Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði til þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Réttarágreiningur, sem á undir dómstóla.

(Mál nr. 159/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 13. september 1989.

A leitaði til mín með kvörtun, sem varðaði samskipti hans við fjármálaráðuneytið og samgönguráðuneytið vegna leigu á húsnæði í eigu hans.

Í bréfi til A, dags. 13. september 1989, greindi ég honum frá því, að tiltekin atriði í kvörtun hans byggðust á skýringum hins upphaflega leigusamnings og síðari ákvörðunum samningsaðila. Í því efni kynni m.a. að vera þörf á að taka skýrslur af vitnum og fyrirsvarsmönnum aðila og að leggja mat á sönnunargildi slíkra skýrslna. Taldi ég því, að mál A varðaði réttarágreining, sem ætti undir dómstóla og eðlilegt væri að þeir leystu úr, ef ekki næðust sættir milli aðila.