Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði til þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Krafa ríkissaksóknara um gæsluvarðhald.

(Mál nr. 184/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 16. október 1989.

A, sambýliskona B, lagði fram kvörtun vegna kröfu ríkissaksóknara um gæsluvarðhald B. Taldi A, að um væri að ræða „stórlega misbeitingu valds af hálfu ríkissaksóknara“.

Í bréfi mínu til A 16. október 1989 sagði:

„Samkvæmt ákvæðum laga nr. 74/1974 um meðferð opinberra mála er ríkissaksóknara fengin heimild til að gera kröfu um gæsluvarðhald sökunauts. Dómstólar eiga hins vegar úrlausn um, hvort fallist er á slíka kröfu og í tilviki [B] hafa dómstólar fallist á kröfu um gæsluvarðhald, nú síðast með dómi Hæstaréttar 6. október s.l.

Fyrir liggur að dómstólar hafa lagt mat á réttmæti kröfugerðar ríkissaksóknara um gæsluvarðhald ... [B] og samkvæmt lögum nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, sbr. 4. tl. 3. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla, dómsathafna eða ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, sem bera skal undir dómstóla samkvæmt beinum lagafyrirmælum. Niðurstaða mín er því sú, að ekki séu uppfyllt skilyrði laga til þess að ég geti fjallað frekar um kvörtun yðar.“