hann hafi lokið fullnaðarprófi við tekniskan framhaldsskóla, og vilji hann kenna sig við ákveðna iðngrein, þá fullnaðarprófi í þeirri iðngrein. Auk þess skal umsækjandi hafa fengið meðmæli hlutaðeigandi stéttarfélags iðnfræðinga hér á landi, ef til er,..." (Alþt. 1937, A-deild, bls. 177.)

Í ræðu flutningsmanns kemur fram, að frumvarpinu sé ætlað að tryggja það, að þeir einir megi kalla sig verkfræðinga, húsameistara eða iðnfræðinga, sem hafi til þess leyfi ráðherra og fullnægi þeim skilyrðum um menntun, sem frumvarpið setji og að þeir sem vilji kalla sig vélfræðinga, raffræðinga o.s.frv. skuli hafa próf frá viðurkenndum tekniskum skóla. (Alþt. 1937, B-deild, dálk. 257.) Við meðferð Alþingis á frumvarpinu var 6. gr. frumvarpsins breytt í það horf, sem síðar varð 6. gr. laga nr. 24/1937. Í ræðu framsögumanns meirihluta iðnaðarnefndar segir, að nefndin hafi ekki verið sammála um, hvernig fara skyldi með þá menn, sem þá þegar höfðu tekið sér þau heiti, sem frumvarpið tók til. Síðan segir svo í ræðu framsögumannsins:

"Meiri hl. iðnn. taldi rétt, að félag faglærðra manna í viðkomandi grein fengi að láta í ljós álit sitt á því, hverjir þeirra manna, er borið hafa verkfræðings-, húsameistara- eða iðnfræðingaheiti til þessa, ættu að hafa rétt til þess að hafa þau eftirleiðis. Í þessu einu er fólginn ágreiningur innan n. í þessu máli. Að hinu leyti er n. sammála um frv. og brtt. á þskj. 91 og 92, í þá átt, að í stað stéttarfélaga komi skólar í viðkomandi greinum,..." (Alþt. 1937, B-deild, dálk. 258).

Niðurstaða álits míns, dags. 8. febrúar 1993, var svohljóðandi:

"VI. Niðurstaða.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 62/1986, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga, hafa þeir einir rétt til þess "...að kalla sig tæknifræðinga (ingeniör)... sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra". Leyfi ráðherra er bundið því skilyrði 1. mgr. 6. gr. laganna, að umsækjandi hafi "...lokið fullnaðarprófi í tæknifræði frá tekniskum æðri skóla, sem Tæknifræðingafélag Íslands viðurkennir sem fullgildan skóla í þeirri grein". Kvörtun Tæknifræðingafélags Íslands lýtur að því, að iðnaðarráðuneytið hafi þrátt fyrir neikvæða umsögn félagsins veitt A leyfi til þess að kalla sig tæknifræðing.

1.

Með 1. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1986 er Tæknifræðingafélagi Íslands fenginn lögbundinn umsagnarréttur. Tæknifræðingafélagi Íslands er með 1. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1986 veitt svigrúm við mat á því, hvað skuli telja "fullgildan skóla". Samt sem áður takmarkast það mat félagsins af almennum reglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. reglum um þau sjónarmið, sem byggja má á, svo sem jafnræðisreglum.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 62/1986 veitir iðnaðarráðherra mönnum leyfi til þess að kalla sig tæknifræðinga. Í því felst að iðnaðarráðherra getur fjallað um það meðal annars, hvort umsögn Tæknifræðingafélags Íslands sé í samræmi við lög og almennar reglur stjórnsýsluréttar. Telja verður, að á slíkum grundvelli geti ráðuneytið veitt leyfi samkvæmt 5. gr. laga nr. 62/1986.

2.

Samkvæmt þeim lögskýringargögnum, sem rakin eru í VI. kafla hér að framan, er megintilgangurinn með umsögn Tæknifræðingafélags Íslands að tryggja, að umsækjandi um leyfi til þess að kalla sig tæknifræðing fullnægi vissum lágmarkskröfum um menntun. Er félaginu í því sambandi ætlað að leggja mat á það, hvort hlutaðeigandi skóli veiti fullnægjandi tæknifræðimenntun. Að öðru leyti gefa lög nr. 62/1986 og framangreind lögskýringargögn takmarkaða leiðbeiningu um þau sjónarmið, sem félaginu ber að byggja umsögn sína á. Með setningu laga nr. 44/1963 virðist hafa verið við það miðað, að tæknifræðimenntun væri "... millistig milli menntunar verkfræðinga og faglærðra iðnaðarmanna,...". Á árinu 1969 var sú ákvörðun tekin af Tæknifræðingafélagi Íslands, að undangenginni atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna, að viðurkenna ekki lengur norska tæknifræðingaskóla. Af bréfi félagsins frá 22. janúar 1992, [...] og bréfi félagsins frá 3. nóvember 1992, sem rakið er í [IV.] kafla, verður ráðið, að þessi ákvörðun hafi einnig verið látin ná til sænskra tæknifræðiskóla, þó svo að um það hafi ekki legið fyrir formleg samþykkt félagsins. Í bréfi Tæknifræðingafélags Íslands frá 3. nóvember 1992 segir, að sú stefna að viðurkenna ekki tæknifræðinám í sænskum skólum, hafi átt "... rót sína að rekja til þeirrar ákvörðunar að tæknifræðinám yrði að mestu samhliða verkfræðinámi...". Ekki liggja fyrir ótvíræð gögn um það, hvenær Tæknifræðingafélag Íslands hafi síðast viðurkennt tæknifræðinám við sænska skóla. Á árunum 1983-1988 veitti iðnaðarráðuneytið hins vegar a.m.k. fjórum mönnum, er lokið höfðu námi frá sama skóla og A, leyfi til þess að kalla sig tæknifræðinga, án þess að áður hafi legið fyrir umrædd viðurkenning félagsins.

Við mat sitt á því, hvort viðurkenna eigi nám við erlenda tæknifræðiskóla, hefur Tæknifræðingafélag Íslands haft hliðsjón af áliti Evrópusambands verkfræðinga og tæknifræðinga, FEANI, á erlendum tæknifræðiskólum. Ljóst er af gögnum málsins, að iðnaðarráðuneyti og Tæknifræðingafélag Íslands greinir á um það, hvort FEANI hafi viðurkennt umræddan skóla í Svíþjóð sem fullgildan tæknifræðiskóla á árunum 1982-1985, er A stundaði þar nám. Ég tel á hinn bóginn, að úrlausn um þann ágreining hafi ekki þýðingu fyrir niðurstöðu mína í máli þessu.

3.

Með auglýsingu þeirri, er birtist í Lögbirtingablaðinu 30. desember 1988, um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig tæknifræðinga, leituðust iðnaðarráðuneytið og Tæknifræðingafélag Íslands við að setja almennar reglur um það, hvernig meta skyldi nám umsækjenda um leyfi til að kalla sig tæknifræðinga. Telur iðnaðarráðuneytið, að umsókn A hafi átt að afgreiða í samræmi við bráðabirgðaákvæði auglýsingarinnar, sem kveður svo á, að meta skuli umsóknir þeirra, er byrjað hafi samfellt nám í tæknifræði fyrir 1. janúar 1987 og ekki getað aðlagað sig reglunum, eftir þeim "reglum sem notaðar hafa verið að undanförnu". Af skýringum iðnaðarráðuneytisins frá 1. júlí 1992 verður ráðið, að ráðuneytið hafi ákveðið að veita A umrætt leyfi, þar sem það hafði áður veitt umsækjendum með menntun frá sama skóla leyfi til þess að kalla sig tæknifræðinga.

Samkvæmt þeim gögnum, sem fyrir liggja í máli þessu, hefur Tæknifræðingafélag Íslands hert á þeim skilyrðum, sem félagið gerir fyrir viðurkenningu sinni á skólum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1986 og sams konar ákvæðum eldri laga. Verður að leggja til grundvallar, að skóli sá, sem A stundaði nám við, hafi í gildistíð nefndra lagareglna upphaflega verið viðurkenndur af Tæknifræðingafélaginu.

Líta verður svo á, að bráðabirgðaákvæði umræddrar auglýsingar iðnaðarráðuneytisins og Tæknifræðingafélags Íslands, sem birtist í Lögbirtingablaðinu 30. desember 1988, um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig tæknifræðinga, hafi verið ætlað að koma í veg fyrir, að hertar kröfur fyrir viðurkenningu tækniskóla kæmu óvænt og hart niður á þeim mönnum, sem stundað höfðu nám við skóla, sem hertar kröfur útilokuðu. Er auglýsingin í samræmi við viðurkennd grundvallarsjónarmið stjórnsýsluréttar að því er tekur til afturvirkni laga og stjórnarathafna. Var tilefni til þeirrar ákvörðunar, sem í bráðabirgðaákvæði auglýsingarinnar felst, enn brýnna fyrir þá sök, að ekki verður ráðið af gögnum málsins, að ákvörðun um hertar kröfur til viðurkenningar náms hafi verið kynnt með fullnægjandi hætti miðað við það, að hún gat skert verulega hagsmuni einstaklinga. Samkvæmt þessu eru að mínum dómi ekki lagarök til að gagnrýna iðnaðarráðuneytið fyrir að veita á grundvelli auglýsingarinnar ýmsum mönnum leyfi til að kalla sig tæknifræðinga, sem höfðu byrjað nám við X fyrir 1. janúar 1987. Vegna jafnræðissjónarmiða í stjórnsýslurétti verður ráðuneytið heldur ekki gagnrýnt fyrir að veita A slíkt leyfi hinn 25. nóvember 1991.

VII.

Það er niðurstaða mín, að ekki séu lagarök til að finna að umræddri ákvörðun iðnaðarráðuneytisins, að veita A leyfi til þess að kalla sig tæknifræðing."