Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði til þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til matsnefndar félagslegra íbúða.

(Mál nr. 138/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 31. maí 1989.

A leitaði til mín 18. maí 1989 og kvartaði yfir því, að Stjórn verkamannabústaða í X-kaupstað hefði beitt röngum aðferðum við útreikning á eignarhluta A í verkamannabústað. Ég greindi A frá því, að samkvæmt 84. gr. laga nr. 86/1988 um Húsnæðisstofnun ríkisins úrskurðaði matsnefnd félagslegra íbúða um ágreining á milli seljanda íbúða og stjórnar verkamannabústaða, þ.á m. um útreikning greiðslu til seljanda. Ég benti A á, að skjóta máli sínu til matsnefndar félagslegra íbúða, þar sem ekki yrði kvartað til umboðsmanns, fyrr en æðra stjórnvald hefði fellt úrskurð sinn í máli, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis og 2. tl. 1. mgr. 5. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis.