Atvinnuréttindi. Atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs. Undanþága frá akstri bifreiðar. Jafnræðisreglan.

(Mál nr. 701/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 8. febrúar 1993.

I. Kvörtun.

A kvartaði yfir afgreiðslu samgönguráðuneytisins á kæru sinni út af þeim ákvörðunum Bifreiðastjórafélagsins Frama og umsjónarnefndar fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu, að synja beiðni hans um undanþágu frá akstri bifreiðar sinnar vegna veikinda.

II. Málavextir.

Samkvæmt gögnum málsins veitti Bifreiðastjórafélagið Frami A undanþágu 13. október 1991 frá akstri bifreiðar í þrjá mánuði. Í janúar 1992 óskaði A á ný eftir því, að félagið veitti sér sams konar undanþágu. Með umsókn sinni lagði A fram læknisvottorð frá 14. janúar 1992. Með bréfi Bifreiðastjórafélagsins Frama 22. janúar 1992 synjaði félagið beiðni A. Vísaði félagið í "6. grein reglna um útgerðir á vegum Frama", þar sem fram komi, að skilyrði fyrir veitingu undanþágu frá akstri leigubifreiðar vegna veikinda sé, að "...viðkomandi stundi ekki aðra vinnu á gildistíma útgerðarinnar". Ákvörðun Frama skaut A til umsjónarnefndar fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu 28. janúar 1992, sem staðfesti ákvörðun Bifreiðastjórafélagsins Frama á fundi sínum 5. febrúar 1992. Áður, eða með bréfi 24. janúar 1992, hafði A borið synjun félagsins undir samgönguráðuneytið. Með bréfi ráðuneytisins 18. september 1992 var ósk A um endurskoðun á ákvörðun nefndarinnar synjað. Í umsögn nefndarinnar 20. febrúar 1992 til samgönguráðuneytisins kom fram, að ástæða synjunarinnar væri sú, að A hefði stundað annað starf á veikindatímanum og að fyrirsjáanlegt væri að A myndi halda því áfram. Breyttu þar ekki neinu um þau læknisvottorð, er A hefði lagt fram með umsókninni.

III.

Samkvæmt a-lið 4. mgr. 9. gr. laga nr. 77/1989 um leigubifreiðar má veita leyfishafa tímabundna undanþágu frá akstri bifreiðar vegna veikinda eða annarra forfalla. Samkvæmt 5. mgr. ákvæðisins er það stéttarfélag fólksbifreiðastjóra, sem annast undanþáguveitingar samkvæmt ákvæðinu eftir nánari fyrirmælum í reglugerð. Í 16. gr. reglugerðar nr. 308/1989 um fólksbifreiðar, sem notaðar eru til leigubifreiðaaksturs og takmarkanir á fjölda þeirra með síðari breytingum, eru fyrirmæli, er heimila leyfishafa tímabundnar undanþágur frá akstri, m.a. vegna veikinda. Er stéttarfélagi fólksbifreiðastjóra ætlað að setja reglur um undanþáguveitingarnar og annast framkvæmd þeirra. Má stéttarfélag fólksbifreiðastjóra veita undanþágu vegna veikinda í allt að þrjá mánuði samtals á hverju almanaksári. Ef óskað er eftir lengri undanþágu, fjallar umsjónarnefnd um málið, er getur veitt undanþágu í allt að tólf mánuði til viðbótar og þar að auki í allt að þrjátíu mánuði vegna alvarlegra og langvarandi veikinda leyfishafa.

IV.

Í bréfi mínu til A 8. febrúar 1993, sagði meðal annars svo:

"Í kvörtun yðar vísið þér til þess, að það hafi verið vegna tilmæla læknis yðar, að þér óskuðuð eftir umræddri undanþágu. Þá tilgreinið þér í kvörtun yðar níu leyfishafa, "... er fengið hafa veikindaútgerð og einnig stundað aðra vinnu að hluta til eða öllu leyti". Hafi undanþágurnar verið veittar á síðastliðnum 3-5 árum.

Í bréfi umsjónarnefndar fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu frá 12. desember s.l., sem vísað er til í bréfi samgönguráðuneytisins, kemur fram, að umræddar undanþágur séu almennt nefndar "veikindaútgerð". Í bréfinu segir meðal annars:

"Í læknisvottorði, sem fylgdi umsókn [A], segir að honum sé ráðlagt að taka sér hvíld frá leigubílaakstri næstu sex mánuðina af heilsufarsástæðum. Nefndin dró það vissulega í efa að heilsusamlegra væri að stunda ökukennslu heldur en leigubílaakstur. Meginástæðan fyrir synjun nefndarinnar var þó sú, að [A] auglýsti ökukennslu sína daglega í DV og lék ekki vafi á því að þar væri um aðalstarf hans að ræða.

Í kvörtunarbréfi [A] er birtur listi yfir níu atvinnuleyfishafa, sem hafi fengið veikindaútgerð en einnig stundað aðra vinnu að hluta til eða að öllu leyti.... Rétt er að taka fram að með lögum og reglugerð um leigubifreiðar, sem tóku gildi 1. júlí 1989, urðu miklar breytingar á heimildum til veikindaútgerða. Í framhaldi af þessari lagasetningu tók núverandi umsjónarnefnd til starfa. Athugasemdir við framangreindan lista miðast því ekki við tímabilið fyrir 1. júlí 1989, nema annars sé sérstaklega getið."

Í bréfi nefndarinnar eru síðan rakin málefni hvers og eins leyfishafa í þeirri röð, sem þér vísið til í kvörtun yðar. Loks segir í bréfi nefndarinnar:

"[A] getur þess í kvörtunarbréfinu, að hann hafi eftir synjun á beiðni um veikindaútgerð sótt um yfirfærslu á atvinnuleyfi sínu til handa launþega sínum, [Z], en verið neitað þrátt fyrir fjölda fordæma undanfarin ár. Synjun á yfirfærslu grundvallaðist á því annars vegar að atvinnuleyfi eru ekki veitt, nema áður hafi verið auglýst eftir umsækjendum, og hins vegar að [Z] skorti starfstíma til þess að hljóta yfirfærsluleyfi. Við úthlutun atvinnuleyfa í júnímánuði 1992 voru engin yfirfærsluleyfi veitt þrátt fyrir fjölda beiðna."

Við athugun á því, hvort yður hafi verið mismunað með umræddri synjun um undanþágu til "veikindaútgerðar" miðað við aðra leigubifreiðastjóra, þá er ég sammála umsjónarnefndinni um það, að þar komi aðeins til álita undanþágur í gildistíð núgildandi laga og reglugerða um leigubifreiðar. Samkvæmt upplýsingum umsjónarnefndarinnar hafa tveir þeirra manna, er þér hafið tilgreint og tekið til samanburðar, svonefndan "almennan útgerðarrétt", óháð veikindum, þar sem þeir hafa gert út bifreiðar, áður en til takmarkana kom á árinu 1956. Einn leigubifreiðastjórinn hafi um tíma verið sviptur undanþágu vegna annarra starfa og einn hætt akstri í maí 1989. Einum þeirra hafi verið synjað um undanþágu og einn enga undanþágu fengið. Kannast umsjónarnefnd ekki við, að dæmi séu um að leigubifreiðastjórar hafi notið undanþágu til "veikindaútgerðar" á þeim tíma, er þeir hafi unnið önnur störf. Liggja að mínum dómi ekki fyrir gögn um ólögmæta mismunun af hálfu stjórnvalda að þessu leyti.

Niðurstaða mín er samkvæmt framansögðu sú, að ekki hafi verið leitt í ljós, að synjun stjórnvalda um umrædda undanþágu til yðar hafi verið ólögmæt."