Atvinnuréttindi. Löggilding dómtúlka. Skilyrði fyrir próftöku. Lagaheimild.

(Mál nr. 10225/2019)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Vestmannaeyjum að synja A um að gangast undir próf í dómtúlkun. Niðurstaða stjórnvalda var byggð á því að ákvæði laga um dómtúlka og skjalaþýðendur hefði verið túlkað með þeim hætti í framkvæmd að aðili verði að hafa löggildingu sem skjalaþýðandi af íslensku yfir á annað tungumál og öfugt til að undirgangast próf í dómtúlkun. Athugun umboðsmanns laut að því hvort fullnægjandi lagaheimild væri til staðar til að gera þessa kröfu og þá hvort sú lagaheimild væri nægilega skýr til að hægt væri að útiloka skjalaþýðendur frá því að þreyta slíkt próf hefðu þeir ekki löggildingu í báðar áttir.

Umboðsmaður tók fram að í lögum um dómtúlka og skjalaþýðendur væri kveðið á um hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til að öðlast löggildingu sem skjalaþýðandi og dómtúlkur. Þar kæmi m.a. fram að standast þyrfti viðeigandi próf en einnig að sá einn gæti hlotið löggildingu sem dómtúlkur sem jafnframt væri löggiltur sem skjalaþýðandi. Aftur á móti væri hvergi vikið að því í lögunum að aðilar skyldu vera löggiltir skjalaþýðendur í báðar áttir til að hljóta löggildingu sem dómtúlkar. Þá yrði heldur ekki séð af lögskýringargögnum að þar hefði verið gert ráð fyrir þessu skilyrði eða að ráðherra hefði talið tilefni til að mæla fyrir um slíkt í reglugerð, þótt þar væri vikið að fyrirkomulagi slíkra prófa.

Umboðsmaður benti á að túlkun ráðuneytisins að þessu leyti og framkvæmd stjórnvalda leiddi til þess að settar hefðu verið skorður fyrir því að þreyta próf í dómtúlkun sem fælu í sér að viðkomandi þyrfti að hafa réttindi sem skjalaþýðandi í báðar áttir. Kröfur laga um opinber leyfi til að stunda tiltekna atvinnu, svo sem löggilding dómtúlka, fælu í sér takmörkun á því atvinnufrelsi sem verndað væri í 75. gr. stjórnarskrárinnar. Í samræmi við það yrðu lagafyrirmæli um inntak og fyrirkomulag slíks leyfis að vera skýr og glögg og ekki túlkuð með rýmri hætti, borgaranum í óhag, en leiddi af orðanna hljóðan. Kröfur stjórnvalda um að viðkomandi hefði lokið prófum í báðar áttir í skjalaþýðingum til að þreyta próf í dómtúlkun, eins og í máli A, þyrftu því að uppfylla þessar kröfur um lagaheimild og skýrleika hennar.

Umboðsmaður benti á að lög um dómtúlka og skjalaþýðendur fjölluðu um tvær aðskildar löggildingar þar sem könnuð væri hæfni á mismunandi sviðum. Þrátt fyrir að löggjafinn hafi ákveðið að dómtúlkar skyldu einnig vera skjalaþýðendur væri það hlutverk prófa að skera úr um hvort aðili uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um að hafa þá þekkingu og færni sem nauðsynleg væri til að gegna starfi löggilts dómtúlks, þ.e. hvort viðkomandi gæti túlkað í báðar áttir. Var það álit umboðsmanns að lög um dómtúlka og skjalaþýðendur, fælu ekki í sér fullnægjandi lagaheimild fyrir stjórnvöld til að byggja á því að skjalaþýðendur þurfi að hafa próf í að þýða úr íslensku yfir á erlent tungumál og öfugt til að þreyta próf í dómtúlkun. Var það því niðurstaða hans að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins í máli A, þar sem á því var byggt, hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til dómsmálaráðuneytisins að taka mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá henni, og leysti þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu. Auk þess bendi hann þeim almennu tilmælum til ráðuneytisins að það tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.

   

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 29. september 2019 leitaði A til mín og kvartaði yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins frá 9. maí 2019. Með úr­skurðinum staðfesti ráðuneytið ákvörðun sýslumannsins í Vestmanna­eyjum um að synja henni um að gangast undir próf í dómtúlkun. Niðurstaða ráðu­neytisins var einkum byggð á því að ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 148/2000, um dómtúlka og skjalaþýðendur, hafi verið túlkað með þeim hætti í framkvæmd að aðili verði að hafa löggildingu sem skjalaþýðandi af íslensku yfir á annað tungumál og öfugt til að undirgangast próf í dóm­túlkun. A telur að framangreind túlkun á ákvæðinu og framkvæmd eigi sér ekki fullnægjandi stoð í lögum þar sem eingöngu sé kveðið á um í ákvæðinu að einstaklingur skuli vera löggiltur skjalaþýðandi án þess að tiltekið sé nánar um hvers konar löggildingarréttindi sé að ræða en A hefur löggildingu úr erlendu tungumáli yfir á íslensku.

Í máli A reynir einkum á þá afstöðu ráðuneytisins að full­nægjandi lagaheimild sé til staðar til gera þá kröfu að skjalaþýðandi sem vill þreyta próf í dómtúlkun verði að hafa löggildingu sem slíkur af íslensku yfir á erlent tungumál og öfugt og þá hvort sú lagaheimild sé nægilega skýr til að hægt sé að útiloka skjalaþýðendur frá því að þreyta slíkt próf hafi þeir ekki löggildingu í báðar áttir.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 26. júní 2020.

  

II Málavextir

Af gögnum málsins verður ráðið að A hafi sent sýslumanninum í Vestmannaeyjum tölvupóst, dags. 6. júní 2018, þar sem fram kom að hún hefði löggildingu sem skjalaþýðandi úr erlendu máli yfir á íslensku og hygðist sækja um að gangast undir próf í dómtúlkun. Gerð hefði verið krafa um að viðkomandi væri löggiltur skjalaþýðandi í báðar áttir til að taka slíkt próf en hún teldi sig ekki geta séð að lögin gerði kröfu um annað en viðkomandi væri löggiltur skjalaþýðandi, og þá í aðra áttina. Með vísan til þess óskaði hún eftir að fá svör við því hvaða skilyrðum hún þyrfti að fullnægja til að gangast undir próf í dómtúlkun.

Í svarbréfi sýslumanns, dags. 2. júlí 2018, segir eftirfarandi:

„Það er rétt að gerð hefur verið krafa um að sá sem fær að þreyta próf í dómtúlkun hafi áður öðlast löggildingu sem skjala­þýðandi í báðar áttir og er það byggt á orðalagi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 148/2000 þar sem segir: „Sá einn getur öðlast lög­gildingu sem dómtúlkur sem jafnframt er löggiltur skjalaþýðandi. Heimilt er að veita löggildingu til að þýða [...] af erlendu máli á íslensku án þess að veitt sé löggilding til að þýða af íslensku á erlenda málið og öfugt.“ Að mati sýslumanns tekur undanþágan sam­kvæmt orðanna hljóðan um aðra áttina því aðeins til skjalaþýðinga.“

Fram kemur að afstaða sýslumanns byggist á því að dómtúlkur þurfi að hafa burði til að túlka í báðar áttir og því sé ekki leyfilegt að taka prófið í „aðra áttina“. Var jafnframt vísað til 2. gr. reglugerðar nr. 893/2001, um próf og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur, þar sem fram kemur að próftaki skuli túlka talað mál úr íslensku á hið erlenda mál og úr því á íslensku. Það sé því „augljóslega ekki leyfilegt að taka dómtúlkaprófið í aðra áttina, hvað sem öðru líður.“ Með vísan til þessa taldi sýslumaður að A teldist ekki fullnægja skilyrðum laga nr. 148/2000 til að gangast undir próf í dómtúlkun.

A kærði framangreinda synjun til dómsmálaráðuneytisins 2. október 2018. Í kæru sinni til ráðuneytisins byggði A á því að hún fullnægi skilyrðum laga til að gangast undir próf í dómtúlkun í ljósi þess að hún hafi hlotið löggildingu sem skjalaþýðandi. Þá tekur hún sér­staklega fram að lög um dómtúlka og skjalaþýðendur fjalli um „tvær að­skildar löggildingar, sem ekki [séu] sömu forsendur fyrir“ og að mikill munur sé á þeim prófum sem einstaklingum sé gert að þreyta til að hljóta framangreind réttindi. Áréttað var að tilgangur prófa í dóm­túlkun sé að prófa færni í báðum tungumálum en að framkvæmd prófa fyrir lög­gildingu skjalaþýðenda væri þess eðlis að hægt væri að hljóta lög­gildingu úr íslensku á erlent mál án þess að hljóta löggildingu af hinu erlenda máli yfir á það íslenska.

Ráðuneytið kvað upp úrskurð sinn í málinu 9. maí 2019. Í niður­stöðukafla úrskurðarins eru skilyrði laga nr. 148/2000 til að hljóta löggildingu rakin. Síðan segir í úrskurðinum:

„Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna er gerð krafa um að sá sem óski eftir að hljóta löggildingu sem dómtúlkur skuli hafa lög­gildingu sem skjalaþýðandi. Hefur ákvæðið verið túlkað þannig í framkvæmd að viðkomandi hafi löggildingu sem skjalaþýðandi af íslensku yfir á annað tungumál og öfugt til þess að geta undir­gengist próf í dómtúlkun. Í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur einnig fram að heimilt sé að veita löggildingu til að þýða af erlendu máli á íslensku án þess að veitt sé löggilding til að þýða af íslensku á erlenda málið og öfugt. Á þetta aðeins við um lög­gildingu til skjalaþýðanda en ekki löggildingu dómtúlks. Þá kemur fram í 2. gr. reglugerðar um próf og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur, nr. 893/2001, að próftaki í munnlegu prófi í dóm­túlkun skuli túlka talað mál úr íslensku á hið erlenda mál og úr því á íslensku.

Til þess að öðlast löggildingu sem dómtúlkur þarf ein­staklingur að hafa lokið tilskildum prófum og öðlast löggildingu sem skjalaþýðandi bæði af erlendu máli yfir á íslensku og öfugt, auk munnlegs prófs í dómtúlkun. Þannig er ekki nóg að viðkomandi hafi lokið skriflegu prófi og heimaverkefni í aðra áttina en munn­legu prófi í báðar. Með því móti hefði umsækjandi aðeins lokið 10-15 mínútna prófi í túlkun í aðra áttina en fjögurra tíma skriflegu prófi, heimaverkefni og 10-15 mínútna munnlegu prófi í hina. Væru þannig ekki sömu kröfur gerðar til hæfni umsækjanda til að túlka af öðru tungumálinu yfir á hitt og öfugt en líkt og áður kemur fram krefst starf dómtúlks þess að viðkomandi geti túlkað í báðar áttir.“

Í ljósi þess að A uppfyllti ekki skilyrði um að vera löggiltur skjala­þýðandi í báðar áttir var það niðurstaða ráðuneytisins að stað­festa bæri ákvörðun sýslumannsins í Vestmannaeyjum.       

   

III Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda

Í tilefni af kvörtuninni sendi ég dómsmálaráðuneytinu bréf, dags. 15. október 2019. Þar óskaði ég m.a. eftir því að ráðuneytið upplýsti mig um hvort og þá hvernig sú afstaða ráðuneytisins, um að aðili sem óskar eftir því að undirgangast próf til að öðlast löggildingu sem dóm­túlkur í báðar áttir þurfi að hafa löggildingu sem skjalaþýðandi bæði af erlendu tungumáli yfir á íslensku og öfugt, eigi sér fullnægjandi stoð í lögum. Hafði ég einkum í huga þann tilgang prófa í löggiltri skjala­þýðingu og dómtúlkun að varpa ljósi á kunnáttu og leikni ein­staklings í því tungumáli sem hann vill öðlast rétt til að túlka fyrir dómi og þýða skjöl ásamt því að um mikilvæg atvinnuréttindi einstaklinga væri að ræða og því yrðu takmarkanir á slíkum réttindum að vera skýrar í lögum.

Svör ráðherra bárust mér með bréfi, dags. 21. febrúar 2020. Þar segir m.a. eftirfarandi um skilyrði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 148/2000:     

„Ráðuneytið bendir á að í 2. mgr. 4. gr. laganna um dómtúlka og skjalaþýðendur er kveðið á um að sá einn geti hlotið löggildingu sem dómtúlkur sem jafnframt er löggiltur sem skjalaþýðandi. Er þar ekki sérstaklega tekið fram að viðkomandi þurfi að vera löggiltur sem skjalaþýðandi í báðar áttir. Hins vegar felst það í eðli starfans að vera dómtúlkur að viðkomandi verður að geta túlkað það sem fram fer í dómsal í báðar áttir þ.e. af íslensku yfir á hið erlenda mál og af hinu erlenda máli yfir á íslensku. Verður því ákvæðið ekki skilið á annan veg en þann sem ávallt hefur verið lagt til grundvallar við mat á hæfni dómtúlka að sá sem öðlast vill löggildingu sem dómtúlkur verði að hafa öðlast rétt til að vera skjalaþýðandi af íslensku yfir á hið erlenda mál og öfugt enda ekki rökrétt að gera þá kröfu til dómtúlks að hann geti túlkað í báðar áttir með fullnægjandi hætti ef hann hefur ekki löggildingu sem skjalaþýðandi nema í aðra áttina.“

Ráðuneytið tekur síðan fram að það sé afstaða þess að einstaklingur sem lokið hefur prófi til löggildingar í báðar áttir hefur „þá þegar sýnt fram á hæfni umfram þá einstaklinga sem aðeins hafa öðlast réttindi í aðra átt, enda [hafi] hann þá lokið tveimur prófum í prófstofu og tveimur heimaverkefnum“. Um sé að ræða talsvert meira krefjandi próf, alls fimm talsins þar sem prófuð sé færni til að túlka af einu tungumáli yfir á annað og öfugt, en þegar um sé að ræða löggildingarréttindi í aðra áttina. Slíkur einstaklingur hefur aðeins „fullnægt helmingi þeirra krafna sem gerðar eru til að mega undirgangast próf til löggildingar sem dómtúlkur“. Með vísan til alls framangreinds telji ráðuneytið að skilningur þess á 2. mgr. 4. gr. laganna eigi sér fulla stoð í lögum.    

   

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Lagagrundvöllur

Um löggildingu dómtúlka er fjallað í lögum nr. 148/2000, um dóm­túlka og skjalaþýðendur. Í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögunum kemur fram að það feli í sér heildarendurskoðun á þá­­gildandi lögum nr. 32/1914, um heimild fyrir stjórnarráðið til þess að veita mönnum rétt til þess að vera dómtúlkar og skjalaþýðendur. Frum­varpið sé byggt á tillögum nefndar sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi skipað til að endurskoða fyrirkomulag prófa til löggildingar dómtúlka og skjalaþýðenda. Nefndin hafi talið nauðsynlegt að lögfesta ýmis atriði varðandi öflun löggildingar sem dómtúlkur eða skjalaþýðandi og hefði einnig samið drög að reglugerð um próf og löggildingu fyrir dóm­túlka og skjalaþýðendur til nánari útfærslu á ákvæðum frumvarpsins.  Með dómtúlki og skjalaþýðanda er í lögum nr. 148/2000 átt við þann sem öðlast hefur löggildingu til að annast túlkun fyrir dómi og þýðingu skjala sem hafa réttarlegt gildi. Dómtúlkar og skjalaþýðendur eru opin­berir sýslunarmenn og njóta réttinda og bera skyldur samkvæmt því, sbr. 1. gr. laganna.

Kveðið er á um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að öðlast lög­gildingu sem skjalaþýðandi eða dómtúlkur í 2. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu getur hver sá sem er lögráða og svo á sig kominn andlega að hann sé fær um að annast túlkun og þýðingar öðlast rétt til löggildingar svo fremi sem viðkomandi hefur staðist próf samkvæmt 3. gr. laganna.

Um tilgang prófa segir í 1. mgr. 3. gr. laganna að sá sem óskar eftir því að öðlast löggildingu skuli „standast próf sem sýni að hann hafi þá þekkingu og færni sem nauðsynleg er til að gegna starfinu“. Ráð­herra skipar þriggja manna prófnefnd til að meta úrlausnir fyrir hvert próf sem haldið er, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Í reglugerð sem ráð­herra setur að fengnum tillögum prófstjórnar skal kveðið nánar á um fram­kvæmd prófs og mat prófúrlausna, sbr. 3. mgr. sama ákvæðis.

Í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur m.a. fram að umsókn um löggildingu skuli beint til sýslumanns og skuli leggja fram gögn til stuðnings því að umsækjandi fullnægi skilyrðum 2. gr. Enn fremur segir í 2. mgr. 4. gr.:  

„Sýslumaður gefur út löggildingarskírteini fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur. Sá einn getur hlotið löggildingu sem dómtúlkur sem jafnframt er löggiltur sem skjalaþýðandi. Heimilt er að veita lög­gildingu til að þýða af erlendu máli á íslensku án þess að veitt sé löggilding til að þýða af íslensku á erlenda málið og öfugt.“

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er aðeins tekið fram að að til þess að fá löggildingu sem dómtúlkur sé einnig nauðsynlegt að viðkomandi hafi löggildingu sem skjalaþýðandi. Hins vegar sé ekki skilyrði að hafa réttindi sem dómtúlkur til að fá lög­gildingu sem skjalaþýðandi.

Á grundvelli 3. mgr. 3. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 893/2001, um próf og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur. Í 1. gr. reglugerðarinnar segir að sá sem vilji öðlast rétt til að vera dóm­túlkur og skjalaþýðandi skuli „sanna kunnáttu sína í tungu þeirri sem hann vill öðlast rétt til að túlka fyrir dómi og og þýða skjöl úr og á með því að standast prófraun“. Prófraun til skjalaþýðingaréttinda skiptist í tvo hluta og er skriflegt en þeir sem óska eftir því að öðlast réttindi sem dómtúlkar þurfa að þreyta sérstaka munnlega próf­raun, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar.

Í III. lið 2. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að próftaki skuli túlka talað mál úr íslensku á hið erlenda mál og úr því á íslensku að viðstaddri prófnefnd. Kemur það í hlut prófdómenda að meta frammi­stöðu próftaka einkum með hliðsjón af nákvæmni, málfærni og glöggum skilningi próftaka, sbr. 5. mgr. 6. gr. reglugerðar. Að mati loknu skal prófnefnd senda prófstjórn greinargerð um úrlausnir hvers próftaka, undir­ritaða af öllum prófnefndarmönnum, þar sem fram kemur mat á því hvort hún telji próftaka hafa kunnáttu og leikni til að öðlast lög­gildingu sem dómtúlkur og/eða skjalaþýðandi, bæði úr íslensku á hið erlenda mál og úr hinu erlenda máli á íslensku eða aðeins af hinu erlenda máli á íslensku eða öfugt. Mat prófnefndar er endanlegt, sbr. 6. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. 

2 Er heimilt að gera þá kröfu að löggiltir skjalaþýðendur hafi réttindi í báðar áttir til að þreyta próf í dómtúlkun?

Í máli þessu reynir á hvort sú framkvæmd stjórnvalda að synja lög­giltum skjalaþýðendum um að taka próf í dómtúlkun séu þeir aðeins með slík réttindi í aðra áttina eigi sér fullnægjandi stoð í lögum nr. 148/2000. Afstaða ráðuneytisins hefur að meginstefnu verið byggð á því að ákvörðun þess eigi sér fulla stoð í lögum þrátt fyrir að slíkur áskilnaður komi ekki berum orðum fram í 2. mgr. 4. gr. laganna. Ráðu­neytið hefur einkum vísað til þess að eðli málsins samkvæmt verði dóm­túlkar að geta túlkað það sem fram fer í dómsal í báðar áttir. Þá vísar ráðuneytið til þess að „ekki [sé] rökrétt að gera þá kröfu til dómtúlks að hann geti túlkað í báðar áttir með fullnægjandi hætti ef hann hefur ekki löggildingu sem skjalaþýðandi nema í aðra áttina“ enda hafi slíkur ein­staklingur setið fimm próf alls.  

     Eins og að framan er rakið er í lögum nr. 148/2000 fjallað um þau skilyrði sem aðilar verða að uppfylla til að hljóta annars vegar réttindi sem löggiltir skjala­þýðendur og hins vegar sem löggiltir dómtúlkar. Til að undirgangast munnlegt próf í dómtúlkun verður aðili að uppfylla skilyrði 2. gr. laganna um andlegt atgervi og lögræði ásamt því að vera lög­giltur skjalaþýðandi, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Þrátt fyrir að um tvær aðskildar löggildingar sé að ræða er ljóst að löggjafinn hefur ákveðið að aðili þurfi að hafa próf sem löggiltur skjalaþýðandi til að fá löggildingu sem dómtúlkur. Þá þarf aðili að standast próf, sbr. 3. gr. laga nr. 148/2000. Tilgangur prófanna er að varpa ljósi á hvort aðili hafi þá færni og þekkingu sem nauðsynleg er til að gegna starfi lög­gilts skjalaþýðanda og/eða löggilts dómtúlks með því að gefa aðila kost á að „sanna kunnáttu sína í tungu þeirri sem hann vill öðlast rétt til að túlka fyrir dómi og þýða skjöl úr og á“, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 893/2001.   

Með framangreindum ákvæðum laga nr. 148/2000 hefur löggjafinn mælt fyrir um að þeir sem óska eftir löggildingu geti öðlast slík réttindi, þ.e. með því annars vegar að uppfylla framangreind skilyrði og hins vegar standast umrædd próf. Hvergi er vikið að því í lögunum að aðilar skuli vera löggiltir skjalaþýðendur í báðar áttir til að hljóta lög­gildingu sem dómtúlkar, líkt og ráðuneytið hefur fallist á í svörum til mín. Þá fæ ég heldur ekki séð af athugasemdum er fylgdu frum­varpi því er varð að lögunum að þar sé sérstaklega gert ráð fyrir framangreindu skil­yrði eða að ráðherra hafi talið tilefni til að mæla fyrir um slíkt skil­yrði í reglugerð nr. 893/2001 þótt þar sé vikið að fyrirkomulagi slíkra prófa.

Almennt verður að miða við, þegar höfð er í huga sú meginregla að stjórn­sýslan sé lögbundin, að ákvarðanir stjórnvalda séu í samræmi við lög og eigi sér viðhlítandi stoð í þeim. Eftir því sem ákvörðun telst meira íþyngjandi fyrir borgarann og ef hún felur í sér inngrip stjórn­valda í stjórnarskrárvarin réttindi eru meiri kröfur gerðar að þessu leyti. Þau réttindi sem hér um ræðir eru líkt og fleiri starfsréttindi byggð á því að viðkomandi hafi uppfyllt sérstakar kröfur um hæfni til að fá opinber réttindi til að starfa á tilteknu sviði. Túlkun ráðu­neytisins á 2. mgr. 4. gr. laganna og framkvæmd stjórnvalda leiðir því til þess að settar hafa verið skorður fyrir því að þreyta próf í dómtúlkun sem fela í sér að viðkomandi verði að hafa réttindi sem skjala­þýðandi í báðar áttir. Í þessu sambandi þarf jafnframt að hafa í huga að kröfur laga um opinber leyfi til að stunda tiltekna atvinnu, svo sem löggilding dómtúlka, fela í sér takmörkun á því atvinnu­frelsi sem verndað er í 75. gr. stjórnar­skrárinnar. Í samræmi við þá reglu stjórnar­skrárákvæðisins að þessu frelsi megi þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess, verða lagafyrirmæli um inntak og fyrir­komulag slíks leyfis að vera skýr og glögg. Þá verða þau ekki túlkuð með rýmri hætti, borgaranum í óhag, en leiðir af orðanna hljóðan. Um framangreind sjónarmið má m.a. vísa til dóma Hæstaréttar frá 15. desember 1988 í máli nr. 239/1987 (Hrd. 1988:1532) og 13. apríl 2000 í máli nr. 15/2000 (Hrd. 2000:1621).

     Í málinu liggur fyrir að A var synjað um tækifæri til að verða sér úti um atvinnuréttindi með því að þreyta próf sem hefur þann tilgang að varpa ljósi á færni og þekkingu hennar til að starfa sem dómtúlkur. Í ljósi skýringa ráðuneytisins, sem áður eru raktar, tek ég fram að ég dreg það ekki í efa að þeir sem hafi löggildingu sem skjalaþýðendur í báðar áttir hafi lokið fjórum „umtalsvert meira krefjandi prófum“ og því hafi sá aðili þá þegar sýnt fram á hæfni umfram þá einstaklinga sem hafa eingöngu öðlast réttindi í aðra áttina. Kröfur stjórnvalda um að við­komandi hafi lokið prófum í báðar áttir í skjalaþýðingum til að þreyta próf í dómtúlkun, eins og í þessu máli, setja hins vegar skjala­þýðendum skorður er varða starfsréttindi þeirra og þurfa því að uppfylla áðurnefndar kröfur um lagaheimild og skýrleika hennar.

Þá verður í þessu sambandi að huga að því að lög nr. 148/2000 fjalla um tvær aðskildar löggildingar þar sem könnuð er hæfni á mis­munandi sviðum. Um er að ræða tvö mismunandi próf þar sem færni við ólíkar aðstæður og þýðing milli tungumála er metin. Þannig er dómtúlki falið að þýða það sem sagt er á staðnum og það samtímis en skjalaþýðanda að þýða ritaðan texta og getur gert það við aðrar aðstæður, m.a. er varðar tíma og hugsanleg hjálpargögn. Þrátt fyrir að löggjafinn hafi ákveðið að dómtúlkar skuli einnig vera skjalaþýðendur er það hlutverk prófa að skera úr um hvort aðili uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um að hafa þá þekkingu og færni sem nauðsynleg er til að gegna starfi lög­gilts dómtúlks, þ.e. hvort viðkomandi geti túlkað í báðar áttir. Af þeim sökum get ég ekki fallist á það sjónarmið ráðuneytisins sem fram kemur í bréfi þess til mín, 21. febrúar 2020, að það sé órökrétt að gera þá kröfu til dómtúlks að hann geti túlkað af íslensku yfir á erlent mál og öfugt hafi hann ekki löggildingu sem skjalaþýðandi í báðar áttir. Þar þarf m.a. að hafa í huga þann tilgang prófa í dómtúlkun að varpa ljósi á færni aðila til að starfa sem slíkur. Telji löggjafinn aftur á móti tilefni til að gera slíkar kröfur verður að mæla með skýrum hætti fyrir um það í lögum.

Af framangreindu leiðir að ég fæ ekki séð að 2. mgr. 4. gr. laga nr. 148/2000 hafi svo ótvírætt sé átt að ná til þess að setja skilyrði um að löggiltir skjalaþýðendur þyrftu að hafa próf í að þýða úr íslensku yfir á erlent tungumál og öfugt til að mega þreyta próf í dómtúlkun. Hér að framan hefur verið bent á að þegar gera á slíkar kröfur sem þrengja að atvinnumöguleikum einstaklinga þurfi lagaheimild til að setja slíkar skorður að vera skýr. Það er álit mitt að ekki verði séð að lög­gjafinn hafi veitt heimild til að hægt sé að gera þær kröfur til skjalaþýðenda að þeir þurfi að hafa löggildingu í báðar áttir til að þreyta próf í dómtúlkun, eins og byggt er á í ákvörðun dómsmála­ráðu­neytisins. Ég tel því að ráðuneytið hafi ekki sýnt fram á að ákvörðun þess, um að staðfesta synjun sýslumannsins í Vestmannaeyjum á að A undirgangist próf í dómtúlkun, eigi sér fullnægjandi stoð í lögum.

  

V Niðurstaða

Það er álit mitt að 2. mgr. 4. gr. laga nr. 148/2000, um dómtúlka og skjalaþýðendur, feli ekki í sér fullnægjandi lagaheimild fyrir stjórn­völd til að byggja á því að skjalaþýðendur þurfi að hafa próf í að þýða úr íslensku yfir á erlent tungumál og öfugt til að þreyta próf í dómtúlkun. Það er því niðurstaða mín að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins í máli A frá 9. maí 2019, þar sem á því var byggt, hafi ekki verið í samræmi við lög.

Ég mælist til þess að dómsmálaráðuneytið taki mál A til með­ferðar að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá henni, og leysi þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem hafa verið rakin í álitinu. Jafn­framt beini ég því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu.

   


   

Viðbrögð stjórnvalda

Í bréfi frá dómsmálaráðuneytinu kom fram að A hefði ekki óskað eftir að málið yrði tekið til meðferðar að nýju eftir að álit umboðsmanns lá fyrir. Í kjölfar álitsins hafi verið til skoðunar hvort gera ætti breytingar á fyrirkomulagi löggildingarprófa fyrir skjalaþýðendur og dómtúlka og hvort breyta þurfi lögum og/eða reglugerð. Prófnefnd hafi verið upplýst um álitið.