Opinberir starfsmenn. Staða lögð niður hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins.

(Mál nr. 95/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 31. ágúst 1989.

A bar fram kvörtun vegna meintrar ólöglegrar uppsagnar úr starfi hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins og misréttis í launa- og kjaramálum; þar sem hann hefði ekki átt kost á starfi hjá Bifreiðaskoðun Íslands h/f.

Í bréfi til A 31. ágúst 1989 tjáði ég honum eftirfarandi:

„Ég lít svo á, að starf yðar sem bifreiðaeftirlitsmanns hafi verið lagt niður og um réttarstöðu yðar af því tilefni fari eftir lögum nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ég lít hins vegar svo á, að ákvæði laga nr. 62/1988 um breytingu á umferðarlögum nr. 54/1987 hafi ekki takmarkað heimild hlutaðeigandi stjórnvalds til að leggja niður stöður hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins. Þá verður ekki séð að nefnd lagaákvæði hafi veitt fyrrverandi starfsmönnum Bifreiðaeftirlits ríkisins forgang til starfa hjá því hlutafélagi, sem tók við hlutverki stofnunarinnar. Alþingi hefur með lögum veitt dómsmálaráðherra heimild til að standa að stofnun hlutafélags, sem annist skráningu ökutækja, skoðun þeirra og eftirlit, og skylda bifreiðaeigenda til að sækja þessa þjónustu til hlutafélagsins er því byggð á lögum.“

Með hliðsjón af framansögðu skýrði ég A frá því að kvörtun hans gæfi ekki tilefni til nánari athugunar af minni hálfu.