Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði til þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Réttur sveitarfélaga og stofnanna á þeirra vegum til þess að leita til umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 190/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 24. október 1989.

Hafnarstjórn í sveitarfélaginu X leitaði til mín með bréfum, dags. 27. september 1989 og 5. október 1989, og kvartaði yfir tilteknum ákvörðunum Byggðastofnunar í tengslum við skipakaup fyrirtækis í X á nauðungaruppboði.

Í bréfi, er ég ritaði hafnarstjórninni 24. október 1989, sagði:

„Ég vísa til bréfs yðar frá 5. þ.m. Af því tilefni skal tekið fram, að lög nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis gefa til kynna, sbr. einkum 2. og 5. gr., að kvörtun verði aðeins höfð uppi af einstaklingum og samtökum þeirra. Hins vegar geti aðilar, sem hafa á hendi stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, almennt ekki kvartað til umboðsmanns út af framkomu annarra stjórnvalda. Er þessi lögskýring studd athugasemdum í greinargerð við frumv. til laga um umboðsmann Alþingis, en þar segir meðal annars: „ ... einkafyrirtæki, sameignarfélög, hlutafélög, samvinnufélög og hvers konar félög geta leitað aðstoðar umboðsmanns og borið fram kvartanir við hann. Mál, sem umboðsmaður tekur til meðferðar að sjálfs sín frumkvæði, þurfa þó ekki beinlínis að varða réttaröryggi einstakra þegna eða félaga gagnvart stjórnvöldum.“(Alþt. 1986, A-deild, bls. 2560.)

Ég tel þó, að sveitarfélag eða einstakar stofnanir þess geti í vissum tilvikum kvartað til umboðsmanns. Einkum getur það átt við, þegar tiltekin réttindi þeirra eru skert af hálfu stjórnvalds ríkisins, án þess að þar sé um að ræða úrlausn í tilefni af því að ákvörðun sveitarstjórnar sé skotið til stjórnvalds ríkisins sem æðra stjórnvalds. Skoðun mín er hins vegar sú, að í máli þessu geti Byggðastofnun ekki talist hafa skert nein nægilega afmörkuð réttindi [X-hafnar], svo sem vera kynni, ef hún hefði verið kaupandi viðkomandi skips.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að lagaskilyrði bresti til þess að ég geti fjallað um málið á grundvelli kvörtunar yðar.“