Opinberir starfsmenn. Afgreiðsla umsóknar um auglýsta stöðu innan þjóðkirkjunnar.

(Mál nr. 42/1988)

Máli lokið með bréfi, dags. 19. desember 1989.

A var eini umsækjandinn um stöðu farprests þjóðkirkjunnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 35/1970 um skipun prestakalla og prófastsdæma og um kristnisjóð. Umboðsmaður taldi, að staðan hefði verið auglýst í samræmi við 5. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Umsækjendur um slíkar stöður mættu almennt ganga út frá því, að einhver úr þeirra hópi yrði valinn til að gegna hinu auglýsta starfi. Jafnframt væri það eðlileg starfsregla, að það stjórnvald, sem auglýsti stöðu, gerði umsækjendum innan hæfilegs tíma grein fyrir afgreiðslu þess á umsóknum. Þar sem A hefði verið eini umsækjandinn hefði biskupi borið að tilkynna A skriflega eða með öðrum sannanlegum hætti, að umsóknin yrði ekki tekin til greina og hverjar væru ástæður þess. Þar sem samráð var haft við dóms- og kirkjumálaráðuneytið og A leitaði síðar eftir skýringum ráðherra, taldi umboðsmaður ennfremur, að ráðuneytið hefði átt að sjá til þess að bætt yrði úr göllum á málsmeðferð biskups.