Starfssvið umboðsmanns o.fl. Gengisáhætta vegna greiðslu á erlendu endurláni.

(Mál nr. 12/1988)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. desember 1988.

Sveitarstjóri sveitarfélagsins A bar 17. maí 1988 fram kvörtun af því tilefni, að neitað hefði verið viðtöku greiðslu afborgana og vaxta af tveimur lánum hjá Búnaðarbanka Íslands, en lán þessi voru bæði endurlán á erlendu lánsfé, annað í vestur-þýskum mörkum og hitt í bandaríkjadollurum. Fyrsti gjalddagi beggja lánanna var 13. maí 1988. A óskaði hinn 11. maí 1988 eftir því að fá að greiða afborganir og vexti með gjalddaga 13. maí 1988 en því var hafnað af bankanum, þar sem ekki væri venja að taka við greiðslum sem þessum fyrr en á gjalddaga.

Hinn 13. maí 1988 bauð A einnig fram greiðslu en viðtöku hennar var neitað, þar sem gengisskráning hefði verið felld niður og gjalddagi hefði því færst til næsta virka dags, eftir að gengi væri skráð á ný. Þegar greitt var af lánunum 16. maí 1988 þurfti A að greiða rúmlega kr. 80.000.00 meira en afborganir og vextir hefðu orðið miðað við eldra gengi. Taldi sveitarstjóri A að bankanum hefði ekki verið heimilt að neita að taka við greiðslu 11. eða 13. maí 1988.

Skuldabréfin höfðu að geyma svofellt ákvæði:

“Þar sem um endurlánað erlent lánsfé er að ræða, skuldbindur lántaki sig til að endurgreiða Búnaðarbanka Íslands allan kostnað er Búnaðarbankinn þarf að greiða vegna lántökunnar og endurgreiðslu lánsins að engu undanskildu.“

Í tilefni af kvörtun þessari aflaði ég upplýsinga frá viðskiptaráðuneytinu, Seðlabanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Búnaðarbankinn tók fram í bréfi sínu, dags. 26. september 1988, að við útreikning á greiðslum afborgana og vaxta af erlendum lánum væri fylgt þeirri reglu að nota sölugengi viðkomandi gjaldmiðla á gjalddaga/greiðsludegi erlendis. Í þessu tilviki hefði fyrsti greiðsludagur verið 13. maí 1988 en þar sem engin gengisskráning hefði verið hjá Seðlabanka Íslands þann dag, hefði reglum samkvæmt verið notað gengi næsta virka dags eftir gjalddaga, sem í þessu tilfelli hafi verið 16. maí 1988. Orðrétt sagði í bréfi bankans:

„Í því sambandi viljum við nefna að á þessum tíma, þ.e. í maí síðastliðnum, var ítrekað áréttuð af hálfu Seðlabankans sú regla að viðskiptabankarnir hefðu ekki heimild til að selja viðskiptaaðilum sínum gjaldeyri fyrirfram til að mæta væntanlegum, ógjaldföllnum greiðslum vaxta og afborgana erlendra lána. Þar af leiðandi var Búnaðarbanka ekki heimilt að taka við greiðslu vegna þessara umræddu lána þann 11. maí eins og um var beðið af hálfu ... A ... Ennfremur var bankanum ekki unnt að taka við greiðslu þann 13. maí s.l., þar sem gengisskráning lá þá niðri ...“

Ég ritaði A bréf 29. desember 1988 og þar sagði m.a.:

„Ég tek fram, að bankaviðskipti falla almennt utan starfssviðs míns, svo sem það hefur verið markað í 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Eiga dómstólar Iokaorð um ágreining í viðskiptum af þessu tagi. Ég taldi hins vegar rétt að kanna mál þetta, þar sem í því reynir meðal annars á almennar reglur um gjaldeyrisviðskipti, sem settar eru af handhöfum ríkisvalds.

Greiðsludagur samkvæmt umræddum skuldabréfum var 13. maí 1988. Það er skoðun mín, að samkvæmt almennum reglum um heimild og skyldu skuldara til greiðslu samkvæmt skuldabréfum, hafi Búnaðarbanka Íslands ekki verið skylt að taka við greiðslu fyrir þann dag. Hinn 13. maí var gengi erlends gjaldmiðils miðað við íslenska krónu ekki skráð. Er það álit mitt, að Búnaðarbankinn hafi ekki borið áhættu af niðurfellingu gengisskráningar og að bankanum hafi ekki verið skylt að taka við greiðslu á gjalddaga 13. maí, þar sem gengi var þá ekki skráð, en fjárhæð greiðslu í íslenskum krónum átti að ráðast af skráðu gengi. Frestaðist skylda og réttur til að inna greiðslu af hendi til þess tíma, er gengi var skráð á ný, og bar þá að miða fjárhæð greiðslu í íslenskum krónum við sölugengi á greiðsludegi, eins og berum orðum er tekið fram í skuldabréfunum. Þá tel ég, að gjaldeyriskaup Búnaðarbankans um það leyti sem gengisfelling varð, geti ekki skipt máli í lögskiptum bankans og sveitarsjóðs.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að ekki sé ástæða til að ég hafi frekari afskipti af máli því, sem hér um ræðir og kvörtun yðar lýtur að.“