Opinberir starfsmenn. Staða lögð niður. Auglýsing á lausri stöðu.

(Mál nr. 65/1988)

Máli lokið með áliti, dags. 29. september 1989.
Athugun umboðsmanns leiddi ekki í ljós, að sú ákvörðun iðnaðarráðuneytisins og tiltekinnar ríkisstofnunar, að leggja niður stöðu hjá stofnuninni, hefði verið andstæð lögum eða góðum stjórnsýsluháttum. Umboðsmaður taldi, að deildarstjórastaða hefði verið laus í skilningi 5. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og hefði því átt að auglýsa hana. Síðan hefði við ráðningu í þá stöðu átt að gæta ákvæða 3. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954.

I.

A, sem starfað hafði sem deildarstjóri starfsmannadeildar hjá ríkisstofnuninni X, kvartaði út af því, sem hann taldi óréttmæta persónulega aðför að sér af hálfu ráðamanna hjá X og iðnaðarráðuneytisins, er staða hans hjá X var lögð niður. A taldi, að í framhaldi af því hefði ekki verið fylgt þeirri reglu 5. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að auglýsa lausar stöður í Lögbirtingablaði.

II.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 29. september 1989, sagði svo:

„1. Snemma árs 1984 var skipulagi X breytt í verulegum atriðum. Samkvæmt því skipulagi var fjármálasviði stofnunarinnar skipt í sex aðaldeildir. Þeirra á meðal var starfsmannadeild, sem A veitti forstöðu. Frá því á fyrri hluta árs 1986 fjallaði sérstök skipulagsnefnd á vegum X um þessar breytingar. Í skýrslu, sem nefndin skilaði í febrúar 1987, lagði hún til að skipulagi X yrði breytt í nokkrum greinum. Meðal annars skyldi starfsmannadeild lögð niður sem aðaldeild og hún lögð undir fjárreiðudeild. Niðurstaða stjórnenda X, sem iðnaðarráðuneytið samþykkti fyrir sitt leyti, varð einnig sú, að starfsmannadeild skyldi lögð niður. Starfsmannahaldi var hins vegar skipað undir skrifstofu forstöðumanns X, en öðrum viðfangsefnum starfsmannadeildar til deilda fjármálasviðs. Í framhaldi af þessum ákvörðunum var starf A sem deildarstjóra starfsmannadeildar lagt niður frá og með 1. júní 1988. Athugun mín á þeim gögnum, sem fyrir liggja og varða þá ákvörðun að leggja umrætt starf niður, hefur ekki leitt í ljós, að þar hafi iðnaðarráðuneyti eða X brotið lög á A eða virt góða stjórnsýsluhætti að vettugi með öðrum hætti.

2. A hefur einnig kvartað yfir því, að ráðið hafi verið í stöðu deildarstjóra viðskiptadeildar án þess að staða þessi væri auglýst laus til umsóknar.

Einn þáttur fyrrgreindra breytinga á grundvelli álits skipulagsnefndar frá 1987 var sá, að á fjármálasviði X ríkisins var stofnuð ný deild, viðskiptadeild. Til viðskiptadeildar var lögð gagnavinnsla og innheimta, sem áður heyrðu undir fjárreiðudeild og hagdeild. Deildarstjóri viðskiptadeildar var ráðinn maður, sem áður hafði verið deildarstjóri gjaldskrárdeildar, en sú deild var einnig lögð niður. Gjaldskrárdeild var hins vegar undirdeild.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ber að auglýsa lausa stöðu í Lögbirtingablaði, venjulega með 4 vikna fyrirvara. Kemur þar af leiðandi til úrlausnar, hvort staða deildarstjóra viðskiptadeildar hafi verið laus í skilningi 5. gr., enda kemur ekki fram að málum hafi verið þannig háttað, að deildarstjóri gjaldskrárdeildar hafi verið fenginn til að gegna þessari stöðu til bráðabirgða. Um var að ræða nýja deild á fjármálasviði X. Af gögnum málsins verður og ráðið, að viðskiptadeild hafi verið fengin önnur og til muna umfangsmeiri verkefni en fylgt höfðu stöðu deildarstjóra gjaldskrárdeildar. Niðurstaða mín er því sú, að deildarstjórastaða viðskiptadeildar hafi verið laus í skilningi 5. gr. og hafi borið að auglýsa hana í samræmi við reglur þeirrar greinar. Bar síðan við ráðningu að gæta ákvæða 3. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954. Tel ég ástæðu til að finna að því að þessa var ekki gætt.“