Þvingunarúrræði stjórnvalda. Lokun síma vegna ógreidds símareiknings.

(Mál nr. 68/1988)

Máli lokið með áliti, dags. 14. september 1989.

A bar fram kvörtun út af því, að síma hans hefði verið lokað án sérstakrar viðvörunar, en hann var starfandi læknir. Lög nr. 73/1984 um fjarskipti, sbr. 8. tl. 23. gr., veita heimild til þess að útiloka þann, sem ekki stendur skil á á föllnum gjöldum á gjalddaga, frá fjarskiptum, þar til hann hefur greitt skuld sína að fullu. Var því heimild til þess í lögum að loka síma, ef afnotagjöld væru ekki greidd á eindaga, og voru nánari ákvæði um lokun síma í 2. lið XIV. kafla í gjaldskrá og reglum nr. 345/1988. Umboðsmaður leit svo á, að þegar settar væru slíkar nánari reglur um beitingu úrræða samkvæmt heimild í 8. tl. 23. gr. laga nr. 73/1984, bæri að hafa hliðsjón af þeirri meginreglu stjórnarfarsréttar, að stjórnvald skuli ekki fara strangar í sakir en nauðsynlegt er til að leysa það viðfangsefni, sem stjórnvaldinu er falið. Í framangreindum heimildum til að beita lokun síma í tilefni af vanskilum símnotanda væru ekki ákvæði um, að til slíks úrræðis skyldi eigi gripið, nema að undangenginni tilkynningu með hæfilegum fyrirvara. Það yrði hins vegar að telja, að slíkt væri almenn regla, þegar um væri að ræða opinbera þjónustu, sem rækt væri með sama hætti og símaþjónusta. Í framkvæmd fengu einstakir símnotendur viðvörun á útsendum reikningum um að lokun yrði beitt eftir eindaga. Taldi umboðsmaður, að án sérstakra fyrirmæla í lögum eða reglugerðum yrðu ekki gerðar frekari kröfur um slíkar viðvaranir. Ráðrúm símnotenda til að greiða símagjöld sín, án þess að eiga á hættu að gripið verði til lokunar, er samkvæmt gildandi reglum 10 dagar, þó að í framkvæmd kunni frestur fram að lokun síma að vera 15 til 20 dagar, talið frá útgáfudegi reiknings. Það var álit umboðsmanns, að þessi frestur væri stuttur miðað við það óhagræði og tjón, sem getur hlotist af því að síma væri lokað. Bæri að athuga, hvort ekki væri ástæða til að breyta þeim reglum, sem giltu um lokun síma í tilefni af því að gjöld væru ekki greidd á eindaga. Við þá endurskoðun yrði hugað að því að lengja umræddan frest og setja sérstök fyrirmæli um tilkynningar til símnotenda um lokun síma vegna vanskila.

I. Kvörtun.

Með bréfi, dags. 21. desember 1988, kvartaði A yfir því, að heimasíma hans hefði verið lokað fyrirvaralaust og án viðvörunar hinn 20. desember 1988. Hélt A því fram, að hvorki hefði sér verið kunnugt að hann ætti ógreiddan símareikning né hefði hann fengið ítrekun vegna ógreidds símareiknings, þegar símanum var lokað.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með vísan til 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis óskaði ég eftir því, að samgönguráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Jafnframt óskaði ég eftir því, að mér yrðu látnar í té upplýsingar um, hvort og þá hvernig Póst- og símamálastofnunin tilkynnti talsímanotanda um fyrirhugaða lokun síma í tilefni af ógreiddu símagjaldi og hvort gengið væri eftir því, að símnotandi fengi vitneskju um slíka tilkynningu, áður en síma væri lokað.

Svar samgönguráðuneytisins barst mér með bréfi þess, dags.12. apríl 1989. Ráðuneytið vísaði í svari sínu til umsagnar Póst- og símamálastjóra frá 1. mars 1989, en hann vísaði til svars símstjórans í Reykjavík frá 28. febrúar 1989. Nefnt svar símstjórans í Reykjavík hljóðaði þannig:

„Með tilvísun til bréfs samgönguráðuneytisins dags. 22. febr. 1989 og erindis umboðsmanns Alþingis varðandi lokun á heimasíma A skal eftirfarandi tekið fram:

I. Almennt um símalokanir.

Að jafnaði eru símareikningar gefnir út ársfjórðungslega og þá 1. dag útgáfumánaðar. Eindagi reikninga er síðan 10. dagur útgáfumánaðar.

Þetta er skýrt tekið fram á öllum útsendum símareikningum og jafnframt að búast megi við lokun síma fyrsta virkan dag eftir eindaga hafi reikningurinn þá ekki verið greiddur.

Í kringum eindaga eru símnotendur síðan minntir á ógreidda reikninga og jafnframt að eindagi sé 10. dagur hvers útgáfumánaðar. Er það gert með tilkynningu í útvarpi og sjónvarpi.

Á símstöðinni í Reykjavík hefjast lokanir eftir 15. dag útgáfumánaðar, en þó yfirleitt ekki fyrr en um 20. og dreifast á 3-4 daga.

Tveimur dögum fyrir lokanir eru keyrðir út lokunarlistar og þá hringt til viðvörunar í þau fyrirtæki á listunum, sem þar eru auðkennd (fyrirtæki með 2 línur eða fl. samtengdar), svo og til þeirra sem sérstaklega hafa óskað eftir að hringt væri í áður en símum þeirra væri lokað.

Gjaldfrestir eru iðulega veittir bæði þessum aðilum og öðrum og þá sérstaklega ef greitt er inn á viðkomandi reikning. Oftast eru þessir frestir til næstu mánaðarmóta og hafi ekki verið greitt á tilsettum tíma er gripið til svokallaðrar endurlokunar fljótlega eftir mánaðarmótin.

II. Lokun á síma A, 91- ...

Þann 1. des. 1988 var gefin út ársfjórðungsreikningur á síma 91- ... að upphæð kr. ... Reikningur þessi var póstlagður daginn áður eins og venja er, með það að markmiði að hann yrði kominn í hendur símnotanda á útgáfudegi. Eindagi reikningsins var 10. desember.

Viðvaranir voru fluttar á Rás I og Rás II í Ríkisútvarpinu dagana 12. og 13. des. alls 7 sinnum og 4 skjáauglýsingar voru birtar í Sjónvarpinu sömu daga.

Þar sem umræddur reikningur var ógreiddur þann 20. des. lenti síminn 91- . . . í lokun, er fram fór þann dag, ásamt fleiri símum sem eins var ástatt um.

A hafði símasamband við skrifstofu símstjóra um kl. 15 sama dag og kvartaði yfir fyrirvaralausri lokun.

Af því tilefni var síminn opnaður þó greiðsla hefði þá ekki borist. Reikningurinn var síðan greiddur þann 6. janúar.

Einnig var, í tilefni af kvörtun A, og með tilliti til þess að hér var um starfandi lækni að ræða, símanúmer hans og nafn skráð á listann yfir þá aðila, sem hringt er í áður en til lokunar kemur.“

Hinn 27. júlí 1988 átti ég fund með Póst- og símamálastjóra og nokkrum öðrum fyrirsvarsmönnum Póst- og símamálastofnunar. Á fundi þessum var meðal annars rætt um innheimtu afnotagjalda af síma.

III. Álit umboðsmanns Alþingis.

Í áliti mínu vegna þessa máls gerði ég grein fyrir úrræðum Póst- og símamálastofnunar í tilefni af því að reikningar fyrir símaafnot eru ekki greiddir á eindaga. Úrræðin eru þau, sem að neðan greinir:

1) Útilokun frá fjarskiptum.

Í 8. tl. 23. gr. laga nr. 73/1984 um fjarskipti er svohljóðandi ákvæði:

„Þann, sem ekki stendur skil á áföllnum gjöldum á réttum gjalddaga fyrir fjarskipti eða afnot fjarskiptavirkja, má útiloka algerlega frá öllum fjarskiptum, hvort heldur er til hans eða frá honum, um óákveðinn tíma, þar til hann hefur greitt skuld sína að fullu.“

2) Uppsögn.

Segja má símasambandi upp um mánaðarmót með minnst eins mánaðar fyrirvara, nema þar sem sérákvæði gilda, og skal uppsögn vera skrifleg, sbr. 4. lið XIV. kafla gjaldskrár og reglna nr. 345/1988 fyrir símaþjónustu.

3) Lögtak.

Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1885 um lögtak og fjárnám án undanfarins dóms eða sáttar má taka afnotagjöld síma lögtaki.

Í 9. gr. laga nr. 73/1984 eru fyrirmæli þess efnis, að samgönguráðherra setji, að fengnum tillögum Póst- og símamálastofnunarinnar, gjaldskrá fyrir þjónustu, sem stofnunin veitir. Í 11. gr. laga nr. 36/1977 um stjórn og starfrækslu póst- og símamála eru einnig fyrirmæli þess efnis, að ráðherra ákveði í gjaldskrá gjöld, sem greiða ber Póst- og símamálastofnuninni fyrir þjónustu, er hún veitir. Hinn 20. desember 1988, er síma A var lokað, var í gildi gjaldskrá og reglur nr. 345/1988 fyrir símaþjónustu. Í 2. lið XIV. kafla eru svohljóðandi ákvæði um greiðsluskilmála:

„2.1. Skráður rétthafi síma ber alla ábyrgð á greiðslum til Póst- og símamálastofnunarinnar vegna notkunar á símabúnaði hans.

2. Eindagi síma- og radíógjalda er 10. dagur hvers mánaðar, og skal Póst- og símamálastofnunin sjá um, að reikningar berist símnotendum með góðum fyrirvara. Fyrsta virkan dag eftir eindaga verður símalokunum beitt við innheimtu skulda að upphæð krónur 870,00 og hærri. Innheimt verður gjald, krónur 155,00 fyrir lokun og enduropnun talsímasambands. Séu síma- og/eða radíógjöld eigi greidd þrem mánuðum eftir eindaga, verða þau send til lögtaks samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1885.“

IV. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 14. september 1989, sagði svo:

„Samkvæmt framansögðu heimila lög nr. 73/1984 um fjarskipti, sbr. 8. tl. 23. gr. , að útiloka þann, sem ekki stendur skil á áföllnum gjöldum á gjalddaga, frá fjarskiptum, þar til hann hefur greitt skuld sína að fullu. Heimild er því til þess í lögum að loka síma, ef afnotagjöld eru ekki greidd á eindaga, og eru nánari ákvæði um lokun síma í 2. lið XIV. kafla í gjaldskrá og reglum nr. 345/1988. Þegar settar eru slíkar nánari reglur um beitingu úrræða samkvæmt heimild í 8. tl. 23. gr. laga nr. 73/1984, ber að hafa hliðsjón af þeirri meginreglu stjórnarfarsréttar að stjórnvald skuli ekki fara strangar í sakir en nauðsynlegt er til að leysa það viðfangsefni, sem stjórnvaldinu er falið. Einnig ber að hafa í huga að Póst- og símamálastofnunin hefur einkarétt til að reka símaþjónustu hér á landi, sbr. 7. gr. laga nr. 73/1984 um fjarskipti og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1977 um stjórn og starfrækslu póst- og símamála. Jafnframt verður á hinn bóginn að gæta þess, að um er að ræða þjónustu, sem Póst og símamálastofnun lætur miklum fjölda manna í té, og er því nauðsyn einfaldra og virkra aðferða við innheimtu gjalda.

Í framangreindum heimildum til að beita lokun síma í tilefni af vanskilum símnotanda eru ekki ákvæði um, að til slíks úrræðis skuli ekki gripið nema að undangenginni tilkynningu með hæfilegum fyrirvara. Það verður hins vegar að telja að slíkt sé almenn regla, þegar um er að ræða opinbera þjónustu, sem rækt er með sama hætti og símaþjónusta.

Samkvæmt upplýsingum símstjórans í Reykjavík, sem birtar eru hér að framan, er þeirri reglu fylgt af hálfu Póst- og símamálastofnunarinnar, að tekið er fram á öllum útsendum símareikningum að eindagi reikninga sé 10. dagur útgáfumánaðar og búast megi við lokun síma fyrsta virkan dag eftir eindaga, hafi reikningurinn ekki verið greiddur þá. Þá kemur fram, að nálægt eindaga séu símnotendur síðan minntir á ógreidda reikninga og jafnframt að eindagi sé 10. dagur hvers útgáfumánaðar. Er þetta gert með tilkynningu í hljóðvarpi og sjónvarpi.

Af framansögðu er ljóst, að í framkvæmd fá einstakir símnotendur viðvörun á útsendum reikningum um að lokun verði beitt eftir eindaga. Ég tel, að án sérstakra fyrirmæla í lögum eða reglugerðum verði ekki gerðar frekari kröfur um slíkar viðvaranir. Vissulega er sú hætta jafnan fyrir hendi að reikningur berist ekki til rétts viðtakanda eða glatist. Þegar hins vegar er höfð hliðsjón af hinni reglubundnu innheimtu símareikninga ársfjórðungslega og fjölda símnotenda, verður ekki talið, að án sérstakra fyrirmæla í lögum eða reglugerðum verði sú skylda lögð á Póst- og símamálastofnun að senda út sérstakar viðvaranir af þessu tilefni.

Gjaldskrá og reglur nr. 345/1988 heimila að síma sé lokað fyrsta virkan dag eftir eindaga, ef símagjald hefur ekki verið greitt, en í raun er símum ekki lokað fyrr en nokkru síðar, svo sem fram kemur í fyrrgreindum upplýsingum símstjórans í Reykjavík. Reikningar eru gefnir út 1. dag almanaksmánaðar og símagjald fellur í eindaga 10. dag útgáfumánaðar. Ráðrúm símnotenda til að greiða símagjöld sín án þess að eiga á hættu að gripið verði til lokunar er því samkvæmt gildandi reglum 10 dagar, þó að í framkvæmd kunni frestur fram að lokun síma að vera 15 til 20 dagar, talið frá útgáfudegi reiknings. Að mínu áliti er þessi frestur stuttur miðað við það óhagræði og tjón, sem getur hlotist af því að síma er lokað. Niðurstaða mín er sú, að athuga beri, hvort ekki sé ástæða til að breyta þeim reglum, sem nú gilda um lokun síma í tilefni af því að gjöld eru ekki greidd á eindaga. Við þá endurskoðun verði hugað að því að lengja umræddan frest og sérstök fyrirmæli verði sett um tilkynningar til símnotenda um lokun síma vegna vanskila. Ber í því sambandi að taka tillit til þess að lokun síma er ekki eina úrræði Póst- og símamálastofnunarinnar til innheimtu vangreiddra símgjalda samkvæmt lögum og reglum um þá starfsemi, sbr. heimildir til uppsagnar á símasambandi og lögtak vegna þessara gjalda.

Í fyrrnefndri greinargerð símstjórans í Reykjavík kemur fram, að til er skrá yfir aðila, sem hringt er í, áður en til lokunar kemur. Engin ákvæði eru í lögum eða reglum um slíka undanþágu og tel ég ástæðu til að kveða á um slíkar undanþágur í reglum um símaþjónustu, þannig að símnotendum sé kunnugt, hvaða reglur gildi um skráningu í slíka skrá og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla. ...

A hefur tekið sérstaklega fram, að honum hafi ekki verið kunnugt, að hann ætti símareikning ógreiddan, og að hann hafi ekki fengið neina ítrekun um greiðslu slíks reiknings, þegar síma hans var lokað. Ekki hefur komið fram, að af hálfu Póst- og símamálastofnunar hafi orðið mistök varðandi útgáfu og sendingu þess reiknings, sem hér um ræðir. Í samræmi við þau sjónarmið, sem ég hef lýst hér að framan, tel ég, að samkvæmt þeim lögum og reglum, sem nú eru í gildi, verði þess ekki krafist, að einstakir símnotendur séu varaðir sérstaklega við, áður en síma þeirra er lokað, umfram það sem .gert er við útgáfu símareikninga og með almennum tilkynningum. Ég tel því ekki tilefni til athugasemda, að því er varðar sérstaklega þann hátt, sem hafður var á lokun síma A hinn 20. desember 1988. ...

Ég leyfi mér að mælast til þess, að samgönguráðuneytið og Póst- og símamálastofnun hyggi að breytingum á reglum um innheimtu gjalda fyrir símaafnot í samræmi við þau sjónarmið, er ég hef gert grein fyrir hér að framan.“

V. Viðbrögð stjórnvalda.

Með bréfi, dags. 19. desember 1990, spurðist ég fyrir um það hjá samgönguráðuneytinu, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í máli þessu í tilefni af tilmælum í áliti frá 14. september 1989. Svar samgönguráðuneytisins, dags. 14. janúar 1991, er svohljóðandi:

„Jafnframt því að vísa til bréfs yðar, hr. umboðsmaður Alþingis, dags. 19. desember sl., upplýsir ráðuneytið að með reglugerð nr. 519 frá 24. desember 1990, um breytingu á gjaldskrá og reglum um símaþjónustu nr. 396/1990, voru gerðar breytingar á reglum um innheimtu gjalda fyrir símaafnot. Tóku umræddar breytingar gildi 1. janúar sl. og fylgja hjálagt.

Helstu breytingar eru þessar:

Samkvæmt 2.4. grein reglugerðarinnar verður útilokun símasambanda vegna vangoldinna gjalda ekki beitt fyrr en frá 15. næsta mánaðar eftir gjalddaga, í stað fyrsta virka dags eftir eindaga, eins og áður var. Ef ætla má vegna framkominna atvika að notandi geti ekki greitt gjaldskuldir sínar á gjalddaga þeirra er þó heimilt að beita útilokun símasambanda fyrirvaralaust, nema notandi setji fullnægjandi tryggingu fyrir gjaldskuldinni og væntanlegri notkun á yfirstandandi afnotatímabili, sbr. grein 2.5.

Ennfremur er hugtakið gjalddagi skilgreint, sbr grein 2.2. sem fyrsti dagur hvers mánaðar. Eindagi er nú 15 dögum eftir gjalddaga, í stað 10. hvers mánaðar, sbr. gr. 2.3.

Ákvæði um greiðsluskilmála voru gerð fyllri, án þess þó að um efnisbreytingu sé þar að ræða.“