Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði til þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Öflun upplýsinga í þágu dómsmáls.

(Mál nr. 179/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. september 1989.

A leitaði aðstoðar minnar við öflun gagna vegna reksturs máls, sem hann hafði höfðað fyrir bæjarþingi Reykjavíkur á hendur Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneytinu fyrir hönd ríkissjóðs. Taldi A, að nefndir varnaraðilar væru skyldir til að láta honum í té tilteknar upplýsingar, og hafði A meðal annars lagt þá kröfu fyrir forseta Alþingis að því er Ríkisendurskoðun varðaði. Ég ritaði A bréf, dags. 29. september 1989, og greindi honum frá þeirri niðurstöðu minni, að ekki væru lagaskilyrði til þess, að ég hefði afskipti af öflun umræddra upplýsinga. Væru til þess tvær ástæður og var það útskýrt með þessum hætti í bréfi mínu:

„Í fyrsta lagi nær starfssvið umboðsmanns Alþingis hvorki til Alþingis né Ríkisendurskoðunar, sbr. 1. og 3. tölul. 3. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis.

Þá er þess í öðru lagi að gæta, hvernig háttað sé rétti manna til að krefja stjórnvöld um upplýsingar, sem þau ráða yfir. Þar er ekki settum lögum til að dreifa, en skoðun mín er sú, að víðtækastan rétt af því tagi eigi þeir aðilar, sem í dómsmáli hafa hagsmuni af því að slíkar upplýsingar komi fram. Fyrir liggur, að [A] leitar eftir umræddum upplýsingum í þágu dómsmáls, sem hann hefur þegar höfðað og er nú rekið fyrir bæjarþingi Reykjavíkur. Tel ég því, að það hljóti að koma í hlut dómstóla að fjalla um kröfu hans til þessara upplýsinga. Í samræmi við þá grundvallarstefnu laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, sbr. einkum 2. gr., og reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, sbr. einkum 4. tölul. 3. gr., að umboðsmaður fjalli ekki um dómsathafnir, er það álit mitt að einnig af þessum ástæðum sé ekki rétt að ég láti umrædda gagnaöflun til mín taka.“